14.9.2008 | 13:00
Úrelt hreppapólitík.
Stærð Kópavogs sýnir vel hve vel í sveit þetta bæjarfélag er sett á höfuðborgarsvæðinu með Smárann sem einn hluta af krossgötum þess sem markast af línunni Ártúnshöfði-Árbær-Mjódd-Smári. Þyngdarpunktur íbúabyggðar á höfuðborgarsvæðinu liggur austast í Fossvogsdal og því eru ýmsar ályktanir sem borgarfulltrúar í Reykjavík draga af samsetningu borgarinnar dregnar af röngum forsendum.
Fáránleiki bæjarfélagamarka sést best rétt austan við Smárann milli Seljahverfis í Reykjavík og Salahverfis í Kópavogi, þar sem hvort bæjarfélagið um sig virðist hafa skipulagt sig eins og nágrannarnar kæmu þeim ekki við.
Engin tenging er að milli þessara tveggja hverfa og sem dæmi má nefna að ef aka á frá Stapaseli til Blásala, sem eru í 100 metra fjarlægð þarf að fara 3-4 kílómetra hring.
Í raun eiga bæjarfélögin og hverfin Mosfellsbær-Grafarvogur-Árbær-Breiðholt-Kópavogur-Garðabær og Hafnarfjörður svo margt sameiginlegt að þau tengsl og hagsmunir eru jafnvel meiri en það sem tengir Reykjavík vestan Elliðaáa við hverfin fyrir austan árnar.
Innan höfuðborgarsvæðisins er í gangi óhjákvæmileg þróun sem ég hef áður bloggað um og lýsir sér í aðdráttarafli krossgatnanna á svæðinu við Elliðaárnar fyrir verslun og þjónustu. Í kringum þetta vaxandi miðjusvæði eru Fossvogs-Smáíbúðahverfið, Langholtshverfi, Grafarvogur, Árbær, Breiðholt, austurhluti Kópavogs og nyrstu hluti Garðabæjar.
Upptalningin ein sýnir hve núverandi mörk bæjarfélaga og samsetning þeirra eru orðin úrelt og til trafala fyrir eðlilega þróun og heppilega skipulagningu höfuðborgarsvæðisins.
![]() |
Kópavogsbúar þenja sig í 30 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.9.2008 | 12:34
Blindingsleikur að hætti hússins.
Hver kannast ekki við eftirfarandi, sem kom upp á í myrkri á leið minni til Reykjavíkur í gærkvöldi: Á einum ágætum vegarkafla kom bíll aftan að mér og ók lengi með háu ljósin rétt aftan við mig þannig að ég varð að halla mér fram til að fá ekki ofbirtu í augun af skærum glampanum í speglunum. Ökuhraðinn var 90km/klst.
Ég íhugaði að skekkja alla speglana til að losna við ofbirtuna en það er í raun á skjön við eðlilegar akstursreglur að taka lögboðin tæki á borð við spegla úr sambandi svo að ég hætti við það. Að lokum brá ég á það ráð að víkja út í kant og hægja nógu mikið á mér til að bíllinn fyrir aftan færi fram úr mér.
Þá brá svo við að hann fór að aka mun hægar en áður og aldrei sá ég hann lækka ljósin þegar hann mætti bílum en hélt áfram að valda hverjum vegfaranda sem á vegi hans varð vandræðum með þessum blindingsleik sínum.
Svo virðist sem fjöldi ökumanna viti ekki eða vilji ekki vita að með því að aka með há ökuljós rétt á eftir bílum fyrir framan þá, blinda þeir ökumanninn sem á undan ekur, og einnig þá sem koma á móti. Óþarfi er að aka með há ljós þegar bíllinn á undan er með há ljós því að hann lýsir upp veginn framundan fyrir báða bílana og hái geislinn á aftari bílnum fer inn á upplýsta sviðið frá fremri bílnum.
Eins og í malaraustrinum, sem fjallað er um í pistlinum hér á undan, er þetta háttalag skondið þegar þess er gætt að þessir sömu blindingsleiksökumenn lenda um síðir í sömu aðstæðum og þeir sem verða fyrir barðinu á þeim og blóta þá örugglega "hinum vitleysingunum" í sand og ösku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)