Reykásarnir rjúka af stað.

Það er ekki algengt að stétt fólks fái jafn mikinn almennan stuðning í launakröfum sínum og ljósmæður fengu á dögunum. Einum rómi sögðu þeir sem studdu þær að þær hefðu verið látnar dragast aftur úr undanfarin ár og fengju ekki sömu laun fyrir sömu menntun og stéttir, sem stóðu nálægt þeim. Þetta yrði að lagfæra.

Fjármálaráðherra var atyrtur, meðal annars í bloggpistlum mínum, fyrir það að sýna óafsakanlega tregðu við að verða við sjálfsögðum kröfum.

Í öllu þessu tali var sérstaða ljósmæðra ávallt aðalatriðið.

En nú bregður svo við að jafnvel þeir sömu, sem hömruðu á sérstöðu ljósmæðra, rjúka nú af stað með kröfur um sömu launahækkanair og ljósmæður. Nú virðast allir hafa fengið sömu sérstöðu og þær.  

Ef sú verður raunin að ljósmæðrasamningarnir verða notaðir sem afsökun fyrir kjarakröfum allra fer það að vera skiljanlegra en fyrr hve lengi fjármálaráðherra þráaðist við að semja við þær. Að baki tregðu hans bjó greinilega óttinn við að allir myndu rjúka af stað um leið og séð varð hvað ljósmæður fengju og að á endanum sætu þær jafnmikið eftir og þær höfðu áður gert. 

Og verðbólgan hefði fengið góða máltíð í formi launahækkana, sem velt yrði út í verðlagið og gamla staðan frá verðbólguárunum komin upp eins og afturganga. 

Ragnar Reykás hefði orðað afstöððu sína og sinna líka svona: "Auðvitað eiga ljósmæður að fá leiðréttingu á því að hafa verið látnar dragast aftur úr. Það er ekki spurning. Auðvitað eiga þær að fá sömu laun og aðrar stéttir með hliðstæða menntun fá. Ma-ma-maður áttar sig ekki á því af hverju þessi sérstaða er ekki viðurkennd.

En við verðum líka að átta okkur á því að nú eru allir að dragast aftur úr í kjörum vegna verðbólgunnar og verða fá réttláta leiðréttingu á því. Það er sanngjörn krafa og óskiljanlegt ef ekki verður orðið við henni. Nú eigum við öll heimtingu á því að hlustað sé á sanngjarnar kröfur okkar. LJósmæðurnar voru lifandi fyrirmynd sem við dáumst að og auðvitað viljum öll vera eins og ljósmæðurnar, það er ekki spurning." 

P.S. Var að koma heim úr kvikmyndagerðartörn þar sem ég var ekki í netsambandi. Hafði á leiðinni heiman frá mér klykkt út með þessu. 

Æ, nú fer hér allt í spað.

Alltaf vex hér raunin. 

Reykásarnir rjúka´af stað 

og reyna´að sprengja launin. 


Enn eitt dæmið um úrelt mörk.

Ég er nýbúinn að blogga um þá skaðsemi skiptingar höfuðborgarsvæðisins í bæjarfélög sem stafar af því að þau horfa sem mest á eigin hag í skipulagsmálum án tillits til nágrannanna. En nýjar uppákomur í þessum efnum birtast nú með nokkurra daga millibili.

Fimm sveitarfélög liggja að Skerjafirði og því er umræðan um flugvöll á Lönguskerjum og hvers kyns landfyllingar við fjörðinn á miklum villigötum. Ef Kópavogur fyllir fjörðinn upp að landamerkjum sínum getur Reykjavík komið með krók á móti bragði og fyllt upp á sama hátt og þannig lokað firðinum. 

Þá verðum við komin með mörk á milli þessara bæjarfélaga í stíl við mörkin á milli Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti þar sem hvor aðilinn um sig skipulagði sitt land án tillits til eðlilegrar og hagkvæmrar tengingar á milli hverfanna, sem eru í raun eitt og sama íbúðahverfið.

Það vantar nánast ekkert nema múr á milli til þess að fullkomna þetta verk, sem í ofanálag er unnið nálægt nýrri og óhjákvæmilegri þungamiðju verslunar, þjónustu og samgangna við stærstu krossgötur landsins.  


mbl.is Reykjavík gagnrýnir áform um landfyllingu á Kársnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband