Líklega röng ákvörðun.

Ég tel mestar líkur á því að ákvörðunin um byggingu nýs Landsspítala á gömlu Landsspítalalóðinni sé röng. 

Margar ástæður liggja til þess.

Í fyrsta lagi hefur það gefist illa erlendis að vera með "bútasaum" við svona byggingar. Á sínum tíma fór ég til Oslóar og Þrándheims til að skoða sjúkrahúsin þar og ræða við íslenska og norska lækna til að fjalla um þetta í sjónvarpsfréttum. 

Sjúkrahúsið í Þrándheimi var gert með "bútasaumi", - með því að bæta við gömlu húsin og tengja þau saman. Það var einróma skoðun læknanna að þetta væru hin verstu mistök sem menn ættu að læra af.

Menn lærðu af þessu í Osló. Þeir fundu nógu stóra auða lóð nálægt þjóðleiðinni í gegnum borgina og hönnuðu aldeilis frábært sjúkrahús frá grunni sem hlotið hefur einróma lof.  

Í öðru lagi liggur nýja Landsspítalabyggingin ekki eins vel við samgöngum og skyldi. Mestu krossgötur landsins eru í kringum Elliðárdal og miðja byggðarinnar er austast í Fossvogsdal. 

Skárra hefði verið að bæta við Borgarspítalann meðan þar var enn rými því að þar var aðeins ein bygging fyrir en margar á Landsspítalalóðinni.

En best hefði verið að hanna nýjan spítala alveg frá grunni innst við Grafarvog nálægt því svæði þar sem nú er tilraunastöðin á Keldum. 

Þess ber að gæta í þessu máli að ákvörðunin um staðarvalið var tekin meðan enn voru meiri möguleikar  á því að finna svæði nálægt krossgötum höfuðborgarsvæðisins.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur nefndi Landsspítalamálið sem dæmi um litla og lélega umræðu áður en ákvörðunin um staðarvalið var tekið.

Þegar ég innti borgarfulltrúa eftir því fyrir þremur árum hvenær og hvernig ákvörðunin hefði verið tekið gat enginn svarað mér. Það var orðið svo langt síðan og jafngilti því að sagt væri: Af því bara.   

Hið eina jákvæða við Landsspítalalóðina er nálægðin við flugvöllinn því spítalinn er spítali allra landsmanna og engin leið að komast hjá því að nota flugvélar í sjúkraflugi.

Þess vegna væri það slæmt ef flugvöllurinn yrði lagður niður.  

Nær allt sjúkraflug hér á landi fer fram með flugvélum af tveimur ástæðum: Það er margfalt ódýrara að nota flugvélar en þyrlur og ekki er hægt að fljúga þyrlum í jafn slæmum skilyrðum og flugvélum, svo sem í ísingarskilyrðum eða ofan skýja.   

 


mbl.is Nýtt upphaf markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómverjar, Fönikíumenn og Gallar.

Fornleifafræðilega eru meiri líkur á því að Rómverjar hafi komið fyrstir til Íslands heldur en Írar eða Norðmenn. Ástæðan er fólgin í því að engar áþreifanlegar minjar hafa fundist um veru Íra hér þótt Landnámabók tilgreini þá. Hins vegar minjar um Rómerja. 

Landnámabók tilgreinir að Írar hafi komið á undan Norðmönnum vegna þess að ekki var hægt að sneiða fram hjá hinum mikla innflutningi fólks af Bretlandseyjum til landsins.

Dýrð landnámsins er hins vegar öll eignuð Norðmönnum og sagt að Írarnir hafi verið einsetumenn sem ekki fjölguðu sér. Það er hæpin alhæfing og þegar litið er til þeirra laga, sem talin voru gilda um landnám, sést að Norðmönnum hefur verið mikið í mun að sanna að þeir ættu lagalegan rétt til landsins og engir aðrir.

Sagan af öndvegissúlunum sýnir að landnámið varð líka að vera trúarlega pottþétt því að í öndvegissúlunum fólust heimilisguðir Ingólfs sem friðmæltust við landvættina.  

Langafi minn, Runólfur Bjarnason hómópati í Hólmi í Landbroti mun hafa greint frá því í viðtali í Ísafold og Verði eða í Tímanum snemma á síðustu öld að í sandi þar í grenndinni hafi fundist siglutré úr óvenjulega harðri trjátegund.

Hvers vegna var siglutré grafið þar í sandi, langt frá sjó?  

Jú, líkur eru á því að hægt hafi verið að sigla langleiðina upp á Síðufjöllum fyrir 2000 árum áður en stórgos og sandflutningar færðu ströndina út, og því ekki óhugsandi að þar hafi strandað rómverskt eða jafnvel skip þjóðflokks í Gallíu (Frakkalandi) sem bjó yfir bestu siglingatækni þess tíma og notaði mjög harða trjátegund í skip sín.  

Fyrstu menn sigldu vafalaust til Íslands fyrir Krists burð og fyrstu Norðmennirnir vafalaust löngu fyrir þann tíma sem landnám Ingólfs er talið hafa átt sér stað.

Nú sem fyrr gilda orð Ara fróða: "Hvatki es missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það er sannara reynist.

Spurningin er hvort vopnaviðskipti Hjörleifs við þræla hans eru endurómur af því að norsku víkingarnir þurftu að berjast við þá sem voru fyrir í landinu til þess að ná því undir sig.

DSCF0171

Munnlegir vitnisburðir eru hæpnir. Dæmi: Það er almennt haldið að fyrsti bíllinn minn, sem ég átti í rúm þrjú ár, hafi verið þriggja hjóla bíll.

Þessi vitleysa er orðin svo sterk að meira að segja einstaka bekkjarfélagar mínir úr M.R. hafa verið farnir að halda þetta.

Hér á síðunni er mynd af sams konar bíl og ég átti, NSU Prinz, þessi svarti, og hjólin eru ekki aðeins fjögur, heldur yst úti í hornum bílsins.

DSCF0174

Um þetta hef ég sagt: "Ég er bíladellukarl. Ef ég væri mikill kvennamaður myndi ég áreiðanlega muna eftir því hve margir fætur voru undir fyrstu kærustunni minni."

Fóturinn fyrir þessari furðulegu sögu er að í fyrsta áramótaskaupi Sjónvarpsins var ég látinn koma akandi inn í stúdíó á Messerschmitt þriggja hjóla bíl, stíga út úr honum og syngja eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var, enda skaupið týnt og tröllum gefið.

Þessi bíll var gerólíkur Prinzinum, miklu mjórri og aðeins einn sat frammi í og einn afturí.

Sem sagt: Eins og yfirbyggt vélhjól. 

Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég settist upp í slíkan bíl en ók um daglega á Prinzinum í þrjú og hálft ár.  

 

 


mbl.is Var Ísland numið 670?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband