9.8.2008 | 09:56
Gleðigangan.
Það virðist ætla viðra vel á Gleðigönguna í dag. Fyrir þá sem myndu vilja vita um textann sem hugsanlega verður fluttur af hljómsveit sem fer á undan dragdrottningar- og dragkóngsbílunum, þá er hann svona:
GLEÐIGÖNGULAG.
Nú verður Gleðiganga, - Gay Pride, -
labb um Laugaveg "on the sunny side."
Þar búum við til fjör og fagran dag, -
frelsi, jafnrétti og bræðralag.
Og milli okkar byggjum við brú.
Á betri heimi höfum við trú.
Því verður Gleðigangan, Gay Pride
labb um Laugaveg
:,: "on the sunny side":,:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2008 | 09:50
Enn dæmi um viðhorfsmismun.
Enn og aftur koma þær sérkennilegu hnýsniskröfur Bandaríkjamanna upp á yfirborðið, að einkalíf fólks skipti svo miklu höfuðmáli að máli að það verði að vera uppi á hvers manns borði.Það er ástæðan fyrir því að menn í stöðu Edwards leiðast út í það að ljúga opinberlega um mál sem ættu að vera þeirra einkamál.
Ég rifja því upp góða sögu af Mitterand Frakklandsforseta. Ungur og óreyndur blaðamaður kallar upp á blaðamannafundi: "Er það rétt, herra forseti, að þú hafir átt og eigir jafnvel enn hjákonu?" Og hver voru viðbrögð forsetans? Jú, hann svaraði umsvifalaust: "Já það er rétt. Næsta spurning, gjörið svo vel." Málið dautt enda svona blaðamannafundir settir upp til að ræða stór og knýjandi póltísk mál en ekki það í hvaða rúmi hver svæfi.
Í Faðirvorinu er þessi setning (sem sumir segja raunar að sé ekki rétt þýdd): "Eigi leið þú oss í freistni." Með fráleitum kröfum Bandaríkjamanna um upplýsingagjöf um einkamál er verið að leiða þá í freistni sem krafist er að svari hnýsnisspurningum. Edwards hefði getað svarað upphaflega á þann veg að þetta væri einkamál og kæmi engum við en þá hefði slíkt svar verið túlkað sem viðurkenning á hneykslanlegu athæfi.
![]() |
Edwards viðurkennir framhjáhald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.8.2008 | 01:21
Stolt stórþjóðar.
Enginn skyldi vanmeta stolt stórþjóðar. Harðstjórn Stalíns kostaði milljónir manna lífið en þegar stolt þjóðarinnar var að veði í innrás Þjóðverja, tókst Stalín að fylkja kúguðum þegnum sínum að baki sér með því að höfða til þess að verið væri að verja "móður Rússland."
Setningarhátíð og framkvæmd Ólympíuleikanna í Kína ber það strax með sér að Kínverjar líta svo á að stolt þeirra og sómi sem fjölmennustu þjóðar heims sé að veði. Þeir virðast hafa ásett sér að allt, bókstaflega allt verði stærra, betra og mikilfenglegra en á nokkrum öðrum Ólympíuleikum.
"Hvar er þín fornaldar frægð...?" orti Jónas um Íslendinga og Kínverjum er greinilega mikið í mun að sýna, að niðurlægingartímabili síðustu alda sé lokið og þeir séu á góðri leið með að endurheimta hinn forna sess sinn þegar þjóðin stóð framar flestum öðrum.
Vesturlandsbúum er því vandi á höndum með það hve langt á að ganga í því að blanda gagnrýni á einræði og mannréttinabrot í landinu inn í þessa leika. Ef ráðist er um á stolt þjóðarinnar og varpað skugga á leikana getur það virkað öfugt við það sem ætlunin er og þjappað þjóðinni að baki einræðisherrunum, hversu gagnrýniverðir sem þeir eru.
Bush Bandaríkjaforseti fór þá leið að lesa kínverskum ráðamönnum gagnrýnispistil áður en hann fór á leikana. Með því undirstrikaði hann að vera hans á griðávettvangi fremsta íþróttafólks heims væri til heiðurs kínversku þjóðinni fyrst og fremst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)