11.9.2008 | 20:23
Hvorir höfðu rétt fyrir sér?
Í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" færði ég rök fyrir því að forsendur vatns- og orkuöflunar Kárahnjúkavirkjunar væru rangar, - reiknað væri með allt of litlu rennsli. Stíflurnar við Hálslón þyrftu ekki að vera svona háar og með því að hafa lónið svona hátt væri sökkt að óþörfu landi, sem væri tiltölulega flatt og byði upp á mun verri uppfoksvandamál en ef lónið væri lægra.
Ásta Þorleifsdóttir bar fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um að borgin beitti sér fyrir lægri hámarkshlónhæð í ljósi þess að augljóslega væri skakkt reiknað. Með þvi væri hægt að þyrma stóru svæði og minnka uppfoksvandanna. Tillagan féll í grýttan jarðveg, - sérfræðingaskari Landsvirkjunar hlaut að hafa rétt fyrir sér.
Í frétt Sjónvarpsins í kvöld viðurkennir Sigurður Arnalds hins vegar að skakkt hafi verið áætlað, enda ekki annað hægt því skekkjan blasir við. Aðeins þurfti að lækka lónhæð Hálslóns síðastliðinn vetur um 25 metra, en reiknað var með að lækka þyrfti um allt að 40-50 metra. Samt kom ekkert vatn úr Jökulsá í Fljótsdal og ánum í Hraunaveitu, því að þær virkjanir voru enn í byggingu.
Jökulsá á Dal og Kringilsá önnuðu orkuþörfinni fullkomlega einar.
Skekkjan virðist svo stór að hugsanlega hefði verið hægt að sleppa því alveg að virkja Jökulsá í Fljótsdal eða að minnsta kosti að sleppa virkjun á Hraununum.
Því miður gagnast þetta mikla vatnsmagn ekki. Það er hvorki hægt að víkka göngin né fjölga hverflunum. Nú, þegar ekki verður aftur snúið með umhverfisskemmdir Hálsóns eða raskið af völdum Hraunaveitu, hefði verið gott að geta bætt við ca 150 megavatta orku og sleppa í staðinn sem því svarar að fara út í stórfelld umhverfisspjöll á Norðurlandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2008 | 19:52
Hræðilegur vegarkafli.
Kom akandi til fundar við aftöku fossanna í Jökulsá í Fljótsdal í nótt og ók í fyrsta skipti í langan tíma um Suðurland. Vegurinn um Öxi var góður og tillhlökkun fylgdi því að koma niður á hringveginn í Skriðdal. En hvílík vonbrigði! Til hreinnar skammar er að svona vegarkafli skuli enn finnast á sjálfum hringveginum, slæmar holur, nybbugrjót og hvassir hryggir á þessum endemis malarvegarkafla.
Tveir hjólkoppar hurfu út í myrkrið en sem betur fer er Fiat-lúsin mín með gamaldags háa hjólbarða en ekki hina flötu og lágu hjólbarða, sem nú tíðkast á bílum. Áreiðanlega hefur sprungið á mörgum nýjum bílum á þessum kafla í sumar.
Valdi koppasali ætti að flytjast austur í Skriðdal og hugsanlega væri góður bísniss í því að setja þar upp hjólbarðaverkstæði því að með ólíkindum er hve lengi það hefur verið látið dragast að koma þessum vegarkafla í nútímalegt horf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)