Stóriðjan stýrir för.

Sjálstæðiflokkurinn er við stjórnvölinn á stóriðjuhraðlestinni og fær til sín annað hvort "sætustu stelpuna á ballinu" eða "næstsætustu stelpuna á ballinu" til að fara með sér heim. Í ríkisstjórn gegnir Samfylkingin þessu hlutverki og leiðari Þorsteins Pálssonar byggðist á því að æsa Sjálfstæðismenn í borginni til að krækja sér aftur í stóriðjustelpuna sem fór frá þeim síðastliðið haust.

Í leiðaranum var þungamiðjan sú sem dregur stóriðjusinnana saman, þ. e. hin gamla síbylja um það að eina ráðið til að verjast samdrætti í þjóðarbúskapnum sé að herða á virkjanaframkvæmdum.

Í orði kveðnu heitir þetta "rástafanir í atvinnumálum" en er í raun hin skefjalausa stóriðjustefna sem engu eirir. Einkennin eru hin sömu og hjá fíklum. Eftir að farið var af stað með það að spenna hér þenslu upp úr öllu valdi 2003 með framkvæmdunum fyrir austan svo að efnahagslífið var í svipuðu ástandi og alki á blindfyllerí, geta þeir sem að því stóðu ekki horfst í augu við timburmennina heldur verða að fá sér eins sterkan afréttara og hægt er.

Á ofþenslutímabilinu fóru til dæmis húsbyggingar langt fram úr þörfum og afleiðingin er stórfelldur samdráttur, sem hefði ekki orðið ef hér hefði verið efnahagsstjórn byggð á framsýni.

Línurnar í borgarstjórn ráðast undir niðri og í raun af afstöðu flokkanna til stóriðjufyllerísins. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skera sig úr sem hreinir stóriðjuflokkar. Samfylkingin er beggja blands en Vinstri grænir og fullrúar F-listans, sem eru reyndar félagar í Íslandshreyfingunni, eru andvígir því offari sem stórðjusinnar vilja fara og þess vegna á móti Bitruvirkjun.

Ég held að það þurfi ekki sérstaka glöggskyggni til að sjá að Sjálfstæðismenn og Framsókn myndu fyrr eða síðar ná aftur saman í borgarstjórn á þessu kjörtímabili, hvattir af forystumönnum flokka sinna.

Óskar Bergsson hefur ekki farið dult með það að hann vill þessa Bitruvirkjun og allir farsarnir undanfarna mánuði hafa aðeins verið millileikir í refskák fyrir Sjálfstæðismenn og Framsókn, Það þurfti næði til að skipta út mönnum til að minnka lyktina af REI-klúðrinu, stokka forystuna í borginni upp, og bæta við Bitruvirkjunarmálið öðrum ágreiningsefnum til að fá átyllu til gera það, sem hugurinn stóð alltaf til undir niðri.

Já, stóðiðjan stýrir för og tekur sinn toll. Á Hellisheiði stendur til að kreista svo mikla orku úr jörðu að hún endist aðeins í nokkra áratugi og láta síðan afkomendum okkar eftir að finna 600 megavött annars staðar. EKki á að hika við að taka ákvarðanir sem bitna á yfirgnæfandi meirihluta kjósenda, þeim sem eru ófæddir.

Þessi stefna samsvarar því að Ólafur Thors, Bjarni Ben, Emil Jónsson og Gylfi Þ. hefðu virkjað fyrir álverið í Straumsvík á þann hátt að orkan væri búin núna og við sætum uppi með afleiðingarnar af svona siðlausri ákvörðun.

Aðeins af þessum ástæðum einum er Bitruvirkjun framkvæmd, sem er okkur ekki sæmandi, burtséð frá öllum umhverfisspjöllunum, sem hún veldur.


mbl.is Bitruvirkjun á kortið á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband