19.9.2008 | 19:08
Áfram skrúfað fyrir og nú algerlega að óþörfu.
Er nú að setjast upp í Fiat-lúsina til að aka austur og upp á Hraunin fyrir austan Snæfell og Eyjabakka og fylgjast með því þegar Kelduá verður veitt inn í göng, sem liggja austur í virkjunarkerfi Jökulsár í Fljótsdal. Þar með verður skrúfað fyrir ána og á annan tug fossa að minnsta kosti sem hafa verið prýði hennar um aldir.
Hugsanlega verður aðeins félagi minn eða ég einn vitni að því þegar fossarnir verða teknir af lífi rétt eins og við Jökulsá í Fljótsdal um daginn. Því veldur fyrirbrigði sem ég kallaði "fossafælni" í Morgunblaðsgrein og lýsir sér í því að hægt og hljóðlega stefnir í það að á þessum fyrsta áratug þessarar aldar mun helmingur stórfossa Íslands að minnsta kosti munu af mannavöldum þegjandi og hljóðalaust.
Faxi og Kirkjufoss, sem nú eru að hlíta sínum dauðadómi, eru aðeins örfáa kílómetra frá hinum malbikaða vegi á Fljótsdalsheiði. Þess hefur hins vegar verið gætt að sem allra erfiðast sé að komast að þessum fossum og má kannski segja að þjóðin hafi verið í hlutverki strútsins, sem stingur höfðinu í sandinn og telur sér trú um að það sem ekki sést, sé ekki til.
Það myndi verða talið fréttnæmt ef á sama degi væri skrúfað fyrir bæði Skógafoss og Goðafoss af því að í þeim tilfellum er erfitt að stinga höfðinu í sandinn.
Fossarnir í Kelduá hafa verið enn afræktari en fossarnir í Jökulsá á Fjöllum, svo fallegir og sérstakir sem þeir eru. Uppþurrkun þeirra verður dapurlegur viðburður, einkum vegna þess, að í því hlýja árferði, sem nú er í samræmi við spár þar um, gerir það að verkum, að Hraunavirkjun er alger óþarfi og hefði verið hægt að sleppa henni eða að búa svo um hnúta, að ekki þyrfti að láta renna í Kelduárlón nema ástæða væri til.
Þetta hefði verið hægt ef botnrás eða hjáleið hefði verið við Kelduárstíflu, en auðvitað var það talið of dýrt á sama tíma sem reistar voru stíflur og virkjun í yfirstærð miðað við það vatnsmagn sem þarna er dögum hlýnunar í veðurfari jarðarinnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.9.2008 | 12:55
Áfram með smjörið!
Þegar ekið er frá Osló þjóðleiðina í átt til Gautaborgar og Evrópu er á kafla aðeins um eina akrein að velja fyrir einkabíla, - hin akreinin er tekin frá fyrir almenningsvagna. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um þá áherslu sem lögð er víða erlendis á almenningssamgöngur.
Á málfundi um loftgæði í Reykjavík í Iðnó í gærkvöldi benti ég á með því að nota stórt kort af höfuðborgarsvæðinu að enn virtust menn ekki hafa áttað sig á því að miðja höfuðborgarsvæðisins stefndi hratt í það að vera nálægt krossgötum svæðisins, sem liggja við Elliðaárdal. Þarna liggja langstærstu krossgötur landsins og þar verður þungamiðjan óhjákvæmilega.
Óviðunandi ástand almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu held ég að megi meðal annars rekja til þess að ekki hefur verið tekið tillit til þessa né sett upp umferðarmódel til að finna út hvernig samgöngukerfið geti sem best þjónað sínu hlutverki í samræmi við þau lögmál, sem verði að hlíta.
Sömuleiðis verður að reikna dæmið í heild, hversu mikið núverandi ástand kostar þjóðfélagið, hve mikið stórátak í almenningssamgöngum myndi spara þjóðinni og hvað slíkt stórátak myndi kosta.
Mig grunar að slíkt átak myndi kosta miklu minna en sem svarar þeim sparnaði sem fengist þjóðhagslega og að þess vegna sé réttlætanlegt að halda áfram á þeirri braut sem var opnuð á Miklubraut í dag.
![]() |
Gamli og nýi strætó á rauðum dregli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.9.2008 | 12:43
Tvær góðar greinar.
Tvær góðar greinar eru meðal þeirra sem birtast í blöðunum í dag og ég held að sé ástæða til að lesa. Það er annars vegar leiðari Magnúsar Halldórssonar í 24 stundum um það hvernig er fótum troðinn sjálfsagður og nauðsynlegur réttur kjósenda og fulltrúa þeirra til að hafa í höndum nauðsynlegar upplýsingar um orkuverð.
Við þetta vil ég bæta því hvernig sovésk stýring hefur verið á fyrirkomulagi virkjana og stóriðju sem birtist í Kárahnjúkavirkjun. Allt framangreint er í raun í hrópandi ósamræmi við þá stefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið sig vera málsvara fyrir.
Og þá kem ég að annarri grein, í Fréttablaðinu, eftir HannesiHólmsteiniGissurarson, einn ötulasta málsvara frjálshyggju hér á landi. Hannes hefur stundum verið sakaður um þjónkun við bandaríska hægri stefnu en í grein hans um rétt smáþjóða er til dæmis ekki annað að sjá en að Hannes telji Osseta og Abkasa eiga rétt á fullu sjálfstæði, gagnstætt vilja Georgíustjórnar, sem er ákaft studd af Bandaríkjastjórn.
Greinin er bæði fróðleg og málefnaleg og það var Wilson Bandaríkjaforseti sem var einn helsti boðberi réttar þjóða og þjóðabrota til að ráða málefnum sínum og setti hana fram sem lið af fjórtán punktum sínum í aðdraganda Versalasamninganna 1919.
Við greinina má kannski bæta að þetta mál er ekki alltaf eins auðleyst og ætla mætti vegna þess að þegar þjóðarbroti er leyft að stofna sjálfstætt ríki verður oft til minnihluti í því ríki sem áður var hluti af meirihluti ríksins, sem er skipt.
Dæmi: Mótmælendur voru í minnihluta á óskiptu Írlandi og kaþólskir voru meirihluti. Þegar landinu var skipt í Írland og Norður-Írland, urðu kaþólskir hins vegar í minnihluta á Norður-Írlandi og mótmælendur í meirihluta.
Þegar Tékkóslóvakía var stofnuð réði miklu vilji Tékka til sjálfstæðis. Af hernaðarlegum ástæðum, sem Frökkum var annt um, voru landamærin negld niður þannig að þýskumælandi minnihluti bjó í Súdetahéruðunum og það gaf Hitler ástæðu til að sölsa þau undir sig og í framhaldi af því alla Tékkóslóvakíu.
Sum af þjóðernisminnihlutavandamálum Evrópu voru leyst á afar grimmilegan hátt í lok seinni heimssthyrjaldarinnar þegar minnihlutarnir voru einfaldlega þvingaðir til að fara úr landi.
Síðan hefur ríkt friður um Súdetahéruðin, Danzig og þess hluta Rússlands (Kaliningrad), sem áður var Austur-Prússland. Til þess að ná þessu fram fluttu fjórtán milljónir manna frá heimkynnum, þar sem forfeðurnir höfðu í flestum tilfellum búið um margra alda skeið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2008 | 00:04
Toyota IQ, mesta smábílabyltingin eftir Mini.
Í 55 ár hef ég sökkt mér niður í hönnun smábíla. Að mínum dómi var Mini bíll aldarinnar því að hann gerbreytti hugsuninni á bak við einkabílinn, var fyrst bíllinn með þverstæðri vatnskældri fjórgengisvél frammi og framdrif. Yfir 80% allra bíla heims eru nú hannaðir sem eftirlíking af þessu.
Hjólin voru úti í hornunum og aðeins fremstu 60 sm bílsins fóru í vél og drif en rúmlega 180 cm þar fyrir aftan í farþegarýmið og aftast voru farangur, varadekk og bensíngeymir. Bíllinn var 30-50 sm styttri en bílar með sambærilegt rými og akstureiginleikarnir aldeilis frábærir.
Á síðari árum hefur þessi hönnun á bílum fjarlægst þá upphaflegu æ meir hvað það snertir að vegna öryggiskrafna hefur fremsti hlutinn vaxið upp í það að taka minnst 75 sm og allt upp í vel á annan metra.
En af nýjustu gögnum um byltingarkenndan bíl frá Tyota sé ég að þeim hefur tekist að hanna bíl sem er styttri en Mini, undir 3 metrum (Mini var 3,05) og vélin og drifið taka aðeins 50sm fremst í bílnum.
Rými fyrir þrjá farþega er miklu meira en í Mini en fjórða sætið einkum ætlað smávaxnari farþegum eða börnum. Beygjuhringur bílsins er aðeins 8m í þvermál, sá langminnsti í flotanum.
Ég er yfir mig hrifinn af þessum bíl. Hann tekur fjóra í sæti þótt hann sé aðeins 30 sm lengri en Smart sem tekur aðeins tvo í sæti. Toyota virðist hafa getað leyst vandamálið með öryggið og níu loftpúðar eru í bílnum.
Ég var að koma af ráðstefnu þar sem fjallað var um umferð, loftgæði og mengun og rökstuddi þar hve gríðarlegur sparnaður og hagkvæmni fylgdi því ef bílaflotiinn gæti styst um einn metra hver bíll.
Þá myndi til dæmis á Miklubrautinni einni losna 100 kílómetrar af malbiki á hverjum degi, sem annars væru þaktir bílum. Ef annar hver borgarbíll verður af svipaðri stærð og Toyota IQ næst gríðarlegur árangur.
Eins og er er þeim sem nota langa bíla umbunað að því leyti að þeir borga ekki krónu fyrir það aukamalbik og rými sem þeir nota umfram aðra. Þarna þarf að taka upp kerfið að sá borgi sem noti þannig að þeim sé umbunað sem nota stutta bíla.
Það myndi leysa umferðarhnúta og spara mannvirki. Lausnin gæti falist í lengdargjaldi sem tekið yrði upp en önnur útgjöld bílaeigenda minnkuð í staðinn. Japanir hafa haft hliðstætt kerfi í áratugi og nú er þeim bílum umbunað í Japan sem eru styttri en 3,40 m og mjórri en 1,48.
Þetta hefur svínvirkað þar í landi og við getum tekið upp enn betra kerfi ef við viljum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)