11.10.2009 | 21:02
Hin raunverulega neyð.
Stór orð eru notuð um kreppuástandið á Íslandi. Þau verða máttlaus og næstum marklaus þegar ástandið á okkar landi er borið saman við það sem stór hluti mannkyns verður að búa við í þróunarlöndunum og ætlunin er að minna okkur á með HREYSI í Smáralind.

Í þremur ferðum mínum til Eþíópíu og Mosambík blasti við slík neyð og fátækt að orða varð vant.
Efsta myndin sýnir dæmigerðan húsakost í þorpunum í Eþíópíu þar sem meðaltekjur á mann eru 200 sinnum minni en á Íslandi.
Tvær ferðirnar voru farnar um Eþíópíó um svipaðar slóðir til að fá samanburð á milli tveggja ferða.

Á svæði nálægt landamærunm að Sómalíu þora vestrænir menn ekki að vera á ferli vegna hættu af völdum ræningja frá Sómalíu sem herja inn í Eþíópíu.
En ég var þarna á ferð með íslenska trúboðanum Helga Hróbjartssyni, sem nýtur svo fádæma mikillar virðingar, að þótt hann sé kristinn þá er hann nánast í guða tölu meðal múslima.
Hjá þeim eru tignarröðin svona: Allah, Múhammed, Helgi Hróbjartsson.
Og ég var fullvissaður um að svo lengi sem ég væri á ferð með Helga myndu engir stigamenn svo mikið sem hreyfa hár á höfði okkar.
Sem var reyndar ómögulegt hvað mig varðaði.
Leið okkar lá framhjá hræjum af dýrum sem höfðu drepist úr þorsta og hungri í miklum þurrkum sem geysuðu þarna.

Við fórum þessa síðari ferð vegna gjafar frá Akureyringum til fólks í litlu þorpi í El-Kere héraði og fólst í lítilli vélknúinni kornmyllu, sem færir þeim, sem hana hafa, byltingu hvað snertir mölun korns, sem allt líf fólksins þarna snýst um.
Í El-Kere heimsóttum við sömu fjölskyldur og fyrir tveimur og hálfu ári og gengum að grafreitum barna, sem við höfðum heilsað upp á í fyrri ferðinni.

Það var átakanlegt eins og svo margt annað sem þarna blasti við.
Á mynd hér við hliðana sjáum við eina af fjölskyldunum, sem höfðu mist börn síðan ég var þarna síðast, við hliðina á húsakynnum sínum og þar fyrir neðan mynd af einum grafreitnum.
Og samt var fólkið glaðlegt og brosandi.

Í báðum Eþíópíuferðunum flugum við Helgi yfir stóran hluta landsins.
Við blöstu gríðarlegir möguleikar til virkjunar vatnsafls á stórum svæðum.
Það minnti mig á þá staðreynd að í þróunarlöndum heims er óbeisluð hundrað sinnum meiri vatnsorka en nemur allri orku Íslands og að í landi eins og Eþíópíu vegur hver dollar sem kemur inn í landið hundrað sinnum meira, miðað við tekjumismun þjóðanna.
Valið stendur nefnilega ekki á milli jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana hér á landi og kolaorkuvera þar heldur á mili sambærilegra virkjana þar og hér.
Ég gerði fréttapistla um þessar ferðir en eitt af þeim verkefnum, sem ég er byrjaður á en á eftir að fullvinna er að gera tvo heimildarþætti fyrir sjónvarpið um þær.
![]() |
Amnesty reisir hreysi í Smáralind |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2009 | 15:42
Jökulheimar eru ekki "í Vatnajökli".
Þetta kann að sýnast smásmugulegt en Jökulheimar eru ekki "í Vatnajökli" heldur í nokkurra kílómetra fjarlægð frá jöklinum.

Auk þess eru standa engir fjallaskálar í jöklum hér á landi heldur á jöklum.
Meðfylgjandi mynd er tekin við Jökulheima í ferð Jöklarannsóknarfélagsins á Vatnajökul í vor.
Hugsanlega var sá sem slasaðist nú einhver af ferðafélögum mínum þá og vona ég að hann bíði ekki varanlegan skaða af þessu slysi.
Nú kann að vera að slysið hafi átt sér stað á Vatnajökli fyrir austan Jökulheima, en af fréttinni er ekki hægt að ráða það.
Orðalagið samsvarar því að talað væri um slys við Mógilsá á Esju.
Þekkingu margra fjölmiðlamanna á landinu okkar virðist afar ábótavant.
Ég er búinn að vinna nógu lengi á fjölmiðlum til að hafa kynnst því.
Á okkar tímum eru aðgenginleg alls kyns gögn sem geta bætt mönnum þetta þekkingarleysi upp.
Hvorki þekkingarleysi né skortur á upplýsingum getur því afsakað síendurtekna afhjúpun á því þegar þekking fjölmiðlamanna á landinu okkar nær varla út fyrir borgarmörk Reykjavíkur.
![]() |
Slasaðist ekki alvarlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2009 | 09:37
Mikil gleði og fjör.
Ég fer afar sjaldan á dansstaði borgarinnar á næturnar um helgar. Undantekning var í gærkvöldi þegar við hjónin brugðum okkur á Kringlukrána þar sem við Þuríður Sigurðardóttir sungum með Lúdó-sextett og Stefáni milli klukkan tólf og eitt bæði ný og gömul lög.
Ég og Lúdó-sextett eigum 2x50 ára starfsafmæli í bransanum og það var mjög gaman að taka upp 45 ára gamlan þráð með þessari síungu hljómsveit.
Það eru orðin ein þrjátíu ár síðan við Þuríðum sungum svona með Sumargleðinni á balli og 24 ár síðan ég sýslaði við þetta með Sumargleðinni síðasta árið sem ég var með henni.
Kringlukráin var full út úr dyrum og þetta var bara gaman og þótt einstaka gestur væri kannski búinn að fá sér full mikið í glas, ríkti þarna mikil gleði og fjör í dunandi dansi.
Hafi þetta verið svona víðar í borginni í nótt er rétt sú frásögn lögreglunnar af því að allt hafi farið þokkalega fram. Nógu oft eru leiðinlegar fréttir sagðar á sunnudagsmorgni af því sem miður hefur farið.
![]() |
Rólegt þrátt fyrir fjölmenni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)