13.7.2008 | 21:51
Að vera viðbúinn.
Björn Bjarnason reynir að opna Evrópuumræðuna í annað sinn með þessu útspili sínu, - fyrst gerði hann það þegar hann talaði um það sem hann kallaði "vegvísi" inn í Evrópu. Björn virðist á leið í átt til þeirrar afstöðu sem Íslandshreyfingin gerði að sinni fyrir síðustu kosningar, að Íslendingar ættu strax að fara að vinna heimavinnu sína í alvöru í þessum málum til þess að fá úr því skorið til hlítar hvaða kostir byðust. Annað væri ábyrgðarleysi.
Aðeins þannig væri hægt að fá úr því skorið hvort hugsanlegum samningum við ESB fylgdu slíkir annmarkar gagnvart yfirráðum Íslendinga yfir auðlindum sínum að þeir kæmu ekki til greina.
Í Staksteinum Morgunblaðsins og sjónvarpsfréttum var rokið upp með látum eftir að Lárus Vilhjálmsson hafði rætt málið fyrir hönd I-listans í sjónvarpsumræðum um utanríkismál og útskýrt fyrrnefnda stefnu. Sagt var að með þessu hefði Lárus lýsti yfir skilyrðislausum stuðningi Íslandshreyfingarinnar við inngöngu í ESB, en það var alrangt.
Innan Íslandshreyfingarinnar hafði Elvira Mendes, doktor í Evrópuréttti, sem var í framboði fyrir flokkinn, reifað fyrir okkur frambjóðendunum möguleika á undanþágum og afbrigðum fyrir Íslendinga, sem hún taldi geta verið mun meiri en látið væri í veðri vaka og vísaði þar til undanþága og afbrigða sem aðrar þjóðir hefðu fengið í gegn.
Augljóst er að með því að útiloka allt slíkt fyrirfram fæst ekki úr því skorið hvað sé í boði. Björn Bjarnason og fleiri virðast nú vera að átta sig á þessu.
![]() |
Evruleið fremur en aðildarleið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)