Næg "stakkaskipti" ?

Einstakar yfirlýsingar stjórnmálamanna eru oft viðfangsefni stjórnmálaskýrenda þegar þeir reyna að finna út hvað sé að gerast og hvað muni gerast.

Eitt besta dæmið var á þeirri tíð þegar hópur sérfræðinga reyndi að ráða í stefnu og strauma innan sovéska kommúnistaflokksins með því að pæla í uppröðun forystumanna á svölum Kreml 1. maí og einstökum yfirlýsingum þeirra.

Ef þessi leið er farin til að spá fyrir um viðbrögð Ögmundar Jónassonar og fylgismanna hans við nýja Iceseve-samningum koma nokkur ummæli hans upp í hugann.

Þegar rætt var um ESB á þingi hvatti Ögmundur til þess að menn kæmu upp úr skotgröfum flokkanna og fjölluðu þverpólitískt um málið.

Þá sagði hann líka að hann myndi hafa viðbrögð Sjálfstæðismanna hvað þetta varðaði til hliðsjónar þegar hann sjálfur tæki ákvörðun og fylgjast mjög náið með Sjöllunum.

Honum varð að ósk sinni um þverpólitíska umfjöllun um Icesave á sumarþinginu og vildi að slíkt héldi áfram nú í haust.

Þegar þetta gekk ekki eftir sagði hann af sér, kvaðst hafa orðið fyrir vonbrigðum með bæði ráðamenn ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðismenn, sem hefðu verið fljótir að fara ofan í skotgrafir.

Hann sagði jafnframt að hann myndi halda áframa að styðja ríkisstjórnina.

Í dag sagðist hann ætla að fara vandlega yfir nýja Icesave-samninginn áður en hann tæki endanlega afstöðu. Það stakk í stúf við viðbrögð Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna sem lýstu strax yfir eindreginni andstöðu.

Ögmundur sagði líka að nú hefði samningurinn tekið "stakkaskiptum".  

Ef maður leggur þetta allt saman, sem að ofan hefur verið nefnt, sýnast mestar líkur verða til þess að Ögmundur vilji ekki fella ríkisstjórnina.

Tafarlaus andstaða Sjalla og Framsóknar ofan í "skotgröfunum" mun sennilega ráða talsverðu um afstöðu Ögmundar. Samt bíðum við spennt.


mbl.is Endurskoðun óháð þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Brattur Papa Jazz."

Það var gaman að sjá hve margir komu í Ráðhús Reykjavíkur í dag til að hylla Guðmund Steingrímsson, "Papa Jazz" á áttræðisafmæli hans.

Sjálfur vann ég með honum út um allt land þegar hann var trommari hjá hljómsveit Ragnars Bjarnasonar og alltaf var það jafn yndislegt.

Sjálfur sló meistarinn á trommurnar í Ráðhúsinu í dag eins og honum er einum lagið þegar hljóðfæraleikarar og söngvarar heiðruðu hann með tónlist sinni.

Til varð eftirfarandi texti við eitt af lögum Jóns Múla:

PAPA JAZZ.

Efsti tenór og dýpsti bass,
einleiksflauta´og allt upp í risahljómsveit, -
allir "svinga" ef að á trommum er Papa Jazz.

Eins og eldflaug á leið til mars, -
upp í hæðir svífandi´í banastuði
þeytast allir ef að á trommum er Papa Jazz.

Hann hefur skotið flestum öðrum ellibelgjum ref fyrir rass.
Rytmann slær enn albest hjá tríóum
og upp í Big-Band-brass
brattur Papa Jazz.

Öll hans músík er "súper-klass".
Unaðssveiflu fram yfir nírætt slær hann, -
eyrnakonfekt, - leiftrandi rétt eins og fótó-flass.

Hyllum því Papa, hyllum því Papa, hyllum því Papa Jazz !


Feginn að ekki var birt mynd af mér.

Smyglleiðir eru margvíslegar, það sýnir frétt um notkun á loftpressukút til smygls.

Sú var tíðin að ég vann á loftpressu nokkur sumur og hafa vafalaust einhverjir tekið myndir af mér við þá iðju, því að allir landsmenn þekktu mig og sífellt var verið að taka af mér myndir. Hafa menn meira að segja haft samband við mig og sagst átt mynd af mér á vinnustað, en loftpressan var notuð til að grafa skurði fyrir hitaveitu um þrjú hverfi í borginni og því mikið umferð í kringum mig.

Og hvað kemur það þessu máli við? Er þetta ekki dálítið langsótt? Nei, það finnst mér ekki.

Fyrir 33 árum hjálpaði ég nefnilega nokkrum mönnum við að halda kyrrum loftbelg, sem ég átti að fljúga í.

Sjö árum síðar kom fram ásökun um að loftbelgurinn hefði verið notaður til að flytja fíkniefni inn til landsins.

Og viti menn: Tímaritið Samúel sló þessu upp á forsíðu og birti stóra mynd af mér hangandi á körfu loftbelgins og var ég eini maðurinn sem sást á myndinni !

Mér fannst þetta ansi langsótt þá og á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Síðan þá er ég skiljanlega viðbúinn hverju sem er þegar eitthvað svipað kemur upp. En þó feginn að enginn gróf upp mynd af mér á loftpressunni.


mbl.is Reyndu að smygla sterum í loftpressu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband