Sjómenn bjuggu við verri kjör.

Sjómannasamningar gera það að verkum að gengisbreytingar hitta þá sérstaklega fyrir.

Á þeim árum þegar krónan var allt of hátt skrifuð í "gróðæris"vitleysunni versnuðu því kjör sjómanna á sama tíma og kjör annarra bötnuðu.

Það er því skiljanlegt að sjómönnum finnist það hart að þegar þeir fái nú loks uppbót á kjaraskerðinguna sem þeir urðu að hlíta gagnstætt flestum öðrum, skuli vera tekinn af þeim sjómannaafslátturinn.

En þá er á þrennt að líta.

1. Gengi krónunnar hefur lækkað miklu meira en það hækkaði á gróðæristímanum og meðan krónan er svona lágt skráð, sem gæti orðið næstu 2-3 árin að minnsta kosti, gerir það meira en að bæta sjómönnum upp skerðinguna frá fyrri árum.

2. Kjör annarra stétta, þar sem fólk þarf að vera erlendis, til dæmis í fluginu, eru samningsatriði þeirra og vinnuveitenda þeirra og enginn afsláttur veittur af ríkisins hálfu þess vegna. 

Af hverju er ekki flugfreyjuafsláttur? Flugmannaafsláttur?

Tæknilegar aðstæður eru líka breyttar. Sjómenn sáu fyrr á tíð ekki sjónvarp og urðu af ýmis konar þjónustu ríkisins vegna fjarlægðar sinnar frá henni. Þeir tímar eru liðnir.

Ríkið heldur þar að auki uppi öryggisþjónustu í formi landhelgisgæslu sem kemur sjómönnum til góða umfram flesta aðra. Það er hins vegar slæmt hvaða áhættu menn taka nú með því að veikja þessa þjónustu á hættulegan hátt.

Erfitt er að sjá sanngirni í því að sjómenn sem vinna á hafnsögubátum og skipum sem sigla alla tíð uppi við landsteina eigi að fá sérstakan afslátt hjá ríkinu.

3. Það er erfitt fyrir þjóðfélagshópa að færast undan því að taka á sig hluta af þeim byrðum sem þjóðin verður að bera vegna hrunsins, ekki hvað síst þá hópa sem hafa grætt á hruni krónunnar. Útgerðarmenn eiga nú léttara, gengis krónunnar vegna, að greiða sjómönnum það sem þeim ber.  

 

P. S.

Vegna ýmissa ummæla sem fallið hafa í athugasemdum við þennan pistil ætla ég að bæta því við tveimur dögum síðar, að það er slæmt að þessi svonefndi "afsláttur" skuli vera nefndur "sjómannaafsláttur", því að upphaflega var hann settur á til að leysa kjaradeilu og létta undir með útgerðarmönnum.

Fyrir bragðið gátu þeir borgað sjómönnum lægri laun en ella.

Þessi afsláttur ætti því að heita "útgerðarmannaafsláttur" og umræðan um hann að vera á þeim nótum.  


mbl.is Sjómenn búa við betri kjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Henry markið verst ?

Þegar "handboltamörkin" fimm, sem nú eru í umferð á netinu, eru skoðuð sýnist síðasta markið, mark Thierry Henrys vera einna grófast því að án þess að nota höndina var greinilega ekki möguleiki fyrir hann að koma boltanum frá sér eins og hann gerði. 

 Í hinum tilfellunum virðist það vera miklu nær lagi að hægt hefði verið að komast hjá því að nota höndina og það er alveg sama hvað maður skoðar mark Maradona oft, það mark var út af fyrir sig gargandi snilld þótt ólöglegt væri.

Og einleiksmark hans í sama leik er náttúrulega fótboltamark allra tíma. Þegar menn velta því fyrir sér hvot hann eða Pele hafi verið besti knattspyrnumaður allra tíma vegur frammistaða Maradona í heimsmeistarakeppninni 1986 þungt, því að fágætt er að einn knattspyrnumaður hafi verið jafn ómissandi fyrir nokkurt knattspyrnulið.

Án hans hefðu Argentínumenn ekki átt möguleika 1986.

 


mbl.is Fimm bestu handboltamörkin (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband