Hús, fullt af játningum fjöldamorðingja.

Ég hef áður vitnað í bókiina "Nazism at war" sem lýsir betur en nokkur önnur bók sem ég hef lesið hvað lá að baki þeim mikla harmleik sem Seinni Heimsstyrjöldin var. 

Það sem stendur upp úr eru beinar tilvitnanir í ræður Hitlers við ýmis tækifæri og bókina "Mein Kamph" sem á sínum tíma var gefin út á Íslandi þegar nasisminn var í hvað mestum uppgangi í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar.

Þegar þessar tilvitnanir eru lagðar saman kemur út alveg ólýsanlega viðbjóðsleg röð játninga kaldrifjaðs og tryllts fjöldamorðingja sem allt til hins síðasta leit á það sem hlutverk sitt að útrýma öllum "óæðri" kynþáttum sem hann skilgreindi sem slíka.

Á lokamánuðum stríðsins beindist grimmd þessa manns gegn hans eigin þjóð sem hann taldi hafa brugðist sér og ætti ekki betra skilið en að farast í eldslogum síðustu mánaða þessa hræðilega stríðs.

Í stað þess að jafna húsið í austurríska bænum Braunau við jörðu þar sem þessi glæpamaður ólst upp, ætti þvert á móti að útbúa þar safn þar sem fólk gæti lesið af stórum skiltum játningar hans um útrýmingarstríð, -  ekki bara játningarnar varðandi útrýmingu Gyðinga, Slava, Sígauna og svertingja, heldur hans eigin þjóðar í lok stríðsins.

Spila mætti búta úr æsingaræðum hans þar sem þetta kom fram og varpa ljósi á þá einstæðu villimennsku sem Hitler mælti fyrir um.

Útrýmingarbúðirnar í Auswitch eru varðveittar og hið sama á að gera við önnur ummerki um fyrirbæri í mannkynssögunni sem eigi að verða víti til varnaðar.

Ég var einu sinni spurður um það hvað ég myndi velja, ef ég mætti verða viðstaddur flutning á tveimur ræðum úr mannkynssögunni.

Mitt svar var að það yrði annars vegar Fjallræða Krists og hins vegar sú ræða Hitlers, sem haldin hefði verið með stórkostlegastri umgjörð, til dæmis í Nurnberg.

Þannig fengist samanburður á hinu besta og hinu versta á þessu sviði.

 

 


mbl.is Óttast hverjir kaupi heimili Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægður með Desember.

Ég fór með blendnum huga að sjá Desember, nýja mynd Hilmars Oddssonar. Jólamynd? Var það ekki tvíbent viðfangsefni?

Myndin gerist í hversdagslífi og basli fremur venjulegs fólks og því fannst mér enn frekari ástæða til að óttast að hún myndi ekki viðhalda athyglinni allan tímann.

En það fór á aðra leið. Þegar myndinni lauk var ég ánægður með þessa bíóferð og tel höfuðkost myndarinnar einmitt þann hve auðvelt er fyrir hvern sem er að láta lokkast inn í heim hennar sem allir geta fundið svo mikla samsvörun við úr eigin lífi og sinna nánustu.

Hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa: Hver kannast ekki við þetta?

Það er nefnilega pottþétt uppsetning að tefla saman mestu hátíð ársins og vandamálum og viðfangsefnum hversdaglífs hjá breyskum og ófullkomnum manneskjum, svo framarlega sem úrvinnslan er góð.

Og það finnst mér hún vera í þessari mynd þar sem jöfn og góð frammistaða allra er aðall þess hve vel hefur tekist til.

Gæti vel ímyndað mér að þessi mynd eigi eftir að verða klassísk jólamynd og góð heimild um þann desember sem Íslendingar upplifa á hverju ári.


Dapurleg dökk hlið.

Bandaríska þjóðin er aðdáunarverð um marga hluti. Síðustu forsetakosningar voru rós í hnappagat þjóðar sem samsett er af fjölbreyttari og ólíkari kynþáttum en flestar aðrar. 

Þeir gátu þetta eftir allt.  

Þegar dökkar hliðar bandarísks þjóðlífs koma fram er oft undravert hvernig Kanarnir koma manni fyrr en varir á óvart. Það mega þeir eiga. 

Ég hef ferðast víða um Bandaríkin og ríkin og fólkið eru ákaflega ólík, svo ólík að engin sanngirni er fólgin í því að alhæfa um bandarískt þjóðlíf út frá bíómyndum um glæpi og ólifnað eða fréttum af glæpum og óhugnaði.

En ein heildarmynd blasir við og hefur blasað við lengi: Byssudýrkun Bandaríkjamanna er böl í landi þeirra.

Þeir afsaka sig með því að þeir séu "frontier-þjóð," landnemaþjóð sem varð að nota byssur við landnámið og þess vegna sé byssueignin og skotvopnhefðín svona mikil og sterk.

Þessi útskýring stenst ekki ef byssueign og byssumorð í Bandaríkjunum eru borin saman við byssueign og byssumorð í Kanada og Ástalíu þar sem líka búa landnemaþjóðir.

Himinhrópandi munur eru á tölunum í þessum löndum og það hlýtur að benda til þess að enda þótt það séu ekki byssur sem drepi fólk heldur menn þá sé fylgni á milli byssueignarinnar og skotvopnadýrkunarinnar og morðanna.  

 


mbl.is Bandaríska þjóðin syrgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband