Að stilla upp við vegg - aðferðin.

Iðnaðarráðherra hefur nú slegist í hóp þeirra sem beita  "að stilla upp við vegg - aðferðinni", sem hefur svínvirkað í virkjanamálum. Dæmi: Fyrst var sagt að 120 þúsund tonna álver nægði fyrir Austurland og aðeins Jökulsá í Fljótsdal virkjuð. Þegar búið var að reka málið nógu lengi og kosta í það fé var stillt upp nýrri stöðu: Álverið ber sig ekki nema það sé þrefaldað að stærð og báðar austfirsku jökulárnar teknar.

Í Helguvík er mönnum hvað eftir annað stillt upp við vegg með vígsluathöfnum og yfirlýsingum sem ráðherrar SF taka þátt í.

Fyrir norðan á að keyra álver áfram þótt vanti losunarheimildir og óvíst sé um orku. Loforð SF um að ekki verði farið inn á óröskuð svæði verður svikið með því að beita Ingólfsfjallsaðferðinni á háhitasvæðið fyrir austan og norðaustan Mývatn með umhverfisspjöllum sem ég mun rekja nánar síðar. 

Ingólfsfjallsaðferðin fólst í því að jarðýta ruddi braut frá gryfjum í fjallsrótum upp á fjallsbrún og síðan var allt fjallið skilgreint sem eitt og sama óslitna malargryfjusvæðið, - þess vegna hægt að halda áfram með gryfjurnar norður allan Grafning!  

Greinilegt er að Leirhnjúkur og Gjástykki eru með Ingólfsfjallsaðferðinni skilgreind sem hluti af Kröflusvæðinu og þess vegna hægt að halda áfram norður í Öxarfjörð og suður í Fremri-Námur og Öskju til suðurs með Ingólfsfjallsaðferðinni.  

Framlenging mjög hæpins rannsóknarleyfis í Gjástykki tveimur dögum fyrir kosningar sýnir að Össur samþykkir Ingólfsfjallsaðferðina ljúflega fyrir norðan.

Ef í ljós kemur að orkan verður ekki nóg á háhitasvæðunum þarna verður mönnum síðar stillt upp við vegg og neyddir til að taka Skjálfandafljót og árnar í Skagafirði. Og fínt að eiga Jökulsá á Fjöllum til vara, enda fyrir hendi flott áætlun um að virkja Dettifoss og hleypa 160 rúmmetra rennsli á hann á ferðamannatímanum. (Að sumarlagi er rennslið venjulega 2-3svar sinnum meira en það).

Fyrir liggur rannsókn á viðbrögðum erlendra ferðamanna við svo litlu rennsli kuldatímabil eitt smemmsumars og var niðurstaðan sú að "enginn kvartaði", allir trúðu því að þetta væri kraftmesti foss Evrópu.  


Spurning um birtingu, - ekki töku.

Eftir nær fjögurra áratuga reynslu af því að koma á alla stórslysastaði þessara ára er niðurstaða mín þessi: Taka á allar þær myndir, sem mögulegt er að taka, bæði nærmyndir og fjarmyndir. Ef það er ekki gert geta glatast heimildir fyrir komandi tíma eða gögn vegna rannsóknar. Stóra viðfangsefnið og það vandasamasta er birtingin.

Sumar myndirnar geta verið þess eðlis að þær skuli aldrei birta almenningi. Sumar myndirnar kunna að vera þannig að geyma skuli þær óbirtar í ákveðinn tíma, allt að 75 árum (samanber lög um grafarhelgi).
Þegar um er að ræða myndir teknar í mismunandi fjarlægð skal gæta þess við fyrstu birtingu að sýna tillitssemi við aðstandendur og aðra með því að birta myndir, sem gefa áhorfandanum það til kynna að fyllsta tillitssemi sé viðhöfð.
Fréttaljósmynd 20. aldar var að mínum dómi mynd Finnboga Rúts Valdimarssonar af líkum skipverjanna á Pourqois Pas? Sagði meira en þúsund orð. Á okkar tímum væri hætta á að yfirvald á staðnum bannaði í fljótræði að taka slíka mynd.
Í fyrsta stórslysinu, sem ég kom að, snjóflóðinu í Neskaupstað, heyktist ég á því að taka mynd, sem hefði getað orðið táknrænasta myndin af þeim harmleik einhvern tíma í framtíðinni. Ég tel ekki rétt að óathuguðu máli að segja frá því nú, hvert myndefnið var.
Á Súðavík glötuðust ómetanleg gögn vegna reynsluleysis stjórnenda á staðnum. Á Flateyri höfðu menn lært og valdir voru tveir menn, reyndasti ljósmyndarinn og reyndasti kvikmyndatökumaðurinn, til að fara inn á svæðið og taka myndir fyrir alla fjölmiðla.
Allar myndir, sem hægt var að taka, voru teknar og síðan valið úr til birtingar.

mbl.is Umhverfisráðuneytið furðar sig á ályktun Blaðamannafélagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband