7.10.2009 | 22:48
Mikið lagt á Steingrím.
Steingrímur J. Sigfússon er afar öflugur stjórnmálamaður, einn hinn öflugasti sem þjóðin á um þessar mundir.
Hann þarf að bera meiri byrðar í núverandi stjórnarsamstarfi en aðrir, bæði sem ráðherra eins erfiðasta málaflokksins og ekki síður sem formaður Vinstri grænna.
Hann hefur verið afar duglegur í sínum vandasömu verkum sem virðast þó verða æ vandasamari með hverjum deginum.
Í kvöld og næstu daga mun mæða mikið á honum við að sigla um ólgusjó, þar sem svo virðist sem mál öll, stjórnarsamstarfið og úrlausn viðfangsefna þjóðarinnar skerist í einum átakapunkti á herðum Steingríms.
Kannski hefur aldrei reynt eins mikið á hann og nú þegar ágreiningur meðal flokksmanna hans er orðinn að erfiðasta viðfangsefni hans ofan á allt annað.
![]() |
Búist við löngum fundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.10.2009 | 19:47
Beið keppnin ósigur ?
Það eru alltaf sömu málleysurnar sem lifa góðu lífi í fjölmiðlum ár eftir ár. Það vekur furðu því þær eru ekki svo margar.
Ein þeirra skýtur enn einu sinni upp kollinum í frétt mbl.is af söfnuninni fyrir Grensásdeild og raunar hefur hún líka skotið upp kollinum hjá þulum í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og víðar.
Sagt er í frétt mbl.is að tveir menn hafi sigrað keppnina, - "þeir sigruðu keppnina."
Af því hlýtur að leiða að keppnin hafi beðið ósigur fyrir þessum mönnum.
Málvillur eru hvimleiðar en leiðinlegastar eru þær sem fela í sér rökvillur líka.
Ef maður sigrar einhvern, þá bíður mótaðilinn ósigur fyrir manni.
Þetta getur ekki verið einfaldara: Mennirnir sigruðu í keppninni, þeir urðu hlutskarpastir í keppninni. Keppnin sjálf beið ekki ósigur fyrir þeim.
![]() |
864.000 söfnuðust fyrir Grensásdeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.10.2009 | 10:27
Ó, það voru indæl stríð.
Fyrir 43 árum var sýndur í Þjóðleikhúsinu söngleikurinn "Ó, þetta er indælt stríð." Í því var fjallað á beinskeyttan hátt um hinn nöturlega veruleika styrjalda, - meðal annars það hvernig sumir gátu hagnast á stríði.
Í 66 ár högnuðust Íslendingar gríðarlega efnahagslega á stríði þótt við færðum miklar mannfórnir á sjónum í heimsstyrjöldinni síðari.
Sú styrjöld veitti hins vegar þvílíku fjármagni inn í þjóðarbúskapinn hér, að 10. maí 1940 markaði meiri þáttaskil í sögu þjóðarinnar og hag hennar á síðustu öld en nokkur annar dagur.
Flugvallalaust land fékk skyndilega tvo stóra flugvelli að gjöf og annað var eftir því. Þrátt fyrir að við værum eina þjóðin sem hafði grætt peningalega á stríðinu fengum við meiri Marshallhjálp miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð.
Bandamenn samþykktu stofnun lýðveldis.
Í hönd fór Kalda stríðið þar sem það voru ríkir hagsmunir fyrir stórveldin og nágrannaþjóðir okkar að hér væri aðstaða fyrir herlið.
Við nýttum okkur þessa aðstöðu vel, gátum farið í fjögur þorskastríð við Breta og spilað á veru okkar í NATÓ til að halda þeim á mottunni svo að þeir gátu aldrei nýtt sér aflsmuninn sem fólst í fallbyssum herskpa þeirra.
Í fyrsta þorskastríðinu 1952 var að vísu ekki beitt hefðbundnum vopnum heldur efnahaglegum. Þá sáu Rússar sér hag í því að koma okkur til hjálpar, eyðilögðu með því efnahagslegan vopnabúnað Breta, sem þeir beittu gegn okkur, og höfðu áreiðanlega lúmskt gaman af.
Við fengum sérkjör varðandi flug til Bandaríkjanna og ýmsa aðra fyrirgreiðslu.
Þegar Kalda stríðinu lauk hvarf þessi aðstaða okkar en íslenskir ráðamenn áttuðu sig ekki á því.
Nú er liðinn sá tími sem það skipti gríðarlegu máli fyrir nágrannaþjóðir okkar að hafa okkur góða.
Lán, sem við þurfum til að komast yfir erfiðasta hjalla hrunsins verða ekki gefins, hvorki hjá AGS né öðrum.
Enn eru þeir til sem sakna Kalda stríðsins og þeirrar aðstöðu sem það veitti okkur á ýmsum sviðum.
En sá tími er liðinn og ég held að það hafi ekki verið hollt fyrir okkur hvernig við höguðum okkur og högum okkur reyndar enn þegar við ætlum að ganga á rétt milljóna Íslendinga, sem eiga eftir að byggja þetta land með því að eyðileggja á skammsýnan hátt mestu verðmæti landsins í lengd og bráð.
Nú verðum við að horfast í augu við þann nöturlega veruleika að við höfum ekki lengur sérstöðuna sem Heimsstyrjöldin og Kalda stríðið gáfu okkur.
Innst inni hugsa kannski margir: Ó, það voru indæl stríð. En framundan er barátta þar sem við verðum að meta stöðu okkar kalt og spila úr því eftir bestu getu.
Umheimurinn var í efnahagslegu fíkniefnapartíi þar sem okkur þótti gaman að geta svallað með þeim stóru og svelgdist á í græðgisfíkninni.
Drykkurinn var eitraður og við vorum flutt á gjörgæsludeild AGS og alþjóðasamfélagsins þar sem ekkert fæst ókeypis, heldur verður að dæla upp ólyfjaninni. Við fórum verst út úr svallinu líkt og þegar þeir minnstu troðast á flóttanum þegar kviknar í húsinu.
Það er svosem ekki alvont, því að það er byrjun á þeirri efnahagslegu fíkniefnameðferð, sem við verðum að fara í með utanaðkomandi aðstoð, þótt okkur þyki það slæmt. Það hlaut að koma að því að við vöknuðum upp við vondan draum.
Við verðum að vega og meta vel hvernig nauðsynleg aðstoð verði veitt okkur svo að okkur farnist sem best.
Við erum hluti af alþjóðasamfélaginu og getum ekki gert þetta ein, annars hefðum við hafnað lánum frá Færeyingum og Pólverjum, sem hafa sýnt okkur hverjir bestu vinir okkar eru í raun.
![]() |
Höfum ekkert við AGS að gera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)