Tímamótafundur.

Þótt Þjóðfundurinn sé aðeins hálfnaður sýnist mér ljóst eftir að hafa starfað þar sem fulltrúi á einu af borðunum í salnum, að þetta sé tímamótasamkoma, hvað sem út úr henni kemur, því að hugsunin á bak við fundinn hefur gengið svo vel upp fyrir hádegi, að það eitt réttlætir þennan fund. 

Er skemmst frá því að segja að vinnan á þessu borði sem ég hef setið við, hjá fólki, sem kemur úr öllum áttum, hefur verið alveg einstaklega árangursrík, skemmtileg og gefandi. 

Kerfið, sem unnið er eftir, tryggir að byrjað sé með algerlega autt blað og að allar hugmyndirnar komi ótruflaðar og beint frá þátttakendum að þeirra eigin frumkvæði.

Þær eru síðan teknar til flokkunar og meðferðar og að lokum afgreiddar með atkvæðagreiðslu og samantekt, en samt liggja öll frumgögnin fyrir áfram til úrvinnslu.

Fyrir hádegi kláraðist 20 orða yfirlýsing um framtíðarsýn sem náðist í algerri einingu og sátt og er ekki moðsuða, heldur með hreina og klára merkingu án þess að nokkrar ræður væru haldnar, enda var jafnræði þátttakenda tryggt.

Tímamótafundur, hvernig sem fer !  


mbl.is Þjóðfundur hafinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve mörg megavött framleiðir Björk?

Björk framleiðir ekkert megavatt fyrir Ísland. Ekki heldur Gullfoss eða Dettifoss.

Bítlarnir framleiddu heldur ekkert megavatt fyrir Breta og þaðan af síður Presley fyrir Bandaríkjamenn.

Ekki komu mörg tonn út úr Halldóri Laxness og ekki skapa handritin krónu í útflutningi.

Gullfoss skapar heldur ekki neinn gjaldeyri. Ferðamenn mega horfa á hann án þess að borga neitt fyrir það.

Samkvæmt landlægum skilningi Íslendinga er allt ofangreint einskis virði vegna þess að það er ekki hægt að vigta eða mæla beint ávinninginn af tilvist þeirra.

Samt kom Eva Joly til Íslands meðal annars af því að Björk var Íslendingur. Tilvist ofangreindra fyrirbrigða hefur nefnilega mikla þýðingu fyrir komu ferðamanna hingað og fyrir ímynd og viðskiptavild lands og þjóðar. 

Á 18. öld þurfti Árni Magnússon á stundum að rífa skinnpjötlur af klæðalitlu fólki, af því að þær voru hluti af handritum sem voru ekki til neins nýt að mati hins aðþrengda fólks nema til að nota þær í hlífðarfatnað.

Sagt var jafnvel að glorsoltið fólk legði sér handritin til munns. Á erfiðustu öldum íslensku þjóðarinnar barðist hún fyrir lífi sínu og þá var sagt að "bókvitið yrði ekki í askana látið."

Ef gaf til fiskjar var farið á sjó umsvifalaust og ef það þornaði, varð að heyja strax og það hratt.

Þjóðin komst af við illan leik með því að temja sér þennan hugsunarhátt. Hún neyddist til að höggva hrís og beita land, sem ekki þoldi beit, af því að hún gat ekki horft fram á við.

"Neyttu á meðan á nefinu stendur" var það sem gilti.

Þrátt fyrir kreppu er ekki með nokkru móti hægt að jafna ástandinu núna við þá tíma þegar þjóðin hrundi niður úr hungri og drepsóttum og tamdi sér hugsunarhátt sem ameríkanar lýsa með setningunni "take the money and run!" 

Það er sá hugsunarháttur, sem margir vilja nú að öllu ráði á Íslandi.

Hann getur orðið skaðlegur þegar fram í sækir og gengið er á hlut milljóna Íslendinga sem eiga eftir að lífa í þessu landi.

Á Þjóðfundi sem ég er að fara á núna, verður vonandi rætt um endurmat á þeim gildum, sem þessi þjjóð þarf að hafa í bráð og lengd. 


mbl.is Vonaðist til að hitta Björk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband