13.11.2009 | 19:27
Þangað til allt í einu...
Ein helstu rök sem notuð eru fyrir því að virkja allan virkjanlegan jarðvarma landsins eru þau að reynslan af þeim virkjunum sem komnar eru að þær dragi að sér ferðafólk og opni aðgengi að svæðum sem áður hefðu verið óaðgengilegri.
Þannig sagði forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur að megð virkjun jarðhitans í Kerlingarfjöllum yrði opnað svæði sem hefur verið óaðgengilegt til þess, þangað lægi þá malbikaður heilsársvegur og þar yrði nægt rafmagn og þægindi fyrir ferðafólk.
Forstjórinn setti þess röksem fram sem algilda og hún myndi þá væntanlega gilda líka að Fjallabaki, í Öskju, Gjástykki, við Leirhnjúk og í Kverkfjöllum.
Þessi þróun kann að ganga upp í einhver ákveðinn tíma á ákveðnum virkjanasvæðum en með þessu er þó gengið gegn því sem er aðalástæða þeirra sem koma til Íslands, en það er að hér sé að finna það sem er svo sjaldgæft, ósnortin, einstæð og stórbrotin náttúra.
Ef röksemd forstjóra Orkuveitunnar væri algild væri fyrir löngu búið að virkja allan hinn gífurlega jarðvarma og vatnsorku sem finnst í Yellowstone og gera þar blá lón, gul lón, græn og rauð.
Ein milljón manna kemur langa leið yfir þveran hnöttinn til þess að skoða ósnortinn jarðvarmann og vatnsföllin í Yellowstone og mun halda áfram að koma þangað á þeim forsendum að þetta sé ósnortin náttúra, vegna þess að við Íslendingar erum tilbúnir til að fórna enn merkilegri náttúruverðmætum til að skaffa Bandarkjamönnum orku.
Enn á eftir að bæta miklu við virkjanirnar á Hellisheiði og Bitruvirkjun verður aðeins örfáa kílómetra frá Hveragerði enda eru bæjarbúar þar andvígir Bitruvirkjun en valta á yfir þá í þessum efnum í skjóli þess, að svæðið fellur undir Ölfushrepp þar sem megnið af íbúunum býr í 15 kílómetra fjarlægð frá virkjunarsvæðinu.
Rétt er að geta þess að loftgæði í Reykjavík standast nú þegar í 40 daga á hverju ári ekki lágmörk Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum.
![]() |
Brennisteinsvetni innan marka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
13.11.2009 | 19:02
Smá"moli": Núll ára gamalt barn.
Ég á stundum erfitt með að stilla mig eins og vinur minn Eiður Guðnason, þegar málleysur og rökleysur dynja eins skæðadrífa yfir landslýð. Eiður er með sína málfarsmola og ég skýt einum hér inn: Í fréttum Stöðvar tvö á þessu föstudagskvöldi var þetta sagt: "Fleiri veikjast nú en áður af svínaflensu á aldrinum núll til níu ára."
Þetta er dæmigert þurrt kansellí- eða stærðfræðimál. Um aldir hefur það nægt þjóðinni að segja einfaldlega: "Börn yngri en níu ára."
Börn eru eins árs, tveggja ára, þriggja ára o. s. frv. en varla núll ára.
Næsta skref er að breyta textanum þegar kvikmyndir "eru kynntar og segja ekki: Bönnuð innan sextán ára, heldur "bönnuð börnum á aldrinum núll til sextán ára."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2009 | 12:26
Sómaslagsmál, léttar nauðganir ?
Stundum er komist óheppilega að orði og skringilega þegar rætt er um það, sem er fyrir sumum þáttur í hversdagslegum viðfangsefnum.
Þannig var komist þannig að orði í frétt af ölvun, ólátum og átökum í Reykjavík í nótt að það hefði verið "sæmilegur erill" hjá lögreglunni.
Orðið "sæmilegur" er eitthvað sem ekki er skömm að heldur sómi. "Sæmilegur afli" er afli fiskiskips sem er nógu mikill til þess að hann sé ekki til skammar.
Næsta stig notkunar orðsins "sæmilegur" varðandi það sem miður fer að næturlagi gæti verið að viðkomandi laugardagskvöld hafi verið "sæmileg" slagsmál eða jafnvel sómaslagsmál.
Ég minnist þess eitt sinn þegar tekið var svonefnt "lögreglutékk" að morgni á fréttavakt í Sjónvarpinu sagði varðstjórinn að þetta hefði verið róleg nótt, bara svona "slagsmál, smá pústrar og léttar nauðganir."
Þetta var að sjálfsögðu ekki haft eftir, vegna þess að varðstjóranum var vorkunn þótt hann skrikaði aðeins á tungunni, því að helgina áður höfðu menn stórslasast í slagsmálum og alvarlegar nauðganir átt sér stað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)