11.1.2009 | 14:05
Jón "forseta" aftur! Nú eða aldrei!
Fyrir kosningarnar 2007 lagði Íslandshreyfingin fram þau sjónarmið að ráðherrar yrðu að segja af sér þingmennsku og að endurreisa þyrfti vald og virðingu Alþingis.
Nú leggjum við til að fyrsta og auðveldasta skrefið verði stigið strax með breytingu á kosningalögunum sem innleiða beint persónukjör í kjörklefanum í næstu kosningum og afnema þröskuld á fylgi, sem flokkarnir reistu til að viðhalda alræði sitjandi flokka.
Stundum kemur upp sá misskilningur fólks að Jón Sigurðsson forseti hafi verið forseti Íslands. Það var hann reyndar í raun en hann var þó ekki forseti Íslands heldur forsetii Alþingis sem hafði aðeins ráðgjafarvald gagnvart konungnum, sem var þjóðhöfðingi Íslands og Danmerkur.
Nú eða aldrei þarf að gera þær breytingar á stjórnskipuninni sem tryggja endurreisn æðstu stofnunar þjóðarinnar sem er og á að verða Alþingi en naut fyrir hrun vantrausts meirihluta þjóðarinnar.
Best væri ef við fækkuðum þingmönnum og ráðherrum og kysum sérstaklega oddvita framkvæmdavaldsins, sem væri þá jafnframt þjóðhöfðingi landsins líkt og gerist í Bandaríkjunum.
Bandaríkin eru þúsund sinnum stærri þjóð en Íslendingar og samt getur einn maður gegnt báðum þessum hlutverkum þar. Auðvitað getur það sama gilt hér.
Það má líka hugsa sér að kjósa forseta þingsins sérstaklega í þjóðaratkvæði eins og Njörður P. Njarðvík hefur lagt til og að hann feli öðrum að mynda ríkisstjórn og beri ábyrgð á henni. Forseti Alþingis hefði þá vald til að víkja einstökum ráðherrum eða ríkisstjórninni frá og standa að myndun annarrar stjórnar ef svo bæri undir.
Nú eða aldrei! Ef ekki er tilefni til þess nú að gera róttæka uppstokkun til eflingar lýðræðis verður það aldrei gert.
Með slíku fyrirkomulagi myndi nauðsynlegt vald þingsins eflast og þjóðin myndi skilja, hvers vegna Jón "forseti" naut slíkrar viriðingar og trausts sem hann naut á sínum tíma.
![]() |
Uppgjör þarf að fara fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
11.1.2009 | 01:20
Hvenær varð "við borgum ekki" til?
Stefán Jón Hafstein kastaði þeirri tilgátu fram í Vikulokunum í morgun að stefnan "við borgum ekki", sem Davíð Oddsson lýsti á svo afdrifaríkan hátt í frægu viðtali í Kastljósi, hefði orðið til talsvert fyrr þegar Davíð og fleirum töldu ljóst (símtalið fræga við Geir) að íslensku bankarnir ættu enga möguleika til að standast áhlaup.
Sjálfur heyrði ég marga, sem ég hitti eftir að ég kom heim eftir að hafa upplifað áhrif viðtalsins erlendis, sem sögðu mér að Davíð hefði verið svo sannfærandi og öruggur í þessu viðtali að þeir hefðu róast algerlega við að hlusta á það.
Davíð hefur þá væntanlega verið svona öruggur með þetta vegna þess að hann gerði sér enga grein fyrir þeim viðbrögðum erlendis sem þetta hefði og hafði á engan veginn kortlagt vígstöðu okkar til neinnar hlítar.
Hafi fleiri, til dæmis Geir, verið vissir um að "við borgum ekki" gengi ljúflega upp, útskýrir það hringlandaháttinn og hrakninga Davíðs og Geirs úr einu vígi í annað.
Fyrst stóð Davíð gegn því að leita til AGS, og síðan hófust hrakningar Geirs úr einu vígi í annað með því að segja fyrst að AGS tengdi Icesafe reikningana ekki við lánveitingu, síðan að myndum ekki láta kúga okkur, þar næst að við yrðum að vísu að beygja okkur en myndum sækja mál á hendur Bretum vegna hryðjuverkalaganna og loks í það nú í lokin að sérfræðingar teldu slíka málsókn vonlausa.
Varðstöðuna um hagsmuni Íslendinga má líkja við hernað. Þá skiptir öllu að menn hafi yfirsýn yfir vettvang átakanna, styrk aðila og vígstöðuna á hinum ýmsu vígstöðvum. Sá herforingi nær ekki endilega bestum árangri sem gefur út þá dagskipum, eins og Davíð virðist hafa gert, að hopa hvergi heldur standa alls staðar sem fastast á sínu.
En í slíkum átökum getur hinn kaldi veruleiki verið sá að ekki er spurt að vopnaviðskiptum heldur leikslokum.
Dæmi um það úr hernaðarsögunni hvernig svona hernaðarlist getur valdið tjóni er það hvernig Hitler bannaði hvað eftir annað hershöfðingjum að hopa nokkurs staðar og var Stalingrad eitt besta dæmið. Sem betur fer var þessi hroki Hitlers ein höfuðástæðan fyrir tapi Þjóðverja, en það er önnur saga.
Stundum getur endanleg niðurstaða orðið mun skárri ef viðhaldið er ákveðnum sveigjanleika sem byggist á réttu mati á hinni raunverulegu vígstöðu en ekki á óraunsæju vanmati á styrk og veikleika.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)