22.7.2008 | 12:08
Er sóknin alltaf besta vörnin?
Í fjölmiðlum er talað um að ráð hinna nýju þjálfara til að lyfta Skagaliðinu upp felist í að skerpa sóknina. Sumir tala um að Guðjón hafi lagt of mikla áherslu á varnarleikinn. Ég er ekki viss um að þetta sé sú patent-lausn sem leysi vandann. Ef Skaginn hefði átt að vinna Breiðablik hefðu sóknarmennirnir orðið að skora sex mörkum meira en þeir gerðu!
Ég sá að vísu ekki leikinn en myndirnar af mörkum Breiðabliksmanna sýndu glögglega Skagavörn, sem var eins og rjúkandi rúst. Toppliðunum hefur í sumum leikjum nægt að skora eitt mark til að fá stig, - nú síðast Valsmönnum og í leiknum við Breiðablik skoruðu Skagamenn þó eitt mark. Slök byrjun Valsmanna í sumar stafði mest af því að vörnin brást.
Ég er einlægur aðdáandi góðs sóknarleiks og hata markalaus jafntefli. Fátt er leiðinlegra eða meira frárhrindandi fyrir áhorfendur en leikir, þar sem varnirnar leika svo mikið aðalhlutverk að úr verður leiðindaþóf manna, sem hópast saman við vítateigana sitt hvorum megin.
En markatalan í leiknum við Breiðablik talar sínu máli og raunsæi verður að ráða meira förinni en draumórar. Það er óhjákvæmilegt að bæta vörnina og þar lenda bræðurnir í rústabjörgun í næstu leikjum.
Auðvitað er það rétt að með góðu sóknarspili heldur lið boltanum lengur og gefur andstæðingunum færri tækifæri til að byggja upp sínar sóknir. Þannig voru Skagaliðin á gullaldarárunum en á fyrstu gullöldinni á sjötta áratugnum áttu þeir ekki bara bestu sóknarmennina, heldur líka besta miðvallarpar landsins, Guðjón Finnbogason og Svein Teitsson.
Í markinu stóð lengst af landsliðsmarkvörðurinn Helgi Daníelsson og það kom fyrir að meira en helmingur landsliðsins væru Skagamenn.
Þótt ég sé Framari hef ég miklar taugar til Skagamanna frá fornu fari, - annars hefði ég varla gert textann "Skagamenn skoruðu mörkin." Ný gullöld byggist á auðvitað á því en það dugir ekki að skora mörk ef menn fá á sig fleiri mörk en skoruð eru.
Líklega byggjast vonir Skagamanna á því að allt liðið endurheimti sjálfstraust sitt svo að vörn jafnt sem sókn smelli saman og að það sjáist ekki aftur sama hörmungin og ráðvillt og galopin vörnin var í leiknum við Breiðablik, sem flestir Akurnesingar vilja áreiðanlega gleyma sem fyrst.
![]() |
„Akranes er félagið okkar“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |