Efnahagslegt flóttafólk.

Flóttamenn er eitthvað sem við Íslendingar höfum talið okkur trú um að væri bara í fjarlægum löndum. En nú nálgast sá kaldi veruleiki óhugnanlega hratt hér á landi að að stór hluti þjóðarinnar hrekist í úr landi þegar heimilin hrynja vegna kreppunnar.

Þetta fólk mun að vísu ekki verða í flóttamannabúðum erlendis en það mun þó hafa nauðugt flúið heimaland sitt.

Þess vegna eru nýstofnuð Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð af ærnu tilefni og brýnni nauðsyn.

Í landinu eru fjölmörg almenn hagsmunasamtök, svo sem Neytendasamtökin, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Leigjendasamtökin.

Stóra málið núna eru hins vegar heimilin í landinu, en 85% þeirra eru í eigin húsnæði, og stór hluti þeirra er á bjargbrún gjaldþrots vegna stórvaxandi lánabyrða, sem jafnvel geta verið tvöföld eða þreföld á sama tíma sem fasteignaverð lækkar.

Hingað til hefur allt lánakerfið byggst upp á kröfum og hagmunum lánveitenda en valtað hefur verið yfir hagsmuni heimilanna sem í hlut eiga. Allt hefur byggst á því að lánveitendur taki enga áhættu en lánþegarnir alla.

Í Danmörku er þak á verðbótum og lánveitendur taka áhættu af því að verðbólga fari ekki yfir ákveðin viðmiðunarmörk.

Heimilin eru grundvöllur þjóðfélagsins og ef hann hrynur, tekur það allt með sér og stór hluti kynslóðarinnar 25-45 ára hrekst úr landi og verður efhagslegt fóttafólk. Við missum fólkið sem skapar þjóðarauðinn öðrum fremur og stendur undir endurnýjuninni og eftir sitja hinir eldri, sem fer fjölgandi með tilheyrandi kostnaði fyrir heilbrigðis- og tryggingakerfi.

Tíminn er naumur ef ekki á að fara jafnvel enn verr en við búumst við. Hér verður að taka til hendi strax.


mbl.is Stofnfundur Samtaka heimilanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleitar ásakanir um sovétsjónvarp.

Það er með ólíkindum að fréttamenn sem unnu við Sjónvarpið á meðan það var eitt á markaðnum skuli ítrekað þurfa að bera af sér ásakanir um að hafa stundað fréttamennsku á borð við það versta sem hægt hefur verið að finna í löndum alræðis, líkt og Sovétríkjunum sálugu.

Nú síðast fullyrðir Sigurður Kári Kristjánsson í útvarpi að ráðherrar hafi samið spurningar fyrir fréttamenn og vegur með því gróflega að starfsheiðri tveggja fréttastjóra og þeirra fréttamanna sem unnu hjá Sjónvarpinu fyrstu tuttugu ár starfsemi þess.

Þetta er sögufölsun af verstu gerð vegna þess að hið gagnstæða átti sér stað með tilkomu fréttastofu Sjónvarpsins þar sem hinn merki fréttastjóri Emil Björnsson gaf þessa dagskipun: "Klappið þeim ekki með kattarrófunni."

Þeir, sem muna þessa tíma, vita vel að Emil BJörnsson réði unga og fríska menn í fréttirnar og innleiddi nýjan og hvassari stíl í viðtöl en hér hafði áður þekkst að breskri og bandarískri fyrirmynd, en þangað fór Emil til að kynna sér stefnur og strauma.

Ég man til dæmis vel þegar flokkarnir þrýstu mjög á um að komast að með sín mál, að Emil stóð þar fastur fyrir. Ég heyrði eitt sinn að hann sagði við fulltrúa eins þeirra í síma: "Það er ég sem ræð því hvenær hverjir minna manna tala við hverja og um hvað. Ég er fréttastjóri hér, ekki þú. Ef þú vilt breyta þessu þarftu að koma mér frá."

"Hver var þetta?"spurði ég. "Framsónarmaður í þetta skiptið," svaraði Emil og í framhaldi af þessu komu þessar hendingar frá honum sem mörg okkar mun enn eftir:

"Við filmum það sem fólkið vill sjá.
Framsóknarmennina geyma má."

Það er í minni þegar Yngvi Hrafn Jónsson sagði svipað og Emil þegar sjálfur Davíð Oddsson ætlaði eitt sinn að skipta sér af því hvaða fréttamaður talaði við hann.

Það er grátlegt að heyra afsprengi þeirra afla sem hafa reynt að bola burtu "óþægum" fréttamönnum fullyrða að fyrirrennarar þeirra í stjórnmálum hafi getað kúgað fréttamenn fyrri tíma.

Í tímabili hafði Geir Hallgrímsson með sér sérstakan aðstoðarmann þegar hann kom í viðtöl til að gefa sér góð ráð og ábendingar um frammstöðu sína. Halda menn virkilega að Geir hefði talið sig þurfa að hafa þetta svona ef hann samdi spurningarnar og svörin sjálfur?

Auk þess að innleiða beinskeyttari og erfiðrari spurningar í sjónvarpsviðtölum og aukna aðgangshörku stóð Emil fyrir því að fá ferska og ákveðna spyrla á borð við Vilmund Gylfason og Ólaf Ragnar Grímsson í spjallþætti.

Fréttamennirnir stjórnuðu líka ótal slíkum þáttum og gerðu fréttaskýringaþætti á borð við Kastljós þar sem ekki var tekið neinum silkihöndum á viðmælendum.

Þegar ég var með þáttinn "Á líðandi stundu" voru það Agnes Bragadóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson sem voru spyrlar með mér. Trúa menn því virkilega að ráðherrar hafi samið spurningarnar fyrir okkur ? Halda menn að ég hafi ráðið Agnesi Bragadóttur á þessum tíma til þess að vera einhverja puntudúkku ?

Þvert á móti. Hún hafði getið sér orð fyrir hvassa og eftirtekarverða blaðamennsku og var ekkert lamb að leika sér við í viðtölum sínum.

Að segja að Sjónvarpið hafi innleitt sovésk yfirráð ráðamanna yfir fréttamönnum er svona álíka eins og að segja
að Vilmundur Gylfason hafi innleitt valdsmannaþjónkun í viðtölum. Öllu er snúið á hvolf.

Það er sérstaklega sárt þegar hinn látni brautryðjandi Emil Björnsson, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér, er borinn svona fráleitum og grófum sökum.

Á mínum fréttamannsferli tók ég mörg hundruð viðtöl við ráðherra og embættismenn og hafði ætíð brýningarorð Emils að leiðarljósi. Ég veita að sama gilti um starfsfélaga mína.

Ég vona að Sigurður Kári Kristjánsson hafi sagt þetta í fljótræði eða hugsunarleysi Ef hann biðst afsökunar á því, skal ég fúslega fyrirgefa honum.


Lögmál knattspyrnunnar, inná-útaf.

Í knattspyrnu verða allir að sanna sig, leikmennirnir, þjálfarinn og aðstoðarmennirnir. Ef einhver stendur sig ekki fer hann á bekkinn og horfir á leikina á meðan hann er að átta sig á því hvað hann verði að gera til að komast inn á aftur.

Ef hann bætir sig á æfingum og verður aftur jafngóður eða betri en hinir, sem eru inná, fær hann að fara inn á aftur. Og þá verður hann að sanna sig.

Ef þjálfarinn og aðstoðarmennirnir ná ekki árangri og liðið bíður afhroð æ og aftur er þeim skipt út og nýir fengnir til starfans.

Þetta getur verið næsta miskunnarlaust en það er nauðsynlegt fyrir gæði knattspyrnunnar. Enginn getur talið sig svo góðan að hann sé ómissandi og ef hann verður að víkja vegna vangetu, of margra og stórra mistaka eða þá þess að hann fellur ekki inn í liðið og er dragbítur í leik þess, getur hann ekki litið á það sem dóm um saknæmt athæfi heldur aðeins nauðsynlegt gæðamat sem hann hlítir af æðruleysi.

Eiður Smári hefur þurft að hafa fyrir lífinu í hinum harða heimi knattspyrnunnar. Árangur hans nú sýnir að hann hefur haft karakter til að takast á við erfiðleikana og sjálfan sig og ef hann hefði aldrei verið settur á bekkinn væri hann áreiðanlega ekki sá sem hann er nú um stundir.

Samt er ekkert gefið, ef hann stendur sig ekki áfram getur hann lent aftur á bekknum.

Í knattspyrnunni geta menn ekki klúðrað fjórum keppnistímabilum í röð í vissu þess að dómurinn falli ekki fyrr en eftir fjögur ár eins og það er í stjórnmálunum hér á landi.

Bara að við hefðum svipað við og í knattspyrnunni á öllu sviðum þeirra 14:2-stjórnmála sem hafa verið stundið hér á landi undanfarin ár.


mbl.is Eiður Smári skoraði sigurmark Barcelona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæðrastyrksnefnd í febrúar-maí.

Þegar diskurinn "Birta - styðjum hvert annað" var gefinn út fyrir jólin og ég átti samtöl við fólk út af honum, hafði ég á orði að hann væri kannski ekki endilega hugsaður sem jólaflyrirbæri, - það myndi verða meiri þðrf fyrir stuðning og uppörvun í anda þessa disks flyrir mæðrastyrksnefnd á útmánuðum og í vor.

Því miður stefnir í að þetta verði svona og að dýfa kreppunniar muni vaxa að minnsta kosti til sumars. Heimskreppan á fjórða tug aldarinnar óx fyrstu þrjú árin eftir hrunið í nóvember 1929 og önnur dýfa kom á árunum 1937-39. Menn tala um að tækni og þekkning 21. aldarinnar geti gert þetta skárra nú en reynsla fyrstu mánaða kreppunnar nú, að ekki sé minnst á aðdraganda hennar, sýnir hvað menn eiga erfitt með að sjá hlutina fyrir.

Roosevelt Bandaríkjaforseti kallaði aðgerðir sínar "New Deal", eða Nýja uppstokkun þar sem griipið yrði til róttækra aðgerða umbóta og samhjálpar til að lágmarka tjónið af kreppunni. Ekkert bólar á uppstökkun hér og heldur ekki á markvissum aðgerðum, enda liggur hvorki fyrir niðustaða um umfang skuldanna og helstu stærðir málsins né bitastæð hugmynd um leið út úr vandanum.

Sem dæmi um þetta má nefna að á borgarafundi á mánudag talaði Ágúst Ólafur Ágústsson um að skilanefndir bankanna væru að störfum. Engar upplýsingar hafa enn fengist um störf þeirra 100 dögum eftir hrun og gagnsæi þeirra aðgerða er orðin tóm.

Þvert á ráðleggingar Görans Persons á í samstarfinu við AGS að velta meginvandanum yfir á 2010 í stað þess að skilgreina vandann til hlítar sem fyrst og ráðast að honum strax á þessu ári til fulls. Næstu fjórir mánuðir munu skera úr um það hvort hér verður meira og jafnvel algert hrun og upplausn.

Ekki örlar á vilja stjórnvalda til uppstokkunar. Það er enginn "New Deal" í sjónmáli. Sama taplið 14:2-stjórnmálanna á að vera inni á vellinum, engum skipt út af.

P.S. Diskurinn "Birta - styðjum hvert annað með níu lögum um land og þjóð, æðruleysi, kjark og samhjálp fæst hjá Skífunni, Smekkleysu, Olís og í Bónus og hver einasta króna, 1299 af hverjum diski, rennur beint til Mæðrastyrksnefndar.


mbl.is Gengi hlutabréfa lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. janúar 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband