Einstakur brautryðjandi burt kallaður.

Ég átti síðast tal við Flosa Ólafsson fyrir nokkrum dögum og það var eins og alltaf gefandi og gaman að tala við hann og skiptast á kviðlingum. Það ískraði í honum húmorinn um elli Kerlingu og tilveruna, - hann var fjallhress.

Ég bloggaði um þetta, grunlaus um það sem í vændum væri.

Sviplegt fráfall hans kemur því sem reiðarslag.

Flosa má telja föður allra þeirra gamanþátta í sjónvarpi hér á landi sem eru gerðir undir forskrift Áramótaskaups og síðar Spaugstofunnar.

Fyrstu tvö ár Sjónvarpsins voru Áramótaskaupin hugsuð sem nokkurs konar skemmtidagskrá með blönduðu og alveg ótengdu efni, bæði léttu, alvarlegu, leiknu, töluðu og sungnu.

Þar heyrðust óskyld dægurlög og óperuaríur í bland.

Þetta var sett fram í svipuðu formi og um skemmtidagskrá á öðrum hátíðisdögum.

Til skaupsins 1967 lagði Flosi stuttan fyrirfram upptekinn grínþátt, gamanóperuna "Örlagahárið."

Þetta frábært brautryðjendaverk í Sjónvarpi og sleginn nýr tónn í sjónvarpi.

Fyrir bragðið var Flosa falið að gera heilt áramótaskaup næsta ár eftir þessari formúlu og henni hefur verið fylgt síðan utan einu sinni.

Flosi er því faðir Áramótaskaupanna og Spaugstofuþáttanna og einstakur brautryðjandi að því leyti.

Sum atriði Áramótaskaupa hans eru hreinar perlur eins og Kröflu"gaggið" sem hann kallaði svo 1976 og óhemju djarft atriði um Geirfinns- og Guðmundarmálin í sama skaupi.

Ég minnist einnig mjög beitts atriðis þar sem Flosi tætti i sundur þá stefnu þingmanna og ráðamanna að koma togara, loðdýrarækt og fiskeldi inn á nánast hvert heimili. Í fullu gildi enn í dag.

Þess utan var Flosi einn allra fremsti hagyrðingur landsins og fór á kostum í spurningaþáttunum "Hvað heldurðu?"

Leiftrandi húmor og ritsnilld auk hæfileika til að skapa eftirminnilegar og sérkennilegar persónur jafnt á sviði sem í kvikmyndum voru landsþekkt.
'
Hann varð fyrst þjóðþekktur fyrir að skapa mjög eftirminnilega persónu í útvarpsleiktriti eftir Agnar Þórðarson, en það var unglingurinn Danni, hinn kærulausi, svali, linmælti og hraðmælti töffari.

Mér finnst viðeigandi að kveðja hann með tveimur kviðlingum.

Ljúfur Drottinn lífið gefur, - /
líka misjöfn kjör /
og í sinni hendi hefur /
happ á tæpri skör. /

Feigðin grimm um fjörið krefur, - /
fátt er oft um svör. /
Enginn veit hver annan grefur. /
Örlög ráða för.


Ég kveð góðan og náinn vin minn í nær hálfa öld með miklum söknuði og bið hans nánustu blessunar.


Allt er fertugum fært.

Landvernd hélt upp á 40 ára afmæli sitt í Iðnó í dag með afmælisþingi þar sem margt fróðlegt kom fram.

Upphaflega var félagið hugsað sem nokkurs konar regnhlífarsamtök fjölmargra félaga og á þeim tíma var bágt ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi höfuðverkefnið, þótt 1969 og 70 geysuðu hatrammar deilur um ótrúlega stórkarlalegar framkvæmdir í virkjanamálum á Norðausturlandi og í Þjórsárverum. 

Á þeim slaknaði í bili og fimm árum síðar náðist mikilsverður árangur með þjóðargjöfinni svonefndu á 50 ára afmæli lýðveldisins 1974, enda veitti ekki af því að á þessum áratugum var gríðarlegt álag á mörgum afréttum landsins og uppblástur mikill.

Á síðustu árum hafa deilur um stórbrotnar framkvæmdir, einkum á hálendinu, orðið stærri hluti af starfi og baráttu Landverndar. Var notað um það orðið nauðvörn á fundinum í dag og mynd úr Gjástykki sem tróndi yfir sviðinu í Iðnó undirstrikaði það. 

DSC00203

Þessi mikla barátta og fjölbreytt kynningarstarf í kringum hana hefur orðið til þess að yfirskyggja gróðurverndarbaráttuna og er ljóst að mikil verkefni bíða á því sviði þótt dregið hafi úr beitarálagi með fækkandi sauðfé. 

Enn eru beittir afréttir á stórum hluta hálendisins sem ekki eru beitarhæfir.

Bjartsýni ríkti þó á afmælisþinginu í dag. Þekking og menntun í þessum málum hefur fleygt mjög fram og því óhætt að segja að allt eigi að vera fertugum fært, þrátt fyrir fjárskort og erfið viðfangsefni.  


Bloggfærslur 25. október 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband