11.7.2008 | 17:50
Hinn "gríðarlegi ferðamannastraumur við Kárahnjúka".
Á sínum tíma sýndi Landsvirkjun glæsimyndir sem áttu að sýna mikinn ferðamannafjölda við Kárahnjúka eftir að virkjað yrði. Virkjunin yrði forsenda þess og sýndir voru fjallaklifrarar utan í stíflunni og fólk sem þaut um lónið á seglbrettum og bátum og tjaldaði og var við leiki og útveru.
Í sumar hafa borist fréttir í fjölmiðlum, sem hafa átt að sanna hve mikið aðdráttarafl þessa svæðis ykist við virkjun. Virkjanasinnar hafa hent þetta á lofti í skrifum sínum.
Nú hef ég verið þar í alls níu daga í fjórum ferðum í sumar og aldrei séð ferðamenn á ferli nema þrjá bíla í fyrradag og tvo ferðamenn 12. júní. Samt hefur verið þarna 15-20 stiga hiti, sól og blíða dögum saman. Ég hef gengið, ekið og flogið yfir vegi og slóða sem eru á annað hundrað kílómetra og síðustu tíu árin aldrei séð jafn fáa á ferli.
Nú kann að vera góður ferðamannastraumur sé í byggð austur í Fljótsdal að Hengifossi, Skriðuklaustri, Végarði og stöðvarhúsi virkjunarinnar. En þaðan eru meira en 50 kíómetrarar að stíflunum við Kárahnjúka og Hálslóni, sem er heldur ókræsilegt um þessar mundir, með splunkunýjar tuga kílómetra sandleirur og rofabörð af mannavöldum.
Í sumar hefur verið eindæma stilliviðrasamt og ekki hreyft vind svo neinu nemi í þurru veðri. Ekki hefur því fengist reynsla varðandi sandstorma. Þegar ég var á sandleirunum við Töfrafoss kom smá golukaldi sem nægði til að gefa mér færi á að kvikmynda sýnishorn af því hvað hinn þurri sandur þurfti lítið til að fjúka.
Glansmynd Landsvirkjunar og virkjanasinna af örtröð ferðamanna á Kárahnjúkasvæðinu er enn bara glansmynd. Fréttir af gríðarlegum ferðamannastraumi þar upp frá byggjast á misskilningi og kannski líka af því, að vegna þess hve fá vitni eru af fámenninu þar er hægt að segja sögur af örtröð án þess að eiga á hættu að þær séu leiðréttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)







