18.6.2008 | 22:21
Ferskur handboltaandblær í fótboltann.
Mikið óskaplega var gaman að horfa á leik Rússa í kvöld þegar þeir rassskeltu hugmyndasnauða Svía. Hraðaupphlaup Rússa minntu á hraðaupphlaup í handbolta og þau splundruðu ráðvilltri vörn Svía. Hvað eftir annað voru minntu þessar sóknir á hinar frægu sóknir gullaldarliðs Ungverja á árunum 1950-56 þar sem boltinn gekk ógnarhratt á milli framherja sem geystust upp í samfelldar og tafarlausar sóknir á ógnarhraða.
Maður var að vona að Svíar hefðu lært eitthvað í seinni hálfleik en það var öðru nær. Þegar þeir náðu boltanum léku þeir oftast upp vinstri kantinn og boltanum var þá hvað eftir annað eikið aftur á meðan verið var að stilla sókninni upp og sænsku framherjarnir að koma sér fyrir í teignum.
Framherjar Svía hrúguðust þá í hnapp vinstra megin við miðju og oftast var enginn Svíi hægra megin við miðjuna. Rússar fengu nógan tíma til að stilla vörninni upp og réðu oftast auðveldlega við háu sendingarnar sem komu utan af vinstri kantinum inn á þéttan hóp leikmanna þar sem Svíarnir nánast hjálpuðu Rússunum við að mynda múr af mönnum sem ekki var hægt að koma boltanum í gegnum.
Í leik Rússa við lið eins og lið Hollendinga verður spennandi að sjá hvort slíkir andstæðingar muni refsa Rússunum fyrir að geysast svona margir fram með því að fara í óslitið og gagn-hraðaupphlaup þegar Rússar missa boltann í vítateig andstæðinganna.
Hraði Ungverjaboltinn er kominn aftur! Gaman! Gaman!
![]() |
Rússar komust í átta liða úrslit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.6.2008 | 22:08
Flugbann út úr korti.
Sjálfsagt var og eðlilegt að setja lágflugsbann á Hraun á Skaga og tryggja að ekki kæmist styggð að bjarndýrinu, sem þar var. Sjö mílna fjarlægð og 5000 feta hæð var hins vegar út úr öllu korti í bókstaflegri merkingu. Þetta samsvarar því að bjarndýr væri á ferð í Laugardalnum í Reykjavík og flugvél sem flygi yfir Esjuna í 4500 feta hæð hefði brotið samsvarandi flugbann.
Svona óskynsamlegar og fráleitar reglur letja menn frekar er hvetja til að brjóta þær. Með þessu er á engan hátt afsakað lágflugið sem átti sér stað. En reglur verða að styðjast við skynsamleg mörk og byggjast á þekkingu, sem virðist hafa skort þegar þetta flugbann var ákveðið.
![]() |
Ísbjarna leitað úr lofti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)