21.8.2008 | 17:31
Útfarir af nýjum toga.
Eitt af einkennum efri ára er að vera viðstaddur útfarir fólks og skrifa minningargreinar. Þetta kom mér ekki á óvart þegar að því kom, en ekki óraði mig fyrir því að þurfa að eyða mestöllum tíma mínum og fjármunum í að vera viðstaddur kveðjustundir sumra af dýrmætustu svæðum íslenskrar náttúru og gera um það heimildir, nokkurs konar minningargreinar, í myndum og máli.
Ég var að koma til Akureyrar úr einni slíkri ferð yfir Kelduá, sem fáir þekkja. Hún er austasta vatnsfallið sem Kárahnjúkavirkjun krefst og stendur til að svipta henni af yfirborði jarðar í október.
Í umfjöllun minni af virkjanaframkvæmduum eystra hefur Kelduá setið á hakanum vegna þess að mér hafði verið talin trú um að þetta væri ómerkileg smáá og lónið fyrir ofan stífluna yrði á "örfoka landi."
Þegar ég skoðaði loks ána í fyrrahaust komu í ljós alveg ótrúlega fallegar fossaraðir, sem þurrkaðar verða upp, - og fyrir ofan stífluna verður sökkt landi sem að hluta til er flatt með fagursveigðum árkvíslum og grónum, fagurgrænum hólmum. "Örfoka land" eða hitt þó heldur og ég var sjálfum mér reiður fyrir að hafa vanrækt eyðingu þessarar ár.
Í ferðinni núna var ég feginn að hafa tekið myndir af þessum fallegu hólmum í fyrrahaust, því að nú er þetta hólma- og kvíslasvæði allt sundurtætt af vinnuvélum.
Það verður erfitt og mjög dýrt að taka verðugar myndir af Kelduá áður en henni verður stútað og vafasamt að nóg fjármagn fáist til þess, því að aðstæður við fossaraðirnar eru þannig að jafnvel með nauðbeitingu flugvélar og erfiðum gönguferðum er ekki hægt að ná af þeim nógu góðum myndum, - það þarf dýra þyrlu til.
Eyðing íslenskra náttúruverðmæta er orðin að faraldri og dapurlegt að þurfa að keppast við að fylgjast með öllum útförunum sem ekkert lát virðist ætla að verða á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)