14.1.2009 | 19:55
Vantar marktækt vitni að íkveikjunni sjálfri ?
Þetta mál er dæmi um aðstöðuleysi og þar með máttleysi löggæslunnar. Maður hótar í votta viðurvist að brenna fólk inni og hellir eldsneyti á fyrirhugaðan brunastað en samt er víst ekkert hægt að gera.
Stundum hefur verið sagt að ekki sé hægt að sanna íkveikju nema að koma að hinum grunaða með logandi eldspýtuna og sjá hann kveikja í. Það sé yfirleitt ekki hægt eftir á. Vantar vitni að verknaðinum.
Í þessu tilfelli var maðurinn búinn að gefa yfirlýsingu um að hann ætlaði að kveikja í en samt var það sennilega of dýrt eða ekki mannskapur til þess að vakta staðinn og sjá hann koma með eldinn og leggja hann að eldsmatnum.
Kannski verður Spaugstofan með þá Grana og Geir á laugardaginn þegar Grani segir:" Förum í burtu svo að maðurinn fái frið til að kveikja í því það er ekki hægt að handtaka hann nema en við höfum sönnunargögn um að hann hafi gert það."
Raunar veit ég ekki betur en að lögreglan fjarlægi ölvaða menn og setji í steininn og sömuleiðis varðar það við lög að hafa í hótunum við fólk.
En nú verður væntanlega betra að eiga við málið eftir að maðurinn kveikti í. Og þó, samanber það sem vitnað var í hér að ofan að það verður bókstaflega að koma að brennuvarginum með eldspýturnar eða sígarettuna í höndunum og standa hann að íkveikjunni til þess að hægt sé að sanna á hann verknaðinn.
P.S. Í athugasemd við þetta blogg er bent á að stúlka hafi orðið vitni að íkveikjunni. Ef svo er vaknar samt spurningin um hvort hún sé marktækt vitni. Ljóst er að þeir sem áttu heima þarna eða þekktu til höfðu andúð á manninum og skal svo sem engan undra.
Vonandi verður hægt að halda honum í gæsluvarðhaldi uns hægt verður að ákæra hann því að maður spyr sig að því hvort maður sem gefur yfirlýsingar um að vilja brenna fólk inni eigi að fá að ganga laus, jafnvel þótt enginn skuli teljast sekur fyrrr en sök hann sannast.
En þótt við höfum slökkvilið hefði kannski verið betra að kostað hefði verið til eftirlits með húsinu.
![]() |
Kveikti í húsi eiginkonunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.1.2009 | 13:16
Mannleg hegðun.
Hegðun dýra og manna og jafnvel trúarbrögð og þjóðfélagskerfi manna mótast af aðstæðum. Nú hafa með hruninu verið skapaðar aðstæður til þess að loksins sé ekki lengur mesti viðskiptahalli í heimi á Íslandi.
Fólk hegðar sér eftir aðstæðum. Trúarbrögð og stefnur sem fara á skjön við aðstæður og mannlegt eðli leiða til ófarnaðar.
Ég átti skemmtilegt viðtal á dögunum um mannlega hegðun við Konráð Olavsson, fyrrum atvinnumann og landsliðsmann í handbolta. Konráð er mágur dóttur minnar og við vorum í afmælisveislu dóttursonar míns.
Ég var að rifja það upp hvernig handboltinn var í gamla daga þegar viðurlög við brotum voru mun minni en nú og til dæmis ekki dæmdar leiktafir.
Niðurstaða okkar var sú að reglur sem byggðust á bláeygu trausti á því að allir leikmenn og keppnislið sýndu ávallt prúðan, drengilegan og sanngjarnan leik stæðust ekki heldur leiddu þvert á móti til ruddalegri og ósiðlegri leiks sem skaðaði íþróttina og það gagn og gleði sem af henni mætti hafa.
Það er lögmál í íþróttum að leikmenn ganga oftast eins langt og reglurnar og dómarinn leyfa. Án reglna og góðra dómara eyðileggst leikurinn. Þess vegna hafa reglurnar af fenginni reynslu verið hertar í tímans rás og þeim fylgt fastar eftir.
Íslenskir ráðamenn virtust halda að annað gilti í keppni í íþróttum heldur en í fjármálum og þjóðmálum.
En nú er á enda tímabil sem erlendis verður kennt við Thatcher og Reagan. Afleiðingarnar eru hörmulegar af hinni blindu trú þeirra og fylgismanna þeirra á skefjalaust frelsi.
Þau gleymdu tvennu: Óheft frelsi eins getur skert frelsi annarra og það er ekki hægt að ganga fram hjá mannlegu eðli, hvorki í kommúnisma, kapítalisma né neinum öðrum trúar- eða stjórnmálastefnum.
Stundum sýna dýr skynsamlegri hegðuni en menn. Í yfirlæti okkar köllum við það reyndar eðlisávísun hjá þeim en ekki skynsemi. Dæmi um slíkt hafa verið sýnd í fræðslumyndum, svo sem þegar tvö dýr gera upp sakir með því að takast á.
Hjá mörgum dýrategundum er aðdáunarvert að horfa á hvernig "skynlausar skepnur" gæta þess að ganga ekki of langt í slíkum uppgjörum. Bara að menn hefðu nú alltaf vit á slíku.
![]() |
Metafgangur af vöruskiptum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)