3.11.2009 | 20:28
Ó, arður, bróðir besti !
Ó, arður, bróðir besti /
og barnavinur mesti /
æ breið þú blessun þína /
á barnalánið fína.
Þeim góð börn gef að vera /
og góðan ávöxt bera /
og forðast umtalið illa /
svo ei þeim nái´að spilla.
Það ætíð sé þeirra´ iðja /
að elska gróða´og biðja /
og meðferð lánsfjár læra
og lofgjörð því að færa.
Þau kunna´ í basli að bagsa /
en brátt úr grasi vaxa /
og tapið á sig taka /
og trekkt um nætur vaka.
Og ef allt fer til fjandans /
við forðumst rætur vandans /
en veltum amstri öllu /
á elsku börnin snjöllu.
.
Með blíðum barnarómi /
ljúft bænakvak svo hljómi: /
Þeim góð börn gef að vera /
og gróðaávöxt bera.
![]() |
Arður barnanna fór upp í lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.11.2009 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
3.11.2009 | 20:16
Hverju á að trúa?
Það er yfirleitt mjög einfalt reikningsdæmi að finna út gróft reiknað hve mikla orku þarf fyrir ákveðna stærð af álveri.
Einfaldast er að taka framleiðslugetu álversins í þúsundum tonna og margfalda töluna með ca 1,7-2,0.
Ef 346 þúsund tonnin sem framleidd eru í álveru Fjarðaáls eru margfölduð svona: 346 x 2,0 verður útkoman ca 690 megavött.
Nú kemur upp úr dúrnum að í matsáætlunum Landsnets og ákvörðun Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlínu er talan 1,2 notuð til margföldunar.
Munurinn á 1,2 og 1,7 er næstum því þriðjungur og þessi tala sem gefin er upp er langt frá því sem álver hafa þurft hingað til og munar hvorki meira né minna en 190 megavöttum !
Með því að gera lítið úr orkuþörf álversins er slegið á áhyggjur manna af orkuöfluninni og munar í þessu tilfelli hvorki meira né minna en sem samsvarar rúmlega einni stórri vatnsaflsvirkjun á borð við Blönduvirkjun.
Þegar rætt var um orku á háhitasvæðum norðan Mývatns í hitteðfyrra sagði talsmaður orkuöflunar þar að minnst 1000 megavött væri þar að fá.
Í takt við þetta var gaf síðan Landsvirkjun það loforð út að ekki væri ætlunin að virkja í Gjástykki heldur einungis að rannsaka svæðið !
Þegar það fréttist hins vegar að umhverfisráðherra kynni að beita sér fyrir því að Gjástykki yrði friðað var rekið upp ramakvein og hrópað: "Þetta er atlaga að álveri á Bakka því að virkjun Gjástykkis er forsenda fyrir orkuöflun handa því !
Í hitteðfyrra og fyrra var sagt að hugsanlega væri hægt að fá 30 megavött í Gjástykki, síðan var það hækkað í 45, þar á eftir hækkaði Halldór Blöndal töluna í 50 megavött og var varla búinn að sleppa orðinu þegar Hreinn Hjartarson nefndi 60 megavött. Og nú er skyndilega sagt að þarna sé 90 megavött að fá og þess vegna sé svæðið orðið svona mikilvægt !
Hvernig stendur á því að Gjástykki er allt í einu orðið svona ómissandi ef það var leikandi létt að fá alls um 1000 megavött norðaustanlands í hitteðfyrra?
Ég segi: Ef við skoðum þessar misvísandi yfirlýsingar og talnaleikfimi, er þá hægt að trúa orði af því sem þessir stóriðjupostular segja? Ef hægt er að trúa einhverju, hverju á þá að trúa ?
![]() |
Rangar upplýsingar um orkuþörf álvers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.11.2009 | 13:08
Hornreka í umræðunni.
Í kreppunni hefur ferðaþjónusta dregist saman víða um lönd. Á sama tíma eykst hún hér.
Það væri fróðlegt fyrir þá, sem kunna að lesa tíðaranda með orðatalningu úr fréttum, að sjá hvaða sess ferðaþjónustan hefur hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu.
Ef farið væri í gegnum helstu fréttir og upphrópanir í þeim undanfarna mánuði myndu orðin stóriðja og virkjanaframkvæmdir líklega hafa verið nefnd mörg hundruð sinnum og stundum sem aðal áhersluatriði í helstu fréttum dag eftir dag.
Á sama tíma minnist ég þess ekki að orðið ferðaþjónusta hafi nokkurn tíma verið nefnt.
Áhersluatriðin hjá ráðandi öflum eru skýr. Það er búið að skipta atvinnulífinu í tvennt:
Annars vegar stóriðja og virkjanaframkvæmdir. Um það snýst allt. Það er forsenda fyrir stöðugleikasáttmála og lífi í landinu. "Við verðum að geta lifað í þessu landi!" er hrópað og síðan þarf ekki að rökstyðja það nánar.
Aldrei er minnst á það að í öllum þeim álverum sem hægt er að reisa hér og nota myndu alla fáanlega orku með stórfelldri eyðileggingu á mesta verðmætinu, einstæðri náttúru, muni aðeins 2% vinnuaflsins í mesta lagi fá vinnu. 8% vinnuaflsins ef við teljum með svonefnd "afleidd störf."
Hins vegar er "eitthvað annað". Undir það fellur ferðaþjónustan og geldur þess. Þess er aldrei getið að þegar búið verður að reisa öll möguleg álver muni 98% landsmanna vinna við "eitthvað annað."
Þess er aldrei getið að nein önnur starfsemi en stóriðja skapi afleidd störf. Enda eins gott því að ef það yrði gert yrðu afleiddu störfin verða samtals um 700 þúsund manns !
Jafnvel ef við gefum stóriðjunni átta prósentin sem hún telur sig eiga, myndu 92% þjóðarinnar vinna við "eitthvað annað."
Þetta "eitthvað annað er einskis virði í umræðunni, - stóriðjan er allt.
![]() |
Stefnir í metár í ferðaþjónustu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
3.11.2009 | 12:47
Gamalkunnur vandi.
Það er gamalkunnur vandi að vel rekin fyrirtæki og stofnanir fái ekki að njóta þess sem skyldi.
Dæmi um þetta má finna langt aftur í tímann, svo sem í rekstri opinberra fyrirtækja.
Ég minnist þes að í tíð Guðna Guðmundssonar rekstors M.R. var oft rætt um það hvernig hann lagði mikla áherslu á að reka skólann af ábyrgð og útsjónarsemi en uppskar oft á tíðum að vera í raun refsað fyrir það.
Það lýsti sér í því því framlög til skólann voru minnkuð að raunvirði og í samanburði við aðrar hliðstæðar menntastofnanir skekktist myndin enn meir, því að sumar þeirra fóru fram úr fjárveitingum og börmuðu sér svo að framlögin til þeirra voru hækkuð.
Framundan verður að vera gegnsær og opinn samanburður á milli þeirra fyrirtækja sem hafa verið tekin til uppgjörs eftir hrunið svo að tryggt sé að ekki verði um mismunun að ræða.
Í Kastljósi i gærkvöldi nefndi Sigmar Guðmundsson nokkur þeirra og fleiri mun bætast á þann lista.
Síðan er að geta allra fyrirtækjanna sem hafa staðist álag hrunsins en verða að halda áfram að keppa við fyrirtæki, sem með stórfelldum afskriftum skulda hafa fengið meðgjöf í samkeppninni.
Þessi vandi teygir sig um allt þjóðfélagið því að rekstur tugþúsunda heimila er hér undir sama hatti.
Aldrei fyrr í sögu þjóðarinnar hefur þessi vandi verið eins mikill og víðtækur og nú.
![]() |
Má ekki refsa vel reknum fyrirtækjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)