6.9.2008 | 15:22
Bjallavirkjun, allar bjöllur hringja!
Varla er dags friður fyrir nýjum virkjanaáformum. Ég þurfti í fyrradag að leggja upp í ferð á virkjanasvæðið austan Snæfells og taka frí frá öðru í tvo daga, en á flugleiðinni austur þurfti ég að fara í þann dapurlega og dýra útúrdúr að taka yfirlitsmyndir af virkjanasvæði Bjallavirkjunar, sem ég hafði talið mér trú um að hefði verið barn síns tíma og engum dytti nú í hug að framkvæma.
Ég er byrjaður á heimildarmynd um svæðið, sem ég var svo barnalegur að halda að lægi minna á að klára en aðrar heimildarmyndir mínar um virkjanir út og suður.
Þurrka á upp þann hluta Tungnaár, sem ber af hvað snertir fegurð, hugsanlega fallegasta árkvíslasvæði landsins, og reka virkjanafleyg á mili Landmannalauga og Veiðivatna.
Í stað þess að örfáum kílómetrum fyrir austan Landmannalaugar blasi við þessi hluti Tungnaár, svonefndir Kýlingar, sem er ómissandi hlekkur í gimsteinakeðju Landmannaleiðar, á að fjarlægja ána svo að fólk í framtíðinni horfi aðeins á auðar eyrar.
Þetta verða enn verri spjöll í augum hinna fjölmörgu sem skoða þetta svæði úr loft. Að taka þetta í burtu er svona álíka og að skera munninn af andliti Monu Lisu og segja að nóg sé eftir að fegurð í andliti hennar.
Þetta svæði hefur ævinlega verið eitt af nöfnunum sem ég hef nefnt þegar ég rökstyð það af hverju það stendur svo mikið framar Yellowstone, að hinn heimsfrægi ameríski þjóðgarður kemst ekki inn á nýjustu skrár um merkustu náttúruundir heims þótt hinn eldvirki hluti Íslands gerir það.
Listinn frá Heklu til Grímsvatna um Landmannalaugasvæðið er nokkurn veginn svona: Hekla, Hrafntinnusker, Mógilshöfðar, Jökugil, Frostastaðavatn, Námur, Landmannalaugar, Ljótipollur, KÝLINGAR, Vatnaöldur, Veiðivötn, Langisjór, Eldgjá, Lakagígar, Vatnajökull, Skaftárkatlar, Grímsvötn.
Ekkert af þessum fyrirbærum á sér samsvörun í Yellowstone. Bjallavirkjun á að skila 46 megavöttum, sem gefa 30 störf í álveri, sem aftur á móti skila virðisauka í þjóðarbúið á við 10 störf í sjávarútvegi.
Jafnvel þótt þessi miðlun auki orkuna í neðri hluta virkjannakeðjunnar um annað eins, er verið að ræða um að bæta við virðisauka í þjóðarframleiðsluna sem samsvarar 20 störfum í sjávarútvegi. Já, hróp forsætisráðherra, framleiða, framleiða, framleiða! bergmálar sem aldrei fyrr, framleiða, framleiða, framleiða, hvað sem það kostar, jafnvel þótt fórnarkostnaðurinn verði miklu meiri en ávinningurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)