17.1.2009 | 23:54
Táknrænasta aðgerðin ?
Hugmynd Mývetninga varðandi gullkálfinn var frábær. Hún vísaði beint í hin sígildu sannindi Gamla Testamentisins sem aldrei falla úr gildi þótt ótrúlegt megi virðast, svo mjög sem við teljum að mannkyninu hafi farið fram.
Kannski slá Akureyringar gullkálfinn úr tunnunni á öskudaginn ? Eða að félagar í náttúruverndarsamtökum grýti skóm sínum í álkálfinn ?
![]() |
Mótmælt við Mývatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.1.2009 | 14:27
Oddaaðstaða Framsóknarflokksins ?
Í umræðum í sjónvarpi kvöldið eftir kosningar benti ég á að á nýju þingi yrði Framsóknarflokkurinn í vissri oddaaðstöðu úr því að hann hefði eins manns meirihluta á þingi með Sjálfstæðisflokknum. Hann gæti því að minnsta kosti á pappírnum verið í stjórn bæði til hægri og vinstri.
Jón Sigurðsson hafði þá sagt að miðað við tapið í kosningunum væri eðlilegt að hann stæði utan næstu stjórnar. Bjarni Harðarson hefur síðar sagt að hann hafi talið þetta útspil formannsins óskynsamlegt í stöðunni.
Minna má á það að 1978 beið flokkurinn sitt mesta afhroð í sögu sinni og menn töluðu á svipuðum nótum þá.
Niðurstaðan varð samt sú að flokkurinn leiddi næstu ríkisstjórn með Ólaf Jóhannesson í forsæti.
Ég veit ekki hvort Páll Magnússon er farinn að gæla við eitthvað svipað nú og þess vegna farinn að leika sér að því í huganum að úthluta embættum í komandi stjórn.
En aðstæðurnar eru bara miklu alvarlegri nú en 1978 eða 2007 og engir tveir flokkar bera jafn mikla ábyrgð á 14:2 stefnunni og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, auk hinnar miklu ábyrgðar Samfylkingarinnar, sem sat sofandi í stjórn næstu 16 mánuði á undan hruninu og bar samábyrgð á upphafinu sem fólst í Kárahnjúkavirkjun.
![]() |
Formaður í forseta Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.1.2009 | 13:29
Vanhugsuð eða útsmogin aðgerð ?
Ég á erfitt með að sjá að sú aðgerð mótmælasamtaka að hefja mótmælafund inni í miðjum mótmælafundi annarra samtaka geti verið vel ígrunduð. Þvert á móti mun svona uppákoma skaða þá miklu mótmælaöldu sem risið hefur um allt land og færa ráðamönnum algerlega það vopn í hendur að geta sagt að með þessu sýni mótmælendur að þeir séu sundraður og sundurþykkur hópur sem geti ekki komið sér saman um neitt.
Ef fólkið í hópnum Nýjum röddum er gagnrýnið á fundarfyrirkomulag, fundarstjórn og val á ræðumönnum á fundunum á Austurvelli er rétta leiðin til að rökræða það og koma sjónarmiðum varðandi það á framfæri augljóslega ekki sú að reyna í raun að heypa fundinum í dag upp.
Af hverju boða samtökin Nýjar raddir ekki bara til eigin mótmælafundar og flytja sín mál þar ?
Hingað til hafa hin stóru mótmæli verið höfð uppi með vitneskju og samþykki og samráði við lögreglu. Ég á erfitt mað að trúa sögum um það að Nýjar raddir hafi ekki getað haldið sinn fund á þann hátt.
Fyrst hægt er að halda stórkostlegar mótmælaaðgerðir á fyllilega löglegan hátt með samráði við lögreglu, af hverju að gera annað ?
Enn eru tvær stundir þar til Nýjar raddir ætla að efna til aðgerða sem geta skapað úlfúð á Austurvelli og dregið úr afli mótmæla. Af hverju hefur þessi hópur þetta ekki svipað og gert var fyrr í vetur þegar tvenn samtök mótmæltu þannig að önnur hófu sínar aðgerðir á eftir aðgerðum hinna ? Seinkar aðgerðum sínum um hálftíma ?
Annað hvort er þetta vanhugsuð aðgerð eða útsmogin aðferð til að efna til úlfúðar og illinda og veikja afl mótmælafundanna á Austurvelli. Ég trúi því ekki fyrr en ég tak á hið síðara eigi við.
Mótmælafylkingarnar eiga að styðja hver aðra, - ekki efna sérstaklega til óþarfra og skaðlegra sundrungaraðgerða.
P.S. Nú er mótmælafundinum lokið og ekki varð af öðrum fundi innan hans. Tveir menn sem Hörður Torfason nafngreindi og stóðu nálægt ræðupallinum kölluðu eitthvað til hans og fengu tilsvör. Boðað var til næsta fundar klukkan 13:00 á Austurvelli næstkomandi þriðjudag þegar þing kemur saman. Með fjölgun atvinnulausra fjölgar þeim sem geta komið á fundi á þeim tíma dagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)