20.8.2008 | 14:40
Að skapa störf sem hverfa aftur.
Í fyrirsögn fréttarinnar um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á ströndum, - "skapar 200 ný störf", - felst grunnhugsun þeirra sem geta ekki hugsað sér að slaka á virkjunarframkvæmdum á Íslandi. Þeir sem lesa fyrirsögnina og upphaf fréttarinnar fá glýju í augun, - vaaá þetta er fleira fólk en á heima í hreppnum núna!
Og í framhaldi af því geta menn byrjað að leika sér að gömlum reikningi: 200 ný störf skapa minnst 500 afleidd störf og þar með mun fólki á svæðinu fjölga um meira en þúsund! Æðislegt!
Í lok fréttarinnar kemur síðan sannleikurinn í ljós: "Áætlað er að um 200 manns fái vinnu meðan á framkvæmdatímanum stendur." Sem sagt, 200 manns koma inn á svæðið og fara síðan svipað því sem gerðist hinum megin við flóann á tímum Blönduvirkjunar þar sem fólki hefur fækkað stöðugt eftir að virkjunin var reist.
Hugurinn er ekki leiddur að því hvernig þeir peningar, sem leggja á í þetta, nýtast til framtíðar. Þaðan af síður er hugað að því hvaða náttúruverðmætum á að fórna eða hvaða möguleika náttúruverndarnýting á þessu svæði gæti gefið fjárhagslega.
![]() |
Virkjun Hvalár skapar 200 ný störf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
20.8.2008 | 13:34
Átti hún að fara í fyrra skiptið?
Svar mitt er já. Ef Þorgerður Katrín hefði ekki farið til Peking til að vera viðstödd upphaf Ólympíuleikanna hefði það þótt einkennilegur tvískinningur að hún færi núna. Þess vegna tel ég að sú ákvörðun hennar hafi verið rétt að fara sem ráðherra íþróttamála til opnunar leikanna og sýna með því íslensku afreksfólki og íþróttahreyfingunni sjálfsagða virðingu og stuðning á stærsta íþróttaviðburði heims.
Þótt ég sé ekki hrifinn af Bush Bandaríkjaforseta tel ég að hann hafi gert rétt í því að lesa Kínverjum fyrst ærlega pistilinn og fara síðan og sýna löndum sínum samstöðu á leikunum.
Ég hef áður rakið í pistil í hvaða ógöngur menn leiðast ef þeir láta stjórnmál hafa áhrif á leikana, sem hafa það að aðalsmerki að vera leitast við að vera griðastaður, utan við pólitísk átök.
Ólympíuleikarnir 1980 og 1984 eru dæmi um órökrétta pólitíska íhlutun, - Bandaríkjamenn sniðgengu leikana í Moskvu 1980 vegna innrásar Sovétmanna í Afganistan til að steypa Talibönum en rúmum tuttugu árum síðar réðust Bandaríkjamenn sjálfir inn í Afganistan til að steypa þessum sömu Talibönum, sem þeir höfðu áður stutt gegn Sovétmönnum.
1984 hefndu Sovétmenn sín með því að sniðganga leikana í Los Angeles. Sandkassaleikur.
Ég tel það vanmat á gildi íþrótta að amast við þeim og hafa allt á hornum sér gagnvart þeim. Fyrstu árin eftir að við Íslendingar fengum endanlegt sjálfstæði áttu engir meiri þátt í því að koma okkur á kortið sem sjálfstæðri alvöru þjóð en afreksmennirnir sem vörpuðu ljóma á landið á einstæðri gullöld íþróttanna hér á landi.
![]() |
Íhugar að fara aftur út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2008 | 13:17
Leiðin frá 1962 og íþróttahús M.R.
Fyrir þá sem muna eftir heimsmeistaramótinu i handknattleik 1962 er gaman að endurlifa sælar stundir frá þeim tíma þegar strákunum okkar gengur vel. Íslendingar voru þá algerlega óþekktir í handboltanum en náðu í sjötta sætið á HM og unnu í aðdragandanum óvænt sjálfa Svía, sem voru þá taldir vera með annað af tveimur bestu handboltaliðum heims.
Íslendingar höfðu geymt leynivopn sitt, Ingólf Óskarsson, fyrir Svíaleikinn, og hann, ásamt Gunnlaugi Hjálmarssyni, Ragnari Jónssyni, Erni Hallsteinssyni, Birgi Björnssyni, Karli Jóhannssyni og félögum, kom Svíum í opna skjöldu.
Ef ég man rétt töpuðum við síðan fyrir Ungverjum sem taldir voru með lakara lið en Svíar. En þessi frammistaða var auðvitað ótrúleg vegna þeirra aðstæðna sem leikið var við hér heima. Leikið var í gömlum hermannabragga að Hálogalandi í Reykjavík í sal sem var alltof lítill og ég minnist enn þess lúxus sem það þótt þegar farið var í eitt sinn suður á Keflavíkurflugvöll til að leika í stærra húsi.
Segja má að árið 1962 hafi handboltinn stimplað sig inn sem þjóðaríþrótt Íslendinga og þess vegna tel ég það menningarsögulegt slys að lofa ekki gamla íþróttahúsinu við Menntaskólann í Reykjavík að standa eins og það er svo að hægt sé að skoða þær slóðir þar sem Valdimar Sveinbjörnsson íþróttakennari innleiddi handboltann í sal sem var lítið stærri en betri stofa í venjulegri íbúð.
Þar kynntust ýmsir af fremstu íþróttamönnum þess tíma töfrum íþróttanna, t.d. gullaldaríþróttamennirnir Örn Clausen, Haukur Clausen og Hörður Haraldsson.
Safna ætti saman myndum í líkamsstærð af öllum þeim afreksmönnum, sem þar stigu sín fyrstu spor fyrr og síðar ásamt myndum af íþróttakennurunum frá þessum tímum og hafa þessar myndir til sýnis á ákveðnum tímum, þegar húsið væri opið fyrir almenning.
Íþróttahúsið í heild er aðeins um 2% af skólalóðinni og með nútíma tækni á að vera auðvelt að koma bókasafninu, sem menn vilja troða þar inn, fyrir annars staðar, ofan jarðar eða neðan.
![]() |
Króatar unnu - Danir leika ekki til úrslita |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)