Halda límingarnar?

Það er títt að tekið sé svo til orða í seinni tíð að þessir eða hinir séu að fara á límingunum út af einhverju þegar örvænting eða ótti ná yfirhöndinni. Í öllu umrótinu nú, þegar aðvörunarorð undanfarinna ára eru að sanna sig, koma fram ýmsar hugmyndir, sem benda til þess að skammt sé í að menn séu að fara á  límingunum.

Límingarnar, sem hafa haldið íslensku samfélagi saman hafa falist í umráði og eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum á sjó landi. Þessar límingar verða að halda, hvað sem öðru líður, - það verður að vera tryggt að þessar auðlindir komist ekki á örfárra hendur og að lokum í hendur útlendinga.

Íslandshreyfingin varð fyrst til að hreyfa varnaðarorðum um þetta varðandi auðlindir jarðvarma- og vatnsorku og þau varnaðarorð eru æ betur að sanna sig.

Í kosningabaráttunni settum við fram hugmyndir um að færa kvótaeignina yfir til þjóðarinnar í heild með því að stefna að því að kvótinn yrði ekki eign þeirra, sem hafa hann, heldur borguðu þeir fyrir leigu á honum fyrir ákveðið tímabil. Þetta gæti verið takmarkið eftir ákveðinn umþóttunar- og breytingatíma. 

En þessar hugmyndir hafa verið settar fram til að þjóðin fengi eignarhaldið til baka til sín, eignarhald sem hefur að mestu komist í hendur fárra aðila og lokað fyrir aðgang annarra.

Öðru máli gegnir um nýjustu hugmyndir um að einkavæða orkuveiturnar í formi útleigu á þeim. Þessar gullkistur eru þegar í eigu þjóðarinnar og þurfa því ekkert að vera á förum þaðan. Þótt opinbert eignahald hafi ýmsa þekkta ókosti bruðls ogáhættusóknar í för með sér (sá hugsunarháttur stjórnenda að þjóðin borgi hvort eð er allt á endanum, sem misferst), þá eiga menn ekkert að fara á límingunum og láta þessi verðmæti af hendi eins og ekkert sé, jafnvel þótt það eigi að vera í formi leigu. 

Drögum nú djúpt inn andann og gerum ekki nein arfamistök af sömu stærðargráðu og gerð voru fyrir aldarfjórðungi þegar kvótakerfinu var komið á. Auðlindalímingar auðlinda lands og þjóðar verða að halda, hvað sem öðru líður.  


mbl.is Krónan aldrei veikari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsyn sjálfstæðri þjóð.

Margt hefur breyst síðan Ingi Björn Albertsson lét til sín taka á Alþingi um þyrlumál Íslendinga. Að ekki sé talað um það þegar Guðbrandur Guðbrandsson kom með Super Puma þyrlu hingað til lands til að opna augu okkar fyrir því, að eyþjóð, sem ekki á almennilegar þyrlur getur hvorki talið sig sjálfstæða né bjóða upp á lágmarks aðstöðu til mannbjargar og flutninga í almanna þágu.

Eftir að kaninn fór, tákna þyrlurnar miklu meiri og nauðsynlegri "sýnilegar" varnir og öryggisatriði en herþoturnar nokkurn tíma gerðu.

Sé heimurinn harður og kosti lágmarks þyrlueign okkur aukin útgjöld verður svo að vera. Annað hvort erum við sjálfstæð og fullburða þjóð eða ekki. Annað hvort eigum við með tryggum hætti almennilegar þyrlur eða berum okkur ekki orðið sjálfstæði í munn.  


mbl.is Erfitt að halda í þyrlurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband