24.1.2009 | 15:49
Þakka þér fyrir, Hörður Torfason.
Í beinu framhaldi af bloggi mínu áðan um það, sem erlendir fjölmiðlar hafa eftir íslenskum mótmælendum varðandi veikindi forsætisráðherrans, léttir mér við að heyra um þessa afsökunarbeiðni þína, - manns sem hefur hingað til ótrauður og lengur en flestir aðrir barist fyrir mannréttindum í anda kærleika Krists.
Bara að fólk hefði vitað þetta fyrr því að ég veit af mörgum mótmælendum, sem ekki gátu fengið sig til að fara á fundinn í dag út af þessu. Það þarf dálítið til að fólk staldri við á þann hátt.
Sjálfur hef ég komið á alla fundina, sem ég hef átt möguleika á að koma á, alls þrettán af fyrstu fimmtán fundunum auk allara annarra funda og fjölmargra mótmælaaðgerða.
Tökum höndum saman um að láta ekkert skyggja á baráttuna fyrir því sem mótmælendur sameinast um.
P. S. Annað og þessu óskylt. Einmitt rétt í þessu var milljónasta flettingin að detta inn á þessari bloggsíðu.
Af því tilefni vil ég þakka þeim öllum kærlega sem hafa flett eða komið í heimsóknir og tekið þátt í frjórri,
skemmtilegri og málefnalegri rökræðu á síðunnni sem er enn ekki orðin tveggja ára.
![]() |
Baðst afsökunar á ummælum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.1.2009 | 15:38
Óska engum "heppni" af þessu tagi.
Hver sem maðurinn er, hvort sem honum gengur vel eða illa við það sem hann er að gera, óska ég engum manni þeirrar "heppni" að fá krabbamein, hvorki lítið né stórt, vel læknanlegt eða ekki.
Mér finnst einkennilegt að telja mig knúinn til að lýsa þessu yfir fyrir mína hönd, en mín rödd er ein af tugþúsundum "radda fólksins" sem mynda þetta þjóðfélag og þurfa að láta í sér heyra hver og ein sem aldrei fyrr.
Nú er það túlkað í erlendum fjölmiðlum sem raddir mótmælenda á Íslandi að þeir telji það mikið lán fyrir forsætisráðherrann að hafa fengið krabbamein.
Ég set spyr hvort þessar íslensku raddir muni reisa við það traust á íslenskri þjóð sem hún hefur misst erlendis.
Það held ég ekki og ekki heldur að þessar raddir mæli fyrir munn meirihluta þjóðarinnar eða þeirra sem hafa skipað sér í flokk þeirra sem vilja tafarlausar breytingar, siðbót og viðhorfsvakningu og ég tel mig eiga samleið með.
![]() |
Ekki farin að finna til með honum ennþá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.1.2009 | 09:24
Vitundarvakning.
Enginn veit enn hvað hvítu borðarnir eiga að tákna sem einhver eða einhverjir hafa hengt á ljósastaura og umferðarmannvirki í Reykjavík. En það er vitundarvakning í gangi hjá tugþúsundum Íslendinga.
Ég hef orðið þessa var til dæmis í heimsóknum í menntaskólana eftir hrunið.
Fyrir tveimur árum var það enn "in" hjá ungu fólki að verða viðskiptafræðingar og hagfræðingar og sjá fyrir sér spennandi og glæsta framtíð á því sviði.
Mjög almenn var sú skoðun að stjórnmál væru svo óhrein að venjulegt fólk ætti ekki að koma nálægt þeim heldur eftirláta það fólki, sem hefði áhuga á því sviði og ætlaði sér að klifra upp metorðastigana inni í flokkunum og komast í "goggunarröðina".
Þetta fólk þyrfti að vera hæfilega "þægt" og útsjónarsamt til að hljóta velþóknun viðkomandi flokksforystu eða flokkseigendafélags. Þegar það síðan væri komið á þing eða í feitar stjórnunarstöður í gegnum stjórnmálin biði þess glæst og örugg framtíð, sem sérsniðið eftirlaunakerfi og samtryggingarfyrirkomulag flokkanna færði þeim.
Þegar til dæmis Davíð Oddsson sá til þess að þáverandi höfuðandstæðingar hans í pólitík, fyrst Steingrímur Hermannsson og síðan Jón Baldvin Hannibalsson, yrðu annars vegar seðlabankastjóri og hins vegar sendiherra, gaf það þau skilaboð að í staðinn gæti Davíð gengið að seðlabankanum vísum, hver sem yrði þá við völd.
Nú er ég ekki að segja með þessu að Jón Baldvin Hannibalsson hafi ekki haft yfirburða menntun, reynslu og hæfileika til að verða sendiherra. Jón Baldvin hefur til dæmis aldrei verið öflugri og skarpari en nú. En skilaboðin með ótal sams konar stöðuveitingum áratugum saman voru skýr.
Það var ekki "in" fyrir tveimur árum að "óhreinka sig" á þátttöku í pólitík. En nú hefur orðið vitundarvakning. Það sést á andlitum og spurningum unga fólksins í menntaskólunum og þátttöku fólks í öllum þeim grasrótarhreyfingum sem nú spretta upp.
Æ fleiri skynja að ef almenningur vill ekki taka þátt í stjórnmálum til að vinna að siðbót og umbótum er lýðræðið orðin tóm. Ekkert raunverulegt lýðræði þrífst án almennrar þátttöku almennings í stjórnmálum.
Lýðræðið er að vísu gallagripur eins og öll mannanna verk en það hefur enn ekkert skárra fyrirkomulag fundist.
P.S. Eins og sést var þetta bloggað klukkan 9:24. Klukkan 9:58 bloggaði Ólína Þorvarðardóttir um það að hópurinn Nýtt lýðveldi hefði staðið að þessu.
Það er alger samhljómur með sjónarmiðum Nýs lýðveldis og þeim sem ég hef sett fram í blaðagreinum í vetur. Raunar var lýðræðisbylting eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar..
Við vildum aðgreiningu framkvæmdavalds og löggjafarvalds, eflingu hins síðarnefnda og afnám ofríkis framkvæmdavaldsins, jöfnun atkvæðavægis og breyttai kjördæmaskipan og kosningalög.
Þáttastjórnendur og aðrir stjórnmálaflokkar virtust ekki hafa áhuga á að ræða þetta og þótt ég reyndi að skjóta því að fékkst það aldrei rætt utan einu sinni í mýflugumynd í formannaumræðunum.
![]() |
Hvítir borðar í borginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.1.2009 | 01:34
Tákn Bush og glýju-Íslands.
Cadillac ´59 er stundum sagður vera tákn öfgatíma í bandarískri bílahönnun þegar bílaframleiðendur kepptust við að hafa bíla sína sem stærsta og með sem stærsta ugga, helst himinháa. Afturendi Cadillac ´59 stóð lengi út úr Hardrock Café í Kringlunni.
Í framtíðinni verður Hummer svipað tákn Bush-tímans í Bandaríkjunum.
Hummer og bandarískur ofurpallbíll verða tákn glýjutímans eða "gróðærisins" á íslandi.
Hummer H1. varð frægur í Flóastríðinu 1991. Hann var sérsmíðað stríðstól, þrjú tonn að þyngd með 45 sm veghæð, getu til að bera hálfs tonns fallbyssu á pallinum og litlar lóðréttar gluggarifur vegna hættu á grjóthríð frá sprengjuregni og kúlnahríð.
Mjög knappt og þröngt rými fyrir aðeins fjóra menn var í þessum bíl.
Smám saman varð hann tákn karlmennsku og ríkidæmis og veldis Bandaríkjanna þótt hann væri sá bíll á markaðnum sem hentaði verst til venjulegra nota í borg eða venjulegra ferða um vegaslóðir. En menn snöttuðu um í bæjum og borgum til að sýna veldi sitt á þessu tæki.
GM sá sér leik á borði til að gabba kaupendur. Þeir notuðu undirvagn, vélar- og drifbúnað úr Chevrolet Tahoe og settu ofan á grindina eftirlíkingu af yfirbyggingu á Hummer og nefndu fyrirbærið Hummer H2.
Hentu inn driflæsingum, töldu kaupendum trú um að þeir ækju um á gríðarlegum sérsmíðuðum hernaðartorfærutröllum og settu að sjálfsögðu hátt verð á stöðutáknið.
Þessi bíll gerði ekkert meira en lítið breyttur Tahoe, var með helmingi minni veghæð en Hummer H1 og á engan hátt sambærilegur við hann hvað snerti getu í torfærum. Það skipti samt engu máli fyrir flesta kaupendur, sem aldrei fóru á honum í torfærur.
Útsýnið í gegnum gluggarifurnar var afleitt og Chevrolet Tahoe með smábreytingum í drifbúnaði að sjálfsögðu miklu hagkvæmari bíll, enda mun léttari, því Hummer H2 var næstum þrjú tonn á þyngd.
Hér á landi er ameríski ofurpallbíllinn algengara stöðutákn, meira en þriggja tonna þungur rúmlega sex metra langur bíll með allt að 400 hestafla vél sem eyðir upp undir 30 lítrum á hundraðið þegar skroppið er á honum til að versla í Bónusi !
Auðvitað eru til þeir sem hafa raunveruleg not fyrir slíkan bíl til að draga hestakerrur eða hliðstæð tæki eða til komast á þeim mikið breyttum um verstu ófærurnar í jöklaferðum. En þeir eru aðeins lítið brot af kaupendunum.
En ég þekki ótrúlega marga eigendur þessara bíla sem sögðust hafa grætt tvær til þrjár milljónir króna á að kaupa bíl sem kostaði samt nokkrum milljónum meira en bíll sem hefði alveg nægt fyrir þá.
Þeir tóku myntkörfulán fyrir bílnum sem fékkst á 40% afslætti vegna hás gengis krónunnar og sérstaks afsláttar á innflutningsgjöldum vegna þess að þessir bílar eru skilgreindir sem verktakabílar.
Það var og er enn hægt að kaupa lúxus-verktakabíl af gerðinni Cadillac Escalade !
Þessi hegðun var sama fyrirbærið og fyrstu árin í sólarlandaferðum Íslendinga þegar margir voru augafullir allan tímann til að græða sem mest á því hvað vínið var ódýrt !
Auk þess að vera tákn um glýju-Ísland er ofurpallbíllinn tákn um veldi og áhrif verktakanna á Íslandimeð öll sín ítök hjá stjórnmálamönnum þeim er telja umturnun íslenskrar náttúru og hernaðinn gegn landinu sitt göfugasta hlutverk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)