13.10.2009 | 19:58
Það sem ekki er til bilar aldrei.
Tæknin átti að leysa öll vandamál, nú síðast í Utopiumyndinni um Venusar-verkefnið. Í texta okkar Magnúsar Ingimarssonar um "Árið 2012" segir: "...vélar unnu störfin og enginn gerði neitt."
Tæknin átti að auka frítíma manna. En menn gerðu ekki ráð fyrir að allur vélbúnaðurinn gæti bilað og að upp risu nýjar stéttir sem ynnu við viðhald og endurnýjun.
Parkinson-lögmálið kveður á um að tiltekin starfsemi fylli ævinlega út í það rými sem fyrir hendi er.
Athafnasemi manna gerir það líka.
Við upptökur á hljóðum og tónlist komu svonefndar DAT-spólur á markað á níunda áratugnum og þóttu bylting.
Eftir örfá ár komu fram á þeim slíkir ágallar að þær hurfu næstum jafn hratt og þær komu. Niðurstaðan er sú að gamli vynillinn, gömlu hljómplöturnar, eru áreiðanlegasti varðveislumátinn.
Fræg er setning sjálfvirka búnaðarins í flugvélinni sem tilkynnir: "Í þessari flugvél er sjálfvirkur búnaður, sem sér um allt flug þotunnar og bilar aldrei....bilar aldrei....bilar aldrei."
Murphyslögmálið kveður á um að ef eitthvað geti farið úrskeiðis eða bilað muni það gera það, sama hversu fjarstætt það kunni að sýnast eða litlar líkur á því.
Lögmál Henry Ford er því það eina sem sem hægt er að treysta: Það sem ekki er til bilar aldrei.
Því segi ég stundum þegar allt fer í hönk í flókinni véla- og tölvuveröld okkar: "Þetta var allt saman miklu betra og öruggara hér í gamla daga."
![]() |
Svíþjóð hvarf af vefnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.10.2009 | 13:24
Impregilo, gott og vont.
Í nýrri bók um Kárahnjúkavirkjun tekur Friðrik Sophusson upp hanskann fyrir Imgpregilo og telur að Íslendingar hafi ómaklega vegið að fyrirtækinu og ekki látið það njóta sammælis, - dæmt það miklu harðara en önnur fyrirtæki.
Sumt af því sem Friðrik segir er rétt eins og til dæmis það að ekki hafi verið rétt hjá Íslendingum að líta með fyrirlitningu á fyrirtækið vegna þess að það kom frá Suður-Evrópu.
Í ljós kom að tækni- og vélabúnaður Impregilo var í fremstu röð og átti sinn þátt í að yfirleitt tókst að klára þetta áhættusama og erfiða verkefni án þess að kostnaður við það færi enn meira fram úr áætlun en hann gerði.
Fyrirtækið hafði á sínum snærum mjög færan mann til að útskýra verkefnið í þeim kynnisferðum sem ég fór á svæðið, en hann var yfirverkfræðingur þar og hefði því ekki getað sinnt þeim störfum almennt og daglega. Miðað við stærð verkefnisins í jafn litlu landi og okkar var full ástæða til að fá innlendan mann til að sjá um samskipti við innfædda og það sýnir kannski hofmóð Impregilo að kvarta yfir því.
Ég tel hins vegar að gagnrýni á meðferð fyrirtækisins á starfsmönnum sínum hafi verið réttmæt og þarf ekki annað en að bera hana saman við vinnubrögð Bechtel á Reyðarfirði til að sjá muninn.
Upphaflega var því lofað að Íslendingar fengju 80% starfa við verkefnið en útlendingar 20% en þetta varð öfugt.
Impregilo flutti inn verkamenn frá fjarlægum löndum eins og Portúgal og Kína og einkum heyrði ég magnaðar sögur af því hvernig það fór með Kínverjana.
Þeir voru að sjálfsögðu vanir fáránlega lélegum kjörum og létu sig því hafa vinnuaðstæður sem engir aðrir hefðu þolað, til dæmis í göngunum þar sem bormenn lentu mánuðum saman í verstu hremmingum vegna misgengis.
Engin hætta er á að þessir menn muni bera vitni um sín kjör, - þeir komu og fóru og hurfu í kínverska mannhafið.
Mér finnst það móðgun við íslenska eftirlitsmenn að gera því skóna að aðfinnslur þeirra hafi ekki verið réttmætar. Þvert á móti undruðust margir það langlundargeð sem þeir sýndu gagnvart aðbúnaði og framkomu verktakanna við starfsmenn.
Ég undanskil verktakafyrirtækið Suðurverk þar sem ég heyrði aldrei neitt annað en gott um góða stjórn og vinnubrögð. Af samskiptum við starfsmenn Landsvirkjunar og Ístaks hef ég ekkert nema gott að segja.
Bechtel sýndi og sannaði í framkvæmdunum á Reyðarfirði hvernig hægt er að ná árangri í öryggismálum sem er í sérflokki og til eftirbreytni og lærdóms fyrir íslenska verktaka. Gildir þá einu þótt haft væri í flmtingum eystra að stundum skráðu menn meiðsli, sem þeir urðu fyrir á vinnustað, sem meiðsli á heimili sínu eða utan vinnusvæðisins.
Öryggisráðstafanir Bechtel stungu í stúf við það ábyrgðarleysi sem til dæmis var sýnt við vinnu fyrir neðan Fremri-Kárahnjúk og kostaði eitt af þeim mannslífum sem glötuðust við þessa framkvæmd.
Ég vísa einfaldlega í skýrslurnar um þetta slys fyrir þá sem vilja kynna sér þetta.
Friðrik fer hörðum orðum um norrænu fyrirtækin sem buðu í verkið og hurfu frá því og tel ég það mjög ómaklegt. Forráðamenn þessara fyrirtækja sáu þá gríðarlegu áhættu og mikla fórnarkostnað sem verkið bauð upp á og fáir hafa lýst betur en lögfræðingur Landsvirkjunar í bréfi hans til þeirra sem héldu fram kröfum vegna vatnsréttinda.
Ég hef áður vitnað í þessa lýsingu og þegar hún er lögð saman við álit nefndar um Rammaáætlun vegna virkjana sést eðli Kárahnjúkavirkjunar mjög vel.
Forráðamenn norrænu verktakanna sýndu ábyrgð og yfirvegun sem fór að sjálfsögðu í taugarnar á íslenskum ráðamönnum og Impregiló.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)