Mótsagnirnar varðandi eignarhald.

Mismunandi eignarhald hefur kosti og ókosti. Kárahnjúkavirkjun er dæmi um þann ókost opinbers rekstrar að hneigjast til að fara út í áhættusöm, dýr og tiltölulega lítt arðbær verkefni í sovéskum stíl sem engin einkafyrirtæki myndu þora að gera. 

Hinir mörgu og stóru áhættuþættir Kárahnjúkavirkjunar, sem lögfræðingur fyrirtækisins lýsti svo vel á sínum tíma til að berja niður væntingar heimamanna um greiðslur fyrir vatnsréttindi, hefðu fælt öll einkafyrirtæki frá að fara út í þessa framkvæmd, þar sem áhættunni var velt yfir á þjóðina.

"Gróðærið" sýndi hins vegar fádæma áhættufíkn óhefts kapítalisma sem hreif með sér stjórnvöld og stóran hluta almennings þegar hæst lét.

Stærsta hættan sem nú steðjar að er fólgin í því að auðlindirnar og fyrirtækin sem yfir þeim ráða, lendi í höndum annarra þjóða.  

Miðað við áframhaldandi stóriðju- og virkjanaæði Landsvirkjunar finnst mér hins vegar hart ef fara á í fjárhættuspil og áframkeyrslu þessarar stefnu með lífeyrisgreiðslur okkar sem höfum byggt upp lífeyrissjóðina á langri starfsævi og héldum í barnaskap okkar að með því værum við að forða okkur frá því ævikvöldi fátæktar sem annars yrði hlutskipti margra okkar.

En kannski verður það nú líka viðeigandi framhald á æði skammgróðans sem enn virðist lifa góðu lífi á sumum sviðum.    


mbl.is Landsvirkjun ekki föl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostir og ókostir sjálfvirkninnar.

Í fluginu takast sífellt á tvenns konar sjónarmið varðandi sjálfvirknina annars vegar og stjórn flugliðanna hins vegar, stundum lýst með orðunum að "handflljúga".

Í frétt af flugmönnunum sem gleymdu sér koma ókostir mannlegra mistaka vel fram.

Hvort tveggja hefur sína kosti og ókosti og í stuttu máli eru ókostirnir svipaðar við báðar aðstæður, sem sé þeir, að ekkert það sem gert er eða búið til af mönnum getur verið fullkomlega óskeikult eða laust við bilanir.

Flugslys hafa orðið, bæði vegna of mikillar sjálfvirknig og vegna mannlegra mistaka sem sjálfvirkni hefði getað afstýrt.

PiperPA-28R-200CherokeeArrow

Flugvélin Piper Arrow kom fram um miðjan sjöunda áratuginn og var þannig um hnúta búið að útilokað átti að vera að hægt væri að lenda henni án þess að setja lendingarhjólin niður og hún tók líka hjólin upp ef flugmennirnir gleymdu því.

Þó fór það svo að slys urðu vegna þess að sérstakur nemi, sem mældi lofthraðann, gat truflast vegna ísingar og óhreininda og auk þess kom í ljós að engin flugvél er fullkomnari en flugmaðurinn sem flýgur henni.

Hið skondna var að íslenskt flugatvik sýndi einna best að rétt væri hætta við að auglýsa þessa vél sem "óskeikula."

Þannig var málum háttað, að færi flughraðinn niður fyrir ákveðinn hraða fóru hjólin sjálfkrafa niður ef flugmaðurinn gleymdi að setja þau niður.

En í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli á svona flugvél, þegar vélin var mjög þung og flugmaðurinn reyndi því í fyrstu að halda uppi góðum hraða en kom of lágt inn, svo að hann gaf henni nær fullt afl til að koma í veg fyrir að hún missti of mikla hæð.

Það var í nógu að snúast fyrir flugmanninn og því gleymdi hann að setja hjólin sjálfur niður.

Við það að nota svona mikið afl jókst lofthraðinn svo mjög í gegnum nemann, sem mældi hann, að hann fór ekki niður fyrir tilskilin mörk fyrr en vélin var að snerta.

Þá byrjaði sjálfvirki búnaðurinn að setja hljólin niður en það var of seint, - hjólin böggluðust aftur upp þegar þungi vélarinnar settist á þau og úr varð magalending.

Þetta atvik var eitt af þeim atvikum þar sem sjálfvirkni getur virkað öfugt við það sem til er ætlast.

Hugsanlega gleymdi flugmaðurinn að setja hjólin niður vegna þess að við síendurtekinn áróður um það að vélin gerði það sjálf slaknaði smám saman á vitundinni um að flugmaðurinn yrði ævinlega að vera handviss um þetta atriði.

Þess má svo að lokum geta að fyrir allmörgum árum sofnaði ferjuflugmaður á leið til Íslands við stýrið og var herþota send frá Keflavíkurflugvelli til að vekja hann með því að fljúga fyrir framan hann og skapa ókyrrð.  


mbl.is Flugmennirnir gleymdu sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættu við sitt LSD.

Við hjónin, Helga og ég höfum farið margar ferðir um gervallan Noreg vegna gerðar myndanna "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"

Geirangursfjörður var toppurinn í þessum ferðum.  

513331

Það er einkum í myndinni "In memoriam" sem afrakstur þessara ferðalaga sést.   

Ég varð fyrir áfalli eftir fyrstu ferðirnar þangað og til Ameríku á þjóðgarða- og virkjanaslóðir þegar ég áttaði mig á því að hér á landi voru umræðan og athafnirnar á svipuðu stigi og í Noregi fyrir aldarfjórðungi og í Ameríku fyrir 40-50 árum.

Það var ekki fyrr en í áttundu ferðinni sem ég komst að því að á sínum tíma voru Norðmenn með tilbúna hliðstæða áætlun og hin svonefnda LSD-áætlun Íslendinga, (skammstöfun fyrir "Lang-Stærsti-Draumurinn)

Eins og á Íslandi byggðust áformin á því að tengja saman öll vatnsföll á norska hálendinu og steypa þeim niður á einum eða tveimur stöðum í fallgöngum úr meira en 1000 metra fallhæð niður að sjó.

Ekkert varð af þessu og síðan hafa Norðmenn skammast sín fyrir þessa hugmynd og er hvergi minnst á hana. Ég rakst þó fyrir tilviljun í smáa letrinu í bók sem ég keypti í þessari ferð minni.

Með þessu björguðu Norðmenn ótal fossum í ám sem falla ofan af hálendinu og létu sér nægja nokkrar virkjanir sem komnar voru en skiluðu aðeins broti af því afli sem stóra LSD-risavirkjunin með öllum sínum stíflum og göngum átti að skila.

Við fundum þrjár slíkar virkjanir á ferðum um Jötunheima og Harðangursheiðarhálendið, í Tyssedal, Sysevirkjun og eina litla í Jötunheimum. 

Fyrir bragðið er álíka mikið óvirkjað af vatnsafli að magni til í Noregi og á Íslandi.

Fyrir 20 árum voru uppi áform um að virkja lítið vatn í nágrenni við Jóstedalsjökul, sem þó sást ekki frá jöklinum og jökullinn ekki frá vatninu. Aðeins stóð til að stækka vatnið en ekki að búa til nýtt vatn. 

Fallhæðin hefði orðið 1200 metra og þetta því "dýrmætustu vatnsdropar á Norðurlöndum" eins og Jakob Björnsson hefði orðað það.

Hætt var við þetta vegna þess skaða sem þetta hefði á ímynd Jóstedalsjökuls, stærsta jökuls á meginlandi Evrópu.  Er hann þó aðeins 5% af stærð Vatnajökuls. 

Um þetta er fjallað í myndinni "In memoriam?". 

Hér á landi fóru menn hins vegar létt með að framkvæma 2/3 af LSD-áætluninni og búa til stórt vatn þar sem ekkert vatn var áður og sker öræfin norðan Vatnajökuls í tvennt.

Er þá sleppt að nefna öll hin gríðarlegu óafturkræfu umhverfisspjöll Kárahnjúkavirkjunar sem eiga sér enga hliðstæðu í Evrópu.  

Hringferð um Jóstedalsjökul er lærdómsrík fyrir Íslending. Þar má sjá hvernig ná má sátt milli allra sem hlut eiga að máli ef þekking á náttúruverðmætunum og þeim möguleikum sem þau gefa, og lagni í mannlegum samskiptum er í fyrrirúmi.  

Ég hef enn ekki hitt neina aðra Íslendinga en okkur hjónin, sem hafa haft fyrir því að fara á þessar slóðir til að læra af reynslu Norðmanna.

Í þessum efnum virðist stundun gilda svipað og hjá Viðskiptaráði þegar það fullyrti í "gróðærinu" að til Norðurlandanna hefðum við ekkert að sækja, - við stæðum svo langt framar þeim.

Norsku firðirnir og hinn eldvirki hluti Íslands eru einu svæðin í Evrópu sem komast á lista yfir 40 merkilegustu náttúrverðmæti heims.

Íslensku firðirnir eru ekki á listanum og heldur ekki norska hálendið. Samt hafa Norðmenn ákveðið að láta hálendi sitt í friði.  

 

 

513331B
mbl.is Norsku firðirnir besti áfangastaðurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband