24.10.2009 | 23:41
"Sjoppunum lokað" - Örkin til byggða.
Í fyrrakvöld kom ég til Reykjavíkur úr framhaldi ferðalags um síðustu helgi vegna vetrarkomu fyrir innan Kárahnjúka.


Þá tók fulltrúi Flugmálastjórnar, Guðjón Atlason, Sauðárflugvöll út í síðustu sumarflugferðinni þangað og mér tókst að losa kerruna, sem hefur verið undir bátnum Örkinni, úr festu við búðir Suðurvers við Kárahnjúka. Varð að fresta framhaldinu og skunda til Reykjavíkur.
Síðasliðinn fimmtudag skaust ég með Flugfélaginu til Egilsstaða og fór þaðan með Þórhalli Þorsteinssyni á jöklabíl hans upp á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum.
Þórhallur er frábær jöklafari, einn sá þrautreyndasti sem völ er á og bíll hans eins og verkstæði á hjólum.

Það kom sér vel þegar ná þurfti framhjólunum undan gamla Econoline-húsbílnum sem þjónar sem flugstöð, flugturn, birgðastöð, flughótel og ráðstefnusalur.
Á næstefstu myndinni má sjá hann bogra við hægra framhjólið.
Vegna fjárskorts verð ég að selja hjólbarðana, sem hafa verið undir bílnum að framan og setja slitna undir hann í staðinn næsta sumar. Bíllinn hefur fyrst og fremst verið bækistöð á flugvellinum síðan 2005 og þetta eru nær ónotuð 35 tommu dekk af gerðinni Durango, sem eru til sölu.

Einnig kemur til greina hjá mér að selja heilan dekkjagang, 4 ókeyrð 35 tommu dekk af gerðinni Wildcat.
Tekin voru númer af Feroza-bíl, sem ég hef notað þegar ég hef lent með mig og aðra á flugvellinum.
Dekkin og fleira sett upp á gamla Toyota-pallbílinn, sem hefur verið þarna í sumar.
Sauðárflugvallarr"sjoppunni" þar með lokað þar til í júní næsta sumar.
Næst lá fyrir að koma kerrunni með Örkinni aftan í Arkar-bílinn og draga hana niður í byggð.

Báturinn hefur verið fyrir innan Kárahnjúka síðan í apríl 2003.
Gera þarf við hann og bátakerruna og selja hvort tveggja.
Þó þyrfti að vera hægt að sigla henni í síðustu siglingarnar á Kelduárlóni og Hálslóni næsta sumar ef fjárhagur leyfir og ljúka þar með myndatökum fyrir heimildarmyndina um Örkina.
Niðri á Egilsstöðum var gamli útslitni Samuraikvikindið kvaddur í bili, en hann er aldeilis ótrúlegur nagli, sá gamli og slitni skrjóður, og dugði vel á árunum 2002-2007 sem vinnutæki og gististaður.

Varð hann blaðamönnum tímaritsins National Geographic að umfjöllunarefni í grein þeirra um Kárahnjúkavirkjun.
Á leiðinni til Reykjavíkur var litið á ástandið við Leirhnjúk.

Niðri í þorpinu aðstoðaði Karl Viðar Pálsson mig við að taka vatn og númer af gamla Rússajeppanum, sem ég hef notað í kvikmyndagerð á virkjanasvæðum við Leirhnjúk og Gjástykki.



Bloggar | Breytt 25.10.2009 kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
24.10.2009 | 19:38
360 þúsund álframleiðsla forsenda álvers.
Á góðum fundi um virkjanamál á Suðvesturlandi, sem haldinn var á Sólon í dag að tilhlutan Græna netsins kom margt áhugavert fram í framsöguræðum þeirra Sigmundar Einarssonar, sem hér sést standandi við háborð, sem hinir fyrirlesararnir, Dofri Hermannsson og Ágúst Hafberg sitja við.

Ágúst Hafberg sýndi með uppdrætti að fyrirhuguðu álveri í Helguvík, hvernig langdýrasti hluti álversins verður hin stóra bygging og allur sá flólkni búnaður þar sem rafmagnið kemur inn í álverið og dreifist síðan um kerskálann.
Síðan upplýsti hann aðspurður að af þessum sökum væri það forsenda fyrir byggingu álversins að það verði í fullri stærð með 360 þúsund tonna framleiðslu á ári, þótt áfangarnir verði fjórir 90 þúsund tonna áfangar.
Hann lýsti líka því þjóðfélagslega umhverfi álversins að óhemju þrýstingur væri á Norðurál úr öllum áttum á að reisa þetta álver, frá ráðamönnum, samtökum atvinnulífsins og verktökum.

Það er kunnuglegt ástand sem stóriðjufíklar skapa með því að skipa sig sjálfa sem talsmenn allra annarra og þar með þá sem eitthvað andæfa sem öfgafólk, hryðjuverkamenn, óvini einstakra landshluta eða jafnvel landsmanna allra.
Þetta ástand endurspeglast í því að álfurstarnir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að þeir fái ekki orku þótt aðeins liggi fyrir hluti þeirrar orku sem til greina kemur og óvissa um að hún fáist öll.
Ágúst sýndi til dæmis yfirlit yfir virkjanir þar sem Norðlingaalda (Þjórsárver), Bitruvirkjun, Neðri-Þjórsá og fleiri slík svæði voru á blaði.
Leikurinn sem hafinn er, er því ójafn. Annar aðilinn fær það gulltryggt að hann fái alla þá orku afhenta sem hann vill, og þarf ekki að hafa áhyggjur af því hvaða náttúruverðmætum verði fórnað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
24.10.2009 | 00:54
Davíð byrjaður að blogga ?
Margir telja sig sjá fingraför Davíðs Oddssonar á ýmsum stöðum í Morgunblaðinu. Hann er ekki fyrsti ritstjórinn sem hefur svo sterkan stíl að hann sker sig úr.
Það var oft unun að lesa skrif Magnúsar Kjartanssonar, ritstjóra Þjóðviljans, á sínum tíma þótt maður væri oftar en ekki ósammála skoðunum hans og ekki var Jónas Jónsson frá Hriflu neinn aukvisi á ritvellinum þótt ekki væri maður heldur alltaf sammála honum og hann væri ekki alltaf vandur að meðulum.
Davíð minnir að þessu leyti á þessa tvo aðsópsmiklu ritstjóra.
Á bloggsíðunni "Morgunblaðið" eru síðustu tveir pistlarnir annars vegar um Kára Stefánsson og hins vegar um þá sem voguðu sér að syngja "Fram þjáðir menn í þúsund löndum" með krepptan hnefa.
Þessir pistlar sverja sig mjög í Davíðsætt, enda Kári Stefánsson vinur hans allt frá skólaárum.
Og ég get svo sem tekið heilshugar undir hvert orð í pistlinum um Kára.
Þarf ekki annað en að nefna að var á sínum tíma valinn af tímaritinu Time í hóp hundrað áhrifamestu og merkustu læknavísindamanna heims og er það fágæt viðurkenning.
Helstu einkenni Davíðs skína líka í gegn um háðskum pistlinum um þá Össur Skarphéðinsson og Árna Pál Árnason sem syngja Internationalinn.
Fullyrt er að þeir rétti handleggi beint á loft upp og til hægri án þess að séð verði af myndunum annað en að handleggirnir séu bognir og vísi beint fram.
Það er því fulllangt gengið að líkja þessu við það þegar nasistar og fasistar réttu handleggi beint upp og til hægri með útréttum lófa. En kannski átti Davíð við þá Stalín og Maó.
Þeir fyrirlitu hins vegar krata sem svikara og auvirðileg handbendi heimskapítalismans og það er því býsna bíræfið að bendla Össur og Árna Pál við þá.
Og hvernig væri nú að dæma lagið og ljóðið í Nallanum út af fyrir sig en ekki út frá því hverjir hafi sungið það? Eða eru menn yfir það hafnir að kynna sér það sem þeir fimbulfamba um ?
Í Fyrri heimsstyrjöldinni sungu hermenn oft "Áfram kristmenn krossmenn" um "æskuherinn sem fram í stríðið" stefnir áður en þeir fóru til að drepa menn og verða sjálfir drepnir.
Ég söng þetta í KFUM og Kaldárseli og áskil mér rétt til að syngja það hvenær sem er án þess að ég sé bendlaður við manndráp og blóðsúthellingar og tilgangsleysi Fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Nasistar létu syngja "Deutschland, Deutschland uber alles" við öll möguleg tækifæri og eigum við þess vegna að fordæma það að þetta sé enn í dag þjóðsöngur Þýskalands ?
Ritfærni Davíðs nýtur sín vel á nýum vettvangi og þótt hann skorti faglega reynslu koma aðrir kostir til greina við ritstjórnarstörf.
Borgarstjórinn í Reykjavík þarf að hafa mikla yfirsýn og þekkingu á smáu og stóru í borgarkerfinu og borgarlífinu og það að hafa gegnt slíku starfi, eins og Davíð gerði með glæsibrag í níu ár, getur komið sér vel í ritstjórastarfi að ekki sé talað um að vera vel ritfær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)