14.8.2008 | 13:48
Sólarmegin í lífinu.
Að undanförnu hef ég átt nokkrum sinnum leið vestur Laugaveg, Bankastræti og Austurstræti og virt mannlífið fyrir mér. Sjá má augljós áhrif tveggja staðreynda.
1. Sólin er þessa dagana hæst í aðeins 34 gráðu hæð á hádegi í Reykjavík í stað 45 - 55 gráðu hæðar í borgum Evrópu. Síðdegis er munurinn meiri því að það munar meira um að sólin lækki úr t.d. 34 í 24 gráður en hún lækki niður í 35-45 gráður.
Upp úr miðjum september er mesti sólarhæð í Reykjavík komin niður í aðeins 25 gráður og síðdegis lekur nún niður fyrir 20 gráðurnar.
2. Meðalhiti miðdags í Reykjavík er sjö stigum lægri en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna og munurinn enn meiri hvað snertir borgir sunnar í álfunni.
Af þessu tvennu leiðir það sem blasir við á ferð um miðborgina: Fólk sest í björtu og góðu veðri við borð úti á stéttunum sólarmegin þar sem húsin sunnanmegin skyggja ekki á sólina.
Fjölmennast er þar sem húsin skyggja síst á sól, t.d. efst í Bankastræti, Við Vallarstræti og Austurvöll og vestast í Hafnarstræti.
Ef menn segja að það sé vegna þess að veitingastaðir séu fyrir tilviljun á þessum stöðum held ég að það sé þveröfugt.
Veitingarstaðir eiga betri sóknarfæri ef þeir hafa möguleika fyrir viðskiptavinina til að sitja úti við á góðviðrisdögum.
Þeir eiga meiri möguleika til að vera "sólarmegin í lífinu" eða "on the sunny side of the street."
Niðurstaða: Hærri hús og meiri skuggar minnka möguleika á útilífi og aðlaðandi mannlífi í þeim bæjum og borgum þar sem eru köldustu sumur í Evrópu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)