18.9.2008 | 16:47
Eftir öll þessi ár...
Hver maður skal talinn sýkn saka þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Þessi meginregla mannúðlegs og réttláts réttarfars er oft brotin og það eitt að vera ákærður jafngildir því miður oft því að vera dæmdur.
Mál Eggerts Haukdals er eitthvert sorglegasta sakamál síðari ára, ekki aðeins vegna þess hve ótrúlega langan tíma það hefur tekið, - alls tólf ár síðan meint brot átti að hafa drýgt, - heldur ekki síður vegna þess að stærsta hluta þess tíma, - sjö ár, - mátti hann lifa við það að hafa verið dæmdur sekur af æðsta dómstóli landsins.
Nú, alltof, alltof seint, er hann loks sýknaður eftir að hafa gengið í gegnum dæmalausar hremmingar. Þessi niðurstaða er þrátt fyrir allt sigur, - sigur fyrir mann sem ekki gafst upp þótt allt virtist vonlítið, sigur fyrir lögmann hans og ekki síður sigur fyrir réttarfarið, fyrir dómstól sem viðurkennir að mistök hafi átt sér stað.
![]() |
Eggert Haukdal sýknaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.9.2008 | 11:59
Sjórinn lætur vita af sér.
Það var saltslikja á bílnum þegar ég gangsetti hann í morgun. Þó bý ég uppi í Háleitishverfi um það bil fjóra kílómetra frá sjó og í 35 metra hæð. Hvernig halda menn að þetta yrði á hugsanlegum flugvelli á Lönguskerjum?
Þegar ég ræði það mál við fólk bendi ég á að með flugvelli á Lönguskerjum yrði að framkvæma þrjá gerninga: 1. Rífa núverandi flugvöll. 2. Byggja nýjan flugvöll á Lönguskerjum. 3. Reisa nýtt hverfi þar sem núverandi flugvöllur er.
Og ég hef spurt: Af hverju ekki einn gerning í stað þriggja, að reisa íbúðabyggð á Lönguskerjum?
Þá hef ég fengið svarið: Það er svo mikið særok þar í þessum þrálátu hvössu suðvestanáttum á veturna. Og það er nóg byggingarland annars staðar í þessu strjálbýlasta landi Evrópu.
Og þá hef ég spurt á móti: Er særok heppilegra fyrir flugvélar heldur en hús?
Þess utan má benda á að byggingarsvæði á Lönguskerjum myndi heyra undir fimm sveitarfélög sem öll yrðu að samþykkja það og þar að auki er að bresta á friðlýsing Skerjafjarðar sem náttúruvættis.
Ég veit af reynslu að það er meira að segja munur á saltrokinu sitt hvorum megin núverandi flugvallar og það er minna austan vallar en vestan.
Samanburður við flugvelli á landfyllingum erlendis er ekki raunhæfur. Við eigum einfaldlega heima í mesta rokrassi veraldar og því fylgir saltrok þegar vindur stendur af hafi. Svo einfalt er það.
![]() |
Gusugangur á Borgarfjarðarbrúnni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2008 | 09:31
Framararnir, - frækið lið!
Það má ekki minna vera en ég kvitti fyrir það á blogginu mínu sem Framari í 68 ár og þrjá mánuði (ég var skráður inn í félagið þremur mánuðum fyrir fæðingu) hve mínir menn stóðu sig vel í gærkvöldi þegar þeir urðu örlagavaldar um úrslit Íslandsmótsins. Það er að minnsta kosti ákaflega veik von fyrir FH eftir þessa rassskellingu að ná Keflvíkingum að stigum.
Leikurinn var bráðskemmtilelg skemmtun því að góðir taktar sáust hjá báðum liðunum þrátt fyrir afleitar aðstæður.
Nú er spurningin hvort Framararnir ná þriðja sætinu (Evrópusæti) í deildinni. Bæði KR og Valur eiga mögueika á að fara fram úr Fram og allt er þar galopið.
Þetta eru mikil og gleðileg umskipti á Framliðinu frá mörgum erfiðum árum. Reyndar bar hvert "afrek" liðsins, - sem fólst í að setja heimsmet í heppni með að hanga í deildinni ár eftir ár - dauðann í för með sér. Þetta var sálrænt afar slæmt.
Skárra hefði verið að falla fyrr og koma þá fyrr sterkur inn að nýju, reynslunni ríkari og með aðeins eina leið framundan: Upp á við í stað þess að hanga uppi á botninum með möguleikann einn á móti milljónum.
Ég raulaði fyrir munni mér í gærkvöldi baráttulag fyrir Fram, sem ég hef gert og byrjar svona í klapptaktinum sem Framarar nota gjarnan á leikjum liðsins:
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framarar! (Klapp, klapp, klapp)
Framararnir! - Frækið lið! -
Eru í fararbroddi´að hressa´upp mannfólkið.
Flottar stelpur!
Frískir menn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!
Eru í fremstu röð og vinna sigra enn!
Framarar! (Klapp, klapp, klapp) o. s. frv.
Nú getur maður verið stoltur af að syngja á þennan hátt og njóta þess að það eru mínir menn sem eiga skilið að vera hampað í tónum og takti.
Því miður virðist sú ekki vera raunin í augnablikinu hvað varðar gamla textann minn "Skagamenn skoruðu mörkin".
Það hljómaði að minnsta kosti ekki vel þegar Skagamaður skoraði sjálfsmark ársins í síðasta leik.
En kannski er það skást úr því sem komið er að Skaginn falli núna og komi síðan sterkur til baka eins og Fram.
![]() |
Fram vann stórsigur á FH |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |