Margt gott hjá Styrmi.

Á langri ritstjóratíð sinni var Styrmi Gunnarssyni ekki um það gefið að koma í viðtöl í fjölmiðlum.

Nú er hann frjáls og getur auðvitað ekki slegið hendi á móti því að nýútkomin bók hans um hrunið fái umfjöllun.

Margt gott kom fram hjá Styrmi í kvöld, svo sem um það að færa völdin í stærstu málum í okkar mikla kunningja- og venslaþjóðfélagi beint til þjóðarinnar sjálfrar.

Það er eins og talað út úr mínu hjarta og minnir mig á þá tilviljun að lengi hefur verið auglýsing fyrir sunnudagsmoggann á áberandi stað í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli með fyrirsögninni "allt sem þjóðinni viðkemur" en það var tilvitnun í viðtal við mig í Morgunblaðinu í aðdraganda kosninganna 2007. 

Þá féllu svona ummæli og umbótastefna Íslandshreyfingarinnar í stjórnskipunarmálum í grýttan jarðveg og enn verður vart við mikla fyrirstöðu og íhaldssemi gagnvart sjálfsögðum breytingum í lýðræðisátt.

Það var rétt hjá Styrmi að Bretar fengu aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkjamenn með sér í því að vera ákaflega ósveigjanlegir og um sumt fullir af offorsi í garð Íslendinga þegar ljóst var að regluverk Evrópusambandsins í bankamálum var gallað.

Aðstæðum og ástæðum Breta var vel lýst í sjónvarpsþætti BBC sem var sýndur í gærkvöldi þar sem því var lýst að sömu dagana og íslenska kerfið hrundi var breska bankakerfið komið fram á brún hengiflugs og ráðamenn Breta lögðu dag við nótt í örvæntingarfullri baráttu fyrir því að forðast hrunið sem var svo nálægt, að þeir bankar sem tæpast stóðu, vissu ekki að kveldi hvort þeir yrðu gjaldþrota daginn eftir.

Þessa daga voru Bretar komnir út í horn og í þeirri stöðu verða menn stundum ekki einhamir.  

Í þessu andrúmslofti þreifst enginn sveigjanleiki eða sanngirni gagnvart Íslendingum, sem voru greinilega taldir stórhættulegir ef þeir mismunuðu innistæðueigendum eftir þjóðerni,  og ég er sammála Styrmi Gunnarssyni að æðstu ráðamenn beggja þjóða hefðu þurft að hittast strax snemma árs 2008 og æ síðan.

Þegar þorskastríðin stóðu yfir hittust æðstu ráðamenn þjóðarinnar og hrunstríðið mikla er á sama plani og þau.

Gildir einu hvort þessir fundir hefðu skilað lausn frekar en sumir fundir æðstu ráðamanna í þorskastríðunum. Svona fundir gátu aldrei orðið til annars en að skýra málin og koma sjónarmiðum á framfæri á æðsta valdastigi.

Með þessu er ég ekki að segja að Íslendingar hafi ekki sjálfir átt sinn þátt í því hvernig fór. Það er óskiljanlegt hvernig bankakerfið fékk að blása út án þess að þjóðin vissi um það fyrr en um seinan upp í  himinhæðir með svo skelfilegri áhættu, að dæmalaust er hjá nokkurri annarri þjóð.  


Ljósgeisli í myrkrinu.

Hvað ætli það séu liðin mörg ár síðan góð frétt hefur borist af mælingum á þorskstofninum? Ég veita það ekki og enda þótt það sé aðeins um einn árgang þorsks að ræða sem nú mælist sterkur er það ljósgeisli í hinu langvinna myrkri sem hefur ríkt í þessum efnum í áratugi.

Þessi árgangur kemur að vísu ekki inn að marki fyrr en síðar og vonandi að hann haldi sínu svo að við getum notið þessa jafnframt því sem farið verði fram af fremstu skynsemi og yfirvegun í meðferð þessarar auðlindar.


mbl.is Gríðarsterkur þorskárgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deyfandi tölur.

Hinar svimandi háu tölur sem eru alls staðar á sveimi í kringum hrunið gerir fólk dofið og ónæmt fyrir tölum.

Sem dæmi má nefna að þegar ég hef verið að gagnrýna ámælisvert áhættuspil með milljarð króna sem tapaðist í djúpborun við Leirhnjúk yppta menn bara öxlum. 

Milljónir, sem áður þóttu háar tölur, verða að engu í samanburði við milljarða, sem eru þúsund sinnum stærri tala.

Krónan var stækkuð hundraðfalt í ársbyrjun 1981 og þá sagði þáverandi forsætisráðherra, Gunnar Thoroddsen, í ávarpi sínu á gamlárskvöld: "Vilji er allt sem þarf" um það að kveða verðbólguna niður.

Ríkisstjórn hans fór þó hraklegar út úr þeirri glímu en nokkur önnur ríkisstjórn og nú hefur krónan minnkað meira en hundraðfalt síðan 1981.

Ég var þeirrar skoðunar 1981 að þá hefði átt að skera þrjú núll aftan af krónunni og stækka hana þúsundfalt.

Það hefði auðveldað alla umræðu að tala um milljónir þar sem áður var talað um milljarða og tala um krónur þar sem áður var talað um þúsundir króna.

Ef það hefði verið gert væri auðveldara að glöggva sig á ofurtölunum, sem nú eru á sveimi þegar í ljós kemur að í "ástarbréfahring" banka og fyrirtækja í "gróðæris"-ruglinu voru menna að búa til hundruð milljarða króna úr engu.

Ég legg til að við skerum þrjú núll af krónunni núna til að við fáum kannski eitthvað skárra og ódofið jarðsamband. 


mbl.is Veruleg skuldaaukning Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband