Vesturbyggð vanrækt einu sinni enn?

Heyrði í fréttum að samgönguráðherra ætlaði að bera það upp á fjórðungsþingi Vestfirðinga að færa gangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar einu sinni enn aftar í forgangsröðinni. Í þetta sinn verði göng mili Skutulsfjarðar og Álftafjarðar tekin fram fyrir.  Ég segi "enn einu sinni" því að göngin á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar hefðu að mínu mati átt að koma á undan Héðinsfjarðargöngunum og jafnvel enn fyrr. 

Með þessu er verið að reka íbúa Vesturbyggðar í fang rússneskra huldumannanna sem enginn fær að vita hverjir eru en íbúar Vesturbyggðar ætla að treysta fyrir öllu sínu og afkomenda sinna. 

Sú hugsun getur verið í undirmeðvitundinni hjá þeim sem ráða ferðinni í þessum málum að úr því að "99,9%" líkur séu á olíuhreinsistöð við Arnarfjörð geti fólkið á Suðurfjörðum ekki í ofanálag ætlast til þess að fá jarðgöngin líka.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fyrstu mistökin hafi verið gerð í kringum 1980 þegar ákveðið var að tengja fyrst saman Ísafjörð og Hólmavík. Ein af röksemdunum fólst í svonefndri Inndjúpsáætlun sem tíminn leiddi í ljós að var slíkir loftkastalar, að maður hlær og grætur þegar maður les hana í dag.

Ef ákveðið hefði verið að leggja áherslu á stystu leið til Reykjavíkur sem liggur um norðurhluta Breiðafjarðar og Gilsfjörð væri staðan önnur nú.  


Hollenskt vandamál á Íslandi?

Á 42 þúsund ferkílómetrum lands býr 16 milljóna þjóðin Hollendingar. Á 103 þúsund ferkílómetra landi búa 300 þúsund Íslendingar í hundrað sinnum dreifbýlla landi. Furðu má gegna að í lang dreifbýlasta landi Evrópu skuli menn vera að setja á flot hugmyndir um að þurrka upp stór sjávarsvæði fyrir byggð eins og nú má sjá greint frá í Fréttablaðinu.

Núverandi miðja íbúabyggðar í Reykjavík er inn undir Elliðaárdal. Byggð, sem risi á þurru landi í mynni Skerjafjarðar, er jafn langt frá þeirri miðju og Blikastaðaland, svæðið við Úlfarsá eða í við Urriðavatn.

Núverandi miðja íbúabyggðar er skammt frá þjóðleiðinni Akureyri-Mosfellsbær-Mjódd-Smári-Garðabær-Hafnarfjörður-Reykjanesbær og þjóðleiðinni frá krossgötum þeirrar leiðar austur á Suðurland.

Íbúðabyggð út við Seltjarnarnes myndi rísa fjær þessum þjóðleiðum en svæðin sem nú eru óbyggð við Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og Reykjanesbraut.

Látið er í veðri vaka að þessi uppþurrkunarlausn sé svo fjarska ódýr, kosti aðeins örfáa milljarða. Þá gleyma menn því að með því eru hafnarmannvirki Kópavogs og næsta athafnahverfi við þau gerð ónýt.

Reykvíkingar myndu missa útivistar, baðstrandar- og siglingamöguleikana við strandlengjuna frá Ægissíðu inn fyrir Nauthósvík.

Hugsanlegt uppþurrkunarsvæði er í landi fimm sveitarfélaga og þarf samþykki þeirra allra og í kostnaðarútreikningum er alveg sleppt þeim kostnaði sem fylgir því að þurfa að dæla öllu affallsvatni og rigningarvatni á þessu svæði UPP til sjávar.

Svæðið er á lista yfir fyrirhuguð náttúruverndarsvæði sem verði friðuð.

Ég fæ ekki annað séð en að þessi hugmynd sé skemmtileg stúdía fyrir verkfræðinga og til vangaveltna fyrir þá sem hafa gaman af slíku en ég vissi það ekki fyrr en nú að landþrengsli væru orðin slík í landdreifbýlasta landi Evrópu að þörf væri á svipuðum örvæntingarlausnum og hjá þeirri þjóð þar sem þéttbýlið er hundrað sinnum meira.

Sögurnar af riddaranum sem barðist við vindmyllurnar voru skemmtilegar. Þannig getur það líka orðið um þær sögur sem hægt verður að spinna upp af riddaranum sem ætlar að berjast við þyngdaraflið með vatns- og skolpdælum.


Bloggfærslur 19. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband