Ekki stúta Kaldá !

Aðeins sex kílómetra frá Hafnarfirði rennur lítil á, Kaldá að nafni frá Kaldárbotnum framhjá Kaldárseli og hverfur ofan í hraunið eftir aðeins rúmlega tveggja kílómetra rennsli ofanjarðar. Þetta er eina áin á öllu svæðinu frá Elliðaám og Kópavogslæk út undir Reykjanes.

En þessi yfirlætilausa á er miklu merkilegri en virðist við fyrstu sýn. Sá hluti hennar sem rennur neðanjarðar er langstærsta vatnsfallið á Reykjanesskaga og straumurinn svo sterkur þar sem hún fellur til sjávar neðanjarðar hjá Straumi við Straumsvík að í gamla daga þurftu sjómenn ekki að fara í land til að sækja sér vatn, heldur gátið ausið því upp úr sjónum við ströndina.

Þetta er svo sem engin furða því að úrkoman á Reykjanesfjallgarðinum er fjórfalt meiri en í Reykjavík og gríðarlegt vatnsmagn sem landið þarf að hrista af sér til sjávar.  

Undanfarinn áratug hefur Kaldá átt undir högg að sækja og stundum verið næstum vatnslaus. Þá hefur verið ömurlegt að koma að henni, en ég kem þangað oft á hverju ári og var þar í sumarbúðum 3x2 mánuði á árunum 1947-49. 

Í mínum huga er morgunljóst að það verður að rannsaka ítarlega þetta einstæða náttúrufyrirbæri áður en menn fara að dæla miklu viðbótarvatni úr Kaldárbotnum. Það þarf að tryggja að alltaf sé nóg vatn í Kaldá og það á að vera hægt miðað við það óhemju vatnsmagn sem fellur af Reykjanesfjallgarðinum til norðvesturs. 

Þegar útlendingar vilja sjá eitthvað merkilegt á hálftíma í Reykjavík, fer ég með þá að Kaldá og það bregst ekki að útsýnið til vesturs af bökkum hennar rétt fyrir neðan Kaldárbotna heillar þá upp úr skónum. 

Nú treysti ég á félagið "Hraunavini" ef ég man heiti þess rétt, að taka þetta mál upp á sína arma. Kaldá er eitt merkilegasta og óvenjulegasta vatnsfall landsins.  

 


Smátt er fagurt - og stórt.

Okkur finnst kannski ekki rétt að nota orðið örþjóð um Íslendinga, en 300 þúsund manns komast vel fyrir í einu hverfi af borgum nágrannalanda okkar. Í síðastu mótum hefur mér sýnst að mannfæðin hafi háð okkur, - það eru einfaldlega takmörk fyrir því hvað svona lítil þjóð getur á hverjum tíma búið til marga afreksmenn í fremstu röð á heimsmælikvarða.

Lykilmenn "strákanna okkar" hafa verið orðnir þreyttir í síðustu leikjum alþjóðamóta þeirra vegna þess hve þurft hefur að keyra áfram á sömu mönnunum og þeir orðnir útkeyrðir í lokaleikjum sínum.

Þetta kom okkur í koll síðast. Lykilmenn voru meiddir eða að ná sér upp úr öldudal og þá nægði ekki að vera með ofurþjálfarann Alfreð Gíslason við stjórnvölinn, - hann hafði einfaldlega ekki úr nægilega miklu að moða. Lið stórþjóðanna höfðu slíka breidd og mannval að ekki þurfti að keyra neinn mann út, - það var ævinlega hægt að skipta jafnfrábærum mönnum inn á.

Allt hefur verið frábært hjá strákunum á þessum Ólympíuleikum en mér sýnist muna mest um það að leikmennirnir hafa allir verið í sínu besta formi og breiddin nægilega mikil til að hægt hefur verið að hvíla þá nægilega hvern um sig til að halda þeim í toppformi allan tímann.

Það er einstætt afrek að jafn lítil þjóð skuli hafa getað teflt fram verðlaunaliði í flokkaíþrótt. Auðveldara er fyrir slíka þjóð að eignast afburðamenn í einstaklingsíþróttum.

Tvívegis áður hafa Íslendingar átt hópa afreksfólks sem hafa varpað ljóma á landið. 1950 sendum við hóp frjálsíþróttamanna á Evrópumeistaramót í frjálsum íþróttum þar sem tvö gull unnust en alls voru möguleikar á sex gullverðlaunum og níu verðlaunum alls

Í annað sinn vöktum við undrun erlendis þegar heimsmeistarar Frakka í knattspyrnu máttu hafa sig alla við tila að vinna okkur naumlega í raunverulegum keppnisleik í riðlakeppni Evrópumeistarakeppni fyrir framan nær fullskipaðan aðalleikvang Parísar.

Þótt mun færri iðki handbolta í heiminum en fjálsar íþróttir og knattpyrnu er afrek strákanna nú líklega mesta íþróttaafrekið, ekki hvað síst ef fyrsti ólympíugullpeningurinn kemur í hlut Íslendinga.

Til hamingju! Ekki bara með afrekið, strákar, heldur ekki síður með það hvernig þið hafið virkjað alla þjóðina og gefið henni ómetanlega gjöf.


mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þekkt misminni.

Vitnisburðir geta oft verið rangir þótt vitnin geri sitt besta til að segja satt og rétt frá. Eitt þekktasta dæmi um þetta er oft nefnt í kennslu í lagadeildum háskólanna en það er það að í meira en 90% tilfella þar sem flugvél hrapar og eldur kemur upp í lendingu, minnir vitni að eldurinn hafi komið upp á flugi.

Ástæðan er talin sú, að í undirmeðvitundinni raðast atburðir oft í sennilega röð án þess að vitnið fái við það ráðið. Vitnið sjá tvennt, hrap vélar og eldsprengingu og þessir tvö atriði raða sér í sennilega röð í endurminningu vitnisins.

Sjálfur hef ég lent í þessu sem vitni. Ég stóð fyrir norðan skýli númer eitt á flugvellinum, sá flugvél koma undarlega hægt fram hjá horninu á skýlinu og fara seint og illa í loftið. Þá fór hreyfillinn að hiksta og vélin brotlenti að lokum norðan við norræna húsið.

Eftir að ég hafði borið um þetta vitni og einnig það að afl hreyfilsins hefði verið undarlega lítið og vélin á lítilli ferð með hikstandi hreyfil.

Ég var þá nýbúinn að vera í lagadeild og vissi að vitnisburður minn gæti komið flugmanninum illa vegna þess að hann yrði álitinn hafa haldið áfram í flugtaki vitandi að hreyfillinn væri í ólagi.

Ég bað því um nánari upplýsingar um flugtakið og komst þá að því að aldrei þessu vant hafði flugmaðurinn fengið leyfi til að hefja flugtakið við brautarmót á miðjum velli. Það var skýringin á því af hverju vélin fór svona hægt fram hjá skýlishorninu fyrir framan mig, en standandi þar hafði ég enga möguleika á að sjá aðdragandann og í undirmeðvitundinni færðust gangtruflarnar fram í atburðarásiinni í minningu minni vegna þess að engin leið var fyrir mig að skilja ástæðu hins misheppnaða flugtaks á annan veg.


mbl.is Röð atburða leiddi til þess að vél Spanair fórst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr orrustuvöllur.

Ólafur F. Magnússon gekk sem óháður til liðs við Frjálslyndaflokkinn í borgarstjórnarkosningunum 2002. Þá átti það mestan þátt í því að honum tókst að fylgja fram umhverfisstefnu sinni á vettvangi borgarmálanna, að orrustuvöllur stóriðjustefnunnar og náttúrunýtingarstefnunnar var að mestu utan suðvesturhornsins. Þingmenn flokksins höfðu meira að segja setið hjá í atkvæðagreiðslum á þingi um stórvirkjanir á Austurlandi.

Af þessum sökum ónáðaði það ekki fylgismenn álvera úti á landi mikið þótt Ólafur og samherjum hans væri gefinn býsna laus taumur í Reykjavík.

Góður árangur Ólafs 2002 gerði honum kleift að heyja umhverfisbaráttu í kosningunum 2006 með öflugum samherjum á borð við Margréti Sverrisdóttur, Guðrúnu Ásmundsdóttur og Ástu Þorleifsdóttur. Með því að bæta flugvallarmálinu við og gera það að nokkurs konar aðalmáli og sérstöðu framboðsins jók F-listi frjálslyndra og óháðra fylgi sitt verulega.

En á núverandi kjörtímabili borgarstjórnar hafa aðstæður breyst. Í aðdraganda alþingiskosninganna 2007 kom berlega í ljós að Frjálslyndi flokkurinn var orðinn stóriðjuflokkur. Með tilkomu álvers í Helguvík og útþenslu álvera og virkjana á Suðvesturlandi hafa átökin um stóriðju- og virkjanastefnuna færst inn í sveitarstjórnarmál á svæðinu og þar með inn í borgarstjórn Reykjavíkur eins og Bitruvirkjun er gott dæmi um.

Haustið 2006 hefði ég talið heppilegast að breikka fylkingu umhverfisverndarfólks án þess að fjölga framboðum með því að Frjálslyndi flokkurinn yrði grænn. En það varð hann því miður ekki eftir hið farsakennda landsþing sitt í janúar 2007.

Aðeins var tímaspursmál hvenær stóriðjuflokkarnir úr síðustu ríkisstjórn tækju höndum saman í borgarstjórn Reykjavíkur eins og nú hefur gerst í annað sinn og ynnu að því að láta stóriðju- og virkjanadrauma sína rætast.

Í frjálslynda flokknum ræður stóriðjustefnan ríkjum og með yfirráðum Jóns Magnússonar og fylgismanna hans yfir nýstofnuðu borgarmálafélagi flokksins er búið að úthýsa þaðan náttúrunýtingarstefnunni og því sem Jón kallar "kofasósíalisma" Ólafs F. Magnússonar. Þar að auki hefur Jón lýst því yfir að verði innanlandsflugið ekki áfram í Vatnsmýri vilji hann að hann það flytjist til Keflavíkur, sem er sá kostur sem á einna minnst fylgi.

Jón, sem hefur stundað stanslausar árásir á Ólaf F. og umhverfisverndarfólk um langa hríð, vígbýst nú í stóriðju-og steypuvirki borgarmálafélagsins og er ákveðinn í að varna Ólafi og skoðanasystkinum hans inngöngu, hvað sem Kristinn H. Gunnarsson, formaður þingflokksins segir.

Af yfirlýsingum Jóns, Magnúsar Þórs og fleiri ráðamanna í Frjálslynda flokknum má ráða að nú eigi ekki að líða F-listanum í Reykjavík að gefa andstæðingum stóriðjustefnunnar lausan taum á vettvangi borgarstjórnar eins og þótti í lagi hér áður fyrr. Vígstaðan hefur breyst og stóriðjusinnarnir í flokknum hafa reist borgarvirki til yfirráða yfir borgarmálastefnu hans.

Ef í brýnu slær út af þessu mætast stálin stinn því Ólafur er einn allra fremsti og ötulasti baráttumaður fyrir umhverfissjónarmiðum, sem við höfum eignast, en Jón hins vegar stóriðjusinni, - algerlega á öndverðum meiði við Ólaf um flest s.s. náttúruvernd, húsafriðun og flugvöll.

Ég tel Ólaf meira en lítið hugaðan að ætla sér í slag við ofurefli liðs í víggirtum stóriðju- og steypu-kastala Frjálslynda flokksins og ég er satt að segja hreint á nálum út af því. En þetta er hans ákvörðun og ég virði hana og óska honum góðs gengis því honum mun svo sannarlega ekki veita af góðum óskum í þeim erfiða leiðangri sem hann er lagður upp í.


Bloggfærslur 22. ágúst 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband