30.8.2008 | 12:09
Íhugunarefni.
Tjaldað til einnar nætur. Kannski lýsa þessi fjögur orð best grunnatriðum atvinnustefnu Íslendinga allt til þessa dags. Ég man þá tíð þegar Bretavinnan, störf á Keflavíkurflugvelli og síðar við virkjanur voru einu "bjargráðin" sem íslenskum ráðamönnum datt í hug.
Stefnan snerist mestu um að útvega fjölmennri verkamannastétt atvinnu. Enn láta menn eins og ekkert hafi breyst í þessum efnum í hálfa öld, allt standi og falli með því að útvega nógu mörg verkamannastörf.
Afleiðingin blasir við: Hvergi í okkar heimshluta er brottfall unglinga jafn hátt úr námi, meðal annars vegna þess að ekki er nógur hvati til þess að örva æskufólk til framhaldsnáms. Þetta er bagalegt vegna þess að á okkar tímum hefur veruleikinn breyst og samkeppnishæfni þjóða og þar með möguleikar á góðum lífskjörum og lífsfyllingu byggist fyrst og fremst á sem bestri, fjölbreyttastri og almennastri menntun.
Einkum á þetta við á landsbyggðinni eins og margoft hefur komið fram á alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál dreifbýlisins.
Svo mjög eru menn bundnir við 50 ára gamla og úrelta sýn, að það þótti einn helsti kostur við Kárahnjúkavirkjun að 80 prósent vinnuaflsins yrði innlent en aðeins 20 prósent erlent. Þetta varð alveg öfugt, - 80 prósent vinnuaflsins varð erlent.
Á Húsavík, þar sem hin gamla stefna er enn efst á baugi hjá fylgismönnum álversframkvæmda, hafa unnið 136 útlendingar þrátt fyrir allt talið um atvinnuleysi.
Vikulegar heilsíðuauglýsingar álversins í Reyðarfirði á tímabili í sumar þar sem auglýst var eftir starfsfólki og sérstaklega tekið fram að ENGRAR sérstakrar menntunar væri krafist, segja sína sögu.
Nú hópast útlendingarnir heim til sín, enda komu þeir hingað í algerlega afbrigðilegu efnahagsástandi, þar sem kveikt hafði verið þenslubál við Kárahnjúka 2002 með hárri ofþensluöldu sem gat ekki endað öðruvísi en með öldudal á eftir, sem við súpum nú seyðið af. Timburmenn eftir fyllerí.
Tjaldað til einnar nætur og ekkert horft fram á við til hinna óhjákvæmilegu endaloka, sem óbreytt virkjana- og stóriðjustefna mun færa þjóðinni: Í fyrirhuguðum álverum fá aðeins 2% vinnuafls landsmanna atvinnu í kjörfar auglýsinga þar sem lýst er eftir starfsfólki og ENGRAR sérstakrar menntunar krafist.
P.S.
Heyri í útvarpsfréttum í viðtali nú í hádeginu við einn af skólastjórum framhaldsskóla á Austurlandi að skólamenn þar séu alveg undrandi á því að nemendum fjölgi ekki heldur fækki jafnvel á þessum þenslutímum hér fyrir austan, þar sem ég er staddur nú.
Í verkmenntaskólanum hefur nemendum fækkað um fimmtíu og reyndist algerlega misheppnað að bjóða upp á sérstaka námsbraut í álfræðum. Er það furða úr því að erfiðlega virðist ganga að manna störf í álverinu þar sem engrar sérstakrar menntunar er krafist?
![]() |
Hópast heim til Póllands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)