Takmarkanir álitsgjafanna.

Álitsgjafar eru nauðsynlegir en enginn úrskurðaraðili. Mér er í huga þegar Fréttablaðið í ársbyrjun 2003 bað helstu sérfræðinga um íslenska dægurtónlist að velja tíu bestu söngvarana. Flest á þeim lista var óumdeilt, - Ellý á toppnum.

Síðan greindi blaðið frá þeim, sem komust á blað og meginlínur voru ljósar. Þarna voru frændurnir Bubbi og Haukur Morthens og svo framvegis.

Eitt vakti athygli mína. Af um það bil 30 nöfnum, sem nefnd voru, sá ég hvergi nefndan mann að nafni Ragnar Bjarnason. Þó hafði hann barist við Hauk Morthens um árabil um toppinn hjá íslenskum dægurlagasöngvurum og oftar haft betur.

Var einhver annar sem gat sungið betur jafn ólík lög og "Vertu ekki að horfa...", "Vorkvöld í Reykjavík", "Kokkur á kútter frá Sandi"  o. s. frv.?

Á löngum lista sem fylgdi valinu voru meira að segja bæði ég og Jón Kr. frá Bíldudal. En ekki Ragnar Bjarnason. Hann hafði hugsanlega aldrei sungið neitt, jafnvel aldrei verið til. 

Ég man að þetta ergði mig svo mjög að ég hefði skrifað um það beitta blaðagrein ef ég hefði ekki verið upptekinn í öðru á þessum tíma.

En svo róaðist ég. Ég vissi að það sem einu sinni hafði verið frábært hlaut að geta orðið það aftur. Og það gekk eftir. En allar götur síðan hef ég alltaf verið á varðbergi gagnvart óskeikulleika svonefndra "álitsgjafa", jafnvel þótt það eigi að heita "færustu sérfræðingar" á sínu sviði.  


Hjarta Bandaríkjanna.

Flestir sjá fyrir sér New York eða iðandi líf stórborganna þegar minnst er á Bandaríkin og þá koma oft upp í hugann óteljandi atvik úr kvikmyndum tengd glæpum og ofbeldil. En þetta er ekki grunnur bandarísks þjóðlífs heldur er þetta dreifbýlt land landnema, sem komu á samfélagi ólíkra þjóðarbrota alls staðar að úr heiminum með evrópska menningu að helsta grunni.

Íslensku hjón sem áttu börn í skóla í Bandaríkjunum urðu fyrir slíku sjokki þegar þau komu með þau heim til Íslands að þau sögðust í viðtali hafa verið komin á fremsta hlunn með að flytja aftur vestur til þess að börn þeirra gætu alist upp í skóla sem þau gætu treyst til að kenna þeim mannúð, aga og alúðlega og glaðlega framkomu.

Þetta síðastnefnda er það sem hrífur mest Íslendinginn þegar hann er hér í Bandaríkjunum, - hvað manni er alls staðar vel tekið og með hjálpsemi og hlýju og opinskáu viðmóti. Það er eins og fólki hér sé innprentað að hver dagur sé dýrleg gjöf sem við eigum að njóta saman en ekki þögul og alvörugefin hvert í sínu horni.

Glæpir stórborganna og kvikmyndanna eru víðs fjarri í þessu hjarta hins bandaríska samfélags sem að vísu á í vök að verjast fyrir útþenslu verstu hliða borgarmenningarinnar.  

Enn er eins og eimi heima af því sem erlendir ferðabókahöfundar lýstu sem einkennum lundar og framkomu okkar Íslendinga, þumbaraskapurinn og þunglyndisleg og einræn framkoma.

Ég fór fyrir nokkrum árum í ferðalag með Rússa langt út á rússneks landsbyggð um hávetur og hann varð fyrir meiri áhrifum en ég. Hann var alinn upp í Moskvu sem hann lýsti sem borg svipaða hverri annarri milljónaborg í þróunarlandi.

Úti á meðal rússneska sveitafólkis upplifði hann hins vegar hjarta Rússlands, gestrisni og hlýju, - kannski ekki svo ósvipðaðri  og í öðru dreifbýlu og víðlendu ríki, Bandaríkjunum.  


Leyft að útskýra.

Ég horfði á hluta kappræðnanna á meðan ég beið eftir flugvél í Lindberg-flugstöðinni í Minneapolis. Þessi sjónvarpsþáttur var ekki endurtekning á frægum þætti Kennedys og Nixons 1960 þar sem Nixon virtist fölur og gugginn en Kennedy var æskufjörið uppmálað.

McCain kemur vel fram í sjónvarpi og skilar sínu ágætlega, lítur ekki út fyrir að vera maður sem yrði forseti á áttræðisaldri. Aldurinn var heldur Ronald Reagan ekki fjötur um fót á sínum tíma. Enn auðvitað gat McCain ekki logið sig frá aldrinum og greinilegt að Obama nýtur þess að "markaðssetja" sig sem mann nýrra tíma.

Mér fannst áberandi hve hann lagði sig í líma við að vera yfirvegaður og traustvekjandi.

Þáttastjórnendurnir leyfðu forsetaframbjóðendunum að svara spurningum án þess að vera að grípa frammi í fyrir þeim. Stundum er sagt að þáttastjórendur eigi að halda uppi tempóinu og taka í taumana ef stjórnmálamennirnir verða of langorðir.

Ástæðan er skýr: Það er bæði stjórnmálamanninum,áhorfendum, sem og sjónvarpsstöðinni verst ef þeir teygja lopann og mikið. Við það er hætta á að þeir glati athygli áhorfenda.

Í kappræðunum í gærkvöldi sýndist mér ljóst að þáttastjórnendur "treystu" frambjóðendunum fyrir að gera slík mistök sjálfir og taka þá afleiðingunum. Hér er um að ræða val á valdamesta manni heims og best fyrir þá sem valið eiga að kynnast því hvernig þeir meðhöndla viðfangsefni sín.

Þann tíma sem ég horfði á Obama og McCain voru þeir til dæmis að útskýra stefnu Bandaríkjamanna gagnvart Rússum. Til þess að gera það svo að vel sé, þarf einfaldlega ákveðinn lágmarkstíma og mikilvægt var fyrir hvorn um sig að útskýra sem best stefnu sína.

Það fengu þeir að gera og ákveða sjálfir hvernig þeir nýttu tímann, sem eftir allt saman, var þó takmarkaður miðað við að halda athygli áhorfenda og koma sínu til skila.

Auðvitað fer það eftir aðstæðum og tímalengd hvernig tíminn er nýttur og hvenær bráðnauðsynlegt er að stjórnandinn haldi á svipunni og sjái til þess að takmarkaður nýtist sem best. Þess getur verið brýn þörf að stöðva og grípa fram í ef um stutt viðtal er að ræða og í slíkum tilfellum geta hvassar spurningar og stutt, ydduð svör verið forsenda þess að sem mestum upplýsingum um staðreyndir og viðhorf sé komið til skila á áhugaverðan hátt. 


mbl.is Obama kom betur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband