29.7.2008 | 11:47
Dresden, - stærsta fyrirgefning stríðsins?
Bakgrunnur sjónvarpsmyndarinnar Dresden í Sjónvarpinu í fyrrakvöld var stærsta stríðsglæpurinn í seinni heimsstyrjöldinni að mínum dómi, ef miðað er við einstakan atburð og mannfall. Í handbók minni um stríðið dag frá degi stendur að minnst 135 þúsund manns hafi verið drepnir, en hugsanlega allt að 250 þúsund.
Borgin var full af flóttafólki, sem var að flýja rússneska herinn sem var kominn yfir Oder. Þessi fagra og friðsæla borg hafði enga hernaðarlega þýðingu. Samkvæmt myndinni var logið í bresku flugmennina sem réðust á borgina að þar væru vopnaverksmiðjur og fjölmennur her á leið til vígstöðvanna. Efna þyrfti loforð Churchills við Stalín og standa við þá yfirlýsingu hans að þýska nasismanum yrði eytt og borgir hans yrðu sprengdar til grunna. ("Blasted from the surface of the earth.")
Hefndin er undirrót mestu illsku hverrar styrjaldar og ef miðað er við framkvæmd og brotavilja var loftárás Þjóðverja á Belgrað 6-8 apríl 1941 verri glæpur en árásin á Dresden þótt ekki tækist að drepa eins marga. Hitler kallaði árásina "Bestrafung" eða refsingu. Refsa átti fyrir það að Júgóslavar gerður stjórnarbyltingu án blóðsúthellinga sem Hitler var ekki þóknanleg.
Árásin miðaðist við það að hámarka eyðileggingu og mannfall og dagana 7. og 8. apríl eltu Stuka-flugvélar flóttafólkið frá borginni og stráfelldi það á flóttanum. Belgrað var, eins og Dresden, óvarin borg og 17 þúsund manns voru drepnir.
Nú er reynt að feta sáttaleið milli Serba og þjóða Vestur-Evrópu, en þá verður að fyrirgefa allt að 6-700 ára gamlar misgerðir sem enn virðast undirrót átaka á Balkanskaga.
Þegar ég hitti gamla konu við bæinn Demyansk 500 km fyrir norðvestan Moskvu fyrir þremur árum spurði ég hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið, sem þar voru innilokaðir í fjóra mánuði veturinn 1941-42, alls 110 þúsund menn. Ég bjóst við slæmri lýsingu, því að í hernaðinum höfðu Hitler og hans menn lýst því yfir að drepa ætti Rússa og misþyrma þeim miskunnarlaust að vild, vegna þess að Genfarsáttmálinn gilti ekki í Rússlandi.
Konan sagði að þýski herinn hefði verið venjulegur her, - innan um hrottar og illmenni eins og ævinlega væri í herjum, en langflestir hermannanna hefðu verið ósköp venjulegir ungir menn sem höfðu litla hugmynd um það af hverju þeir voru komnir langt inn í napurt vetrarríki fjarlægs lands. "Við vorum hins vegar óstjórnlega hrædd við Finnana, - þeir voru hræðilegir, hreinar skepnur."
Ég varð fyrir áfalli við að heyra þetta sagt um Norðurlandabúa en þegar ég hugsaði málið betur skildi ég af hverju Finnunum hafði verið svona heitt í hamsi. Þeir voru að hefna fyrir árás Rússa á þá veturinn áður. Þýsku hermennirnir voru ekki að hefna neins. Hefndarhugur getur afvegaleitt hvern sem er.
Í endurreisn Dresden hafa menn leitað eftir sáttum og gagnkvæmri fyrirgefningu. Hefndarhugur gerir alltaf illt verra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)