12.6.2008 | 23:58
Álið fram úr fiskinum? Nei, og á langt í land.
Fjölmiðlar éta nú hver upp eftir öðrum í stórum fyrirsögnum að álið sé komið fram úr fiskinum og jafnvel þótt menn lesi áfram um það að átt sé við tekjur af í útflutningsverðmæti er með þessu verið að gefa í skyn að álið vegi þyngra en fiskurinn í þjóðarbúskapnum. En það er alrangt. Þvert á móti er virðisaukinn fiskinum meira en tvöfalt meiri en af álinu og það er það, sem skiptir máli, ekki það bókhaldsatriði hve mikið fæst fyrir álið af gjaldeyri.
Álframleiðslan byggist á því að flytja inn hráefni yfir þveran hnöttinn og umbreyta því til að flytja aftur út. Fiskinn þarf ekki að flytja inn, - hann fáum við í lögsögu landsins.
Jónas Kristjánsson hefur notað orðið kranablaðamennsku yfir það fyrirbæri þegar fjölmiðlar fá fréttatilkynningar og birta þær nær óbreyttar og athugasemdalaust án þess að útskýra málið frekar né kafa niður í málið.
Lesandi sem sér nánast sömu fyrirsögnina í hverjum fjölmiðlinum af fætur öðrum um dýrð álsins sem komið sé fram úr fiskinum er fóðraður aftur og aftur á hálfsannleik, sem getur verið verri en lygi, ekki hvað síst þegar hamrað er á honum aftur og aftur og ekkert annað kemst að.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)