Horft fram til næstu 6 mánaða.

Íslenskir stjórnmálamenn eru komnir í gamalkunnan ham. Eftir sex mánuði verða kosningar, byggðakosningar, og allt verður að miðast við það. 

Stóriðjustefnan fær vítamínsprautu. Eða eigum við að segja amfetamínsprautu?  

Lofað er "600 störfum meðan á framkvæmdum stendur:" En hvað svo? Verða þá ekki hinir sömu 600 atvinnulausir? Sumir hinna ófaglærðu munu þá sjá eftir því að hafa frestað því að fara í nám. 

"Hindrunum verður rutt úr vegi Suðvesturlínu". Hvaða hindranir eru það? Eru það sveitarstjórnir tólf sveitarfélaga sem þurfa að samþykkja línuna sem geta orðið "hindranir í veginum"?

Eru það neysluvatnssvæði höfuðborgarinnar. Eða er hindrunin umhverfisráðherrann? 

Orðið "hindrun" er þeim hugstætt sem fylgja fastast fram þeirri óðagots- og örvæningarstefnu sem bitna mun á næstu kynsllóðum. Þessari æðibunustefnu er vel lýst með gamla máltækinu "það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn." Má kannski kalla hana skómigustefnuna. 

Erum við, sem andæfum Bitruvirkjun, "hindrun" í vegi álversins mikla? 

Eða er "hindrunin" sú stefna Samfylkingarinnar sem samþykkt var á landsfundi hennar skömmu fyrir síðustu kosningar, sem kvað á um það að hætta skuli "ágengri vinnslu" á jarðvarmasvæðum.

Slíka ágenga vinnslu er samt ætlunin að viðhafa við orkuöflun handa álverinu í Straumsvík.  

Ekki er vitað hvaða orku hvert vinnslusvæði muni gefa til langframa. Vísindamenn giska á að þau endist í 50 ár en treysta sér ekki til að sjá lengra fram í tímann og þetta kemur ekki í ljós fyrr en árin líða. 

Í stefnu Samfylkingarinnar er ákvæði um "jafnrétti kynslóðanna" og "sjálfbæra þróun."  Er sú stefna nú orðin "hindrun"? 

Því að jafnrétti kynslóðanna og sjálfbær þróun verða fótum troðin ef menn standa uppi eftir 50 ár með þverrandi orku.  

Og jafnvel þótt orkusvæðin endist í 50 ár er ekki séð að næg orka muni fást fyrir 360 þúsund tonna álver sem þarf 625 megavött, um það bil jafnmikið og allar virkjanirnar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.

Heiðarleiki var helsta dyggðin sem nýliðinn þjóðfundur setti á blað. Auk hans voru hófstilling, viska og hugrekki þrjár af höfuðdyggðunum fjórum hjá Forngrikkjum. 

Allar þessar dyggðir eru fótumtroðnar í núverandi virkjanastefnu.

Það er ekki heiðarlegt gagnvart komandi kynslóðum að ganga fram af svona eigingirni og skammsýni.

Það er engin hófstilling fólgin í óðagoti og æðibunugangi stefnu sem krefjast mun þess að farið verði hamförum um náttúrugersemar Íslands fyrir risaálver sem bægja öðrum og skaplegri orkukaupendum frá. 

Virkjanasinnar segjast vera hófstilltir þegar þeir vilja virkja á fimm vinnslusvæðum á Nesjavalla-Heillisheiðarsvæðinu en segja að við, sem viljum þyrma einu af þessum fimm svæðum séum "öfgamenn."  

Það felst ekki viska í því þekkingarleysi og þöggun um verðmæti íslenskrar náttúru og eðli virkjananna sem hér hefur viðgengist.

Sex mánuðum fyrir kosningar hverfur það litla hugrekki sem stjórnmálamenn hafa og þeir hamast við að bjarga sér hver sem betur getur og forðast að taka ærlega til hjá sér og þjóðinni sem hefur kosið þá.  

 


mbl.is Hindrunum rutt úr vegi Suðvesturlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf virkjanir á fleiri stöðum samtímis.

Þegar ég var strákur las ég bók sem hét Undur veraldar og var kaflaskipt. Stór kafli var um hæstu tinda heims og glímu manna við þá, einkum Everest, en einn kaflinn fjallaði um virkjanir sjávarfalla.  

Í honum var því spáð að þetta yrði aðalorkulind mannkyns í framtíðinni í svo stórum stíl, að það myndi hægja á snúningi jarðar og afleiðingarnar yrðu þær að vegna minna miðflóttafls héldist tunglið ekki lengur í sömu fjarlægð frá jörðinni, heldur nálgaðist hana sífellt uns það hrapaði til jarðar og eyddi öllu lífi á jörðinni.

Ein af mörgum dómsdagsspám sem gerðar hafa verið.

Gallinn við sjávarfallavirkjanir er sá að mitt á milli flóðs og fjöru, á "liggjandanum", er enginn straumur og því engin rafmagnsframleiðsla.

Í áltrúarþjóðfélagi okkar þýðir þetta að þessi orka sé ekki nýtanleg, - allt verður að miðast við samfellda orkuframleiðslu álvera eða hliðstæðrar starfsemi sem þarf stöðuga raforku allan sólarhringinn. 

Koma þyrfti á fót kerfi sjávarfallavirkjana umhverfis landið þannig að alltaf væru einhverjar virkjanir í gangi og þær ynnu hvor aðra upp.

Hugsa mætti þetta enn stærra sem net sjávarfallavirkjana um alla Evrópu sem ynnu hver aðra upp og væru tengdar saman með rafstreng yfir hafið.  

Raunar veit ég um kunnáttumann sem vinnur að hugmynd um jarðgangatengingu milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar þar sem sífelldur staumur á milli myndi tryggja jafna rafmagnframleiðslu.  


mbl.is Virkjun sjávarfalla í Breiðafirði er talin vel möguleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á að draga mörkin?

Dómarinn er hluti af leikvanginum. Þessi röksemd er notuð fyrir því að ekki sé hægt að elta ólar við mistök í dómgæslu, samanber markið góða sem Maradona skoraði hér um árið með "hönd Guðs"

Það eru hins vegar takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í þessu tilliti því að dómaramistök geta auðvitað orðið svo alvarleg og dýrkeypt að ekki verði við það unað. 

Nútíma myndatökutækni gerir það mögulegt á mikilvægum leikjum að hafa sérstaka menn í því utan vallar að skoða vafaatriði nánast um leið og þau gerast og láta dómarann strax vita af því, til dæmis með milligöngu línuvarða. 

Það hefði verið hægt að gera þegar atvikið gerðist í leik Íra og Frakka og afgreiða það áður en ákveðið var að byrja leikinn aftur á miðju.

Tilvist línuvarða í knattspyrnuleikjum er viðurkenning á því að ekki verður við það unað að dómarinn geti einn og hjálparlaust séð alla hluti og dæmt rétt.

Dómarinn getur sniðgengið álit línuvarða ef hann vill en hann notfærir sér þá þó langoftast.

Á sama hátt ætti að vera hægt að koma því svo fyrir að dómarinn geti fengið vitneskju um atriði, sem sjást á myndavélum. Þeim skilaboðum á að vera hægt að koma til línuvarða sem geta síðan borið þau til dómarans.

Eftir sem áður hefði dómarinn að sjálfsögðu úrslitavald um það hvort hann breytir dómi sínum eða fer eftir áliti aðstoðarmanna sinna.  


mbl.is Frakkar taka ekki í mál að spila aftur við Íra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband