Afmælisdagurinn, - dagur móðurinnar.

Í seinni tíð hefur afmælisdagurinn öðlast nýja merkingu hjá mér. Ekkert okkar man eftir fæðingunni en hún var þess eftirminnilegri fyrir foreldrana, einkum móðurina. Nú orðið óska ég móður hvers afmælisbarns fyrst til hamingju með daginn.

Afmælisdagur barna minna er í mínum huga fyrst og fremst hátíðisdagur konu minnar og þar á eftir að sjálfsögðu dagur þeirra.

Móðir mín er látin en er mér hugstæð á afmælisdegi mínum, ekki aðein af fyrrgreindum ástæðum, heldur einnig vegna þess að afmælisdagur okkar var sameiginlegur, - hún var fædd 16. september eins og ég.

Og það þýðir aftur á móti að móðir hennar, amma mín sáluga, Ólöf Runólfsdóttir, er mér hugstæð á þessum degi. Lifi dagur móðurinnar!


Góðar fréttir af Eimskipum.

Fréttirnar af væntanlegum strandsiglingum Eimskipa milli Reykjavíkur og Ísafjarðar eru góðar, einkum vegna þess að tölurnar sem ég hef heyrt um það hvernig hinir þungu flutningabílar fara með vegakerfið eru ótrúlega háar. Gott væri ef þetta dæmi yrði reiknað alveg til enda svo að hægt sé að átta sig á því hvort stuðningur við siglingarnar borgaði sig þjóðhagslega.

Auðvitað hafa flutningabílarnir þann kost fram fyrir siglingarnar að geta tæknilega ekið frá dyrum til dyra og vera fljótir í förum, en í mörgum tilfellum liggur ekki svo mikið á að það þurfi endilega að fara landleiðina. 

Og sumir stórir og þungir hlutir henta betur fyrir strandsiglingarnar en bílana.  


Loksins, loksins!

Eftir sex og hálfs árs starf hjá Stöð tvö á sínum tíma komst ég að þeirri niðurstöðu að fleiri kostir en gallar fylgdu því að hafa eina fréttastofu og ég talaði fyrir þessu sjónarmiði þegar ég hóf störf á ný hjá RUV.

Ég gat nefnt nokkur dæmi um hagræðið og eitt það besta birtist í frammistöðu sameinaðrar fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar daginn sem Simon Wiesental-stofnunin afhenti Davíð Oddssyni bréf í opinberri heimsókn hans í Ísrael skömmu fyrir hádegi með ásökunum á hendur íslenskum ríkisborgara. 

Fréttamenn RUV voru á staðnum í Ísrael og það virtist vonlaust dæmi fyrir fáliðaða fréttastofu Stöðvar tvö að etja kappi í umfjöllun þá um kvöldið. En hagræðið af því að geta virkjað alla starfsmennina og láta sjónvarpsfréttirnar ganga fyrir útvarpsfréttum olli því að þegar upp var staðið eftir kvöldfréttatímana hafði Stöð tvö vinninginn að mínum dómi.

Ég var oft við fréttaöflun úti á landi á þessum tíma og vandist því að senda pistla í útvarpsfréttatímana, oft í beinni útsendingu, þótt aðalverkefnið væri sjónvarpsvinnsla. Þetta fyrirbæri kannast starfsmenn RUV úti á landi vel við.  

Ég óska því RUV og fréttastofunum til hamingju með sameininguna. Varast ber að halda að hún þýði það að almennt geti sjónvarpsfréttamaður jafnframt gegnt útvarpsfréttamennsku í leiðinni. Sjónvarpsvinnslan er krefjandi og annars eðlis að mestu en útvarpsvinnan. En oft má sameina þetta að einhverju leyti þegar aðstæður krefjast, oftast þó þannig að sjónvarpsvinnan hafi forgang.

 


mbl.is Fréttastofur RÚV sameinaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband