Vafasöm nýjung.

Vafasama nýjung má sjá í Staksteinum Morgunblaðsins í dag. Þeir fjalla í miklu háði um Ólaf Arnarson og menn tengda honum og eru þeir í háðungarskyni kallaðir "ódauðlegir snillingar" í fyrirsögn Staksteinanna og það endurtekið og því fylgt eftir af miklu kappi í pistlinum. 

Efni pistilsins sýnir hins vegar að höfundur hans meinar auðvitað að þeir séu eins fjarri því að vera snillingar og hægt sé að hugsa sér, þ. e. örgustu asnar, og hefur Staksteinahöfundurinn að sjálfsögðu fullt frelsi til að hafa þá skoðun. 

En þetta virðist ekki hafa nægt honum, því að þegar hann birtir mynd af Ólafi með nafni hans undir, eins og alsiða er, getur hann ekki stillt sig um að bæta við ádeilu sína á Ólaf og láta myndartextann vera svona: "Ólafur Arnarson snillingur."  Les: Ólafur Arnarson asni.

Í þau rúmlega 60 ár sem ég hef lesið blöð og tímarit hef ég aldrei séð hliðstæðu þessa í nafnbirtingu undir mynd, hvorki hér á landi né erlendis, ekki einu sinni þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og menn kölluðu hverjir aðra landráðamenn og leppa erlendra stórvelda. 

Með nýjum ritstjórum Morgunblaðsins hafa borist ný efnistök í blaðinu og er skemmst að minnast frábærlega vel skrifaðs leiðara um villiféð á Vestfjörðum þar sem mér sýndist ég sjá öll bestu stílbrögð rithöfundarins Davíðs Oddsonar og þakkaði honum fyrir hér á bloggsíðu minni. 

En þá nýjung að uppnefna fólk í nafnatextum undir myndum í háðungar- og niðurlægingarskyni tel ég vægast sagt vafasama og ekki gott til þess að vita ef þetta fer að verða alsiða í Morgunblaðinu eða í öðrum dagblöðum og tímaritum þar sem mikils virðist stundum þurfa við til að vega mann og annan. 

Ég vona að þetta hafi verið undantekning en ekki upphaf á reglu í þessu efni.  


Fyrirgefningin.

Í dag eru tuttugu ár frá falli Berlínarmúrsins. Undanfari falls hans voru einhverjir stærstu fjöldafundir sögunnar í Leipzig þar sem fólkið hrópaði: "Við erum þjóðin!"

Viðbrögð Erics Honeckers leiðtoga alræðisvaldsins í landinu voru þau að svara og segja: "Þið eruð ekki þjóðin".

Með því komst hann í sögubækur sem dæmi um fyrir firringu þess sem hefur fjarlægst þjóð sína.

Ég minnist þess enn hvað mér brá þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét svipuð ummæli falla á fundi í Háskólabíói þar sem húsið var fullt út úr dyrum, bæði salur og anddyri.

Mér varð ljóst að henni höfðu orðið á mikil mistök og að fjarvera hennar vegna veikinda hina örlagaríku haustmánuði í fyrra höfðu komið sér illa fyrir hana.

Þetta var slysalegt fyrir konu sem hefur verið í allra fremstu röð stjórnmálamanna landsins síðustu 15 ár og verður minnst fyrir það að hafa rutt því braut að kona yrði í fyrsta sinn forsætisráðherra Íslands þótt hún yrði það ekki sjálf.

Nú hefur hún haft tíma til að fara yfir þetta allt og gerir vel með því að játa að henni hafi orðið á mistök.

Fyrir sérkennilega tilviljun gerist það á tuttugu ára afmæli falls Berlínarmúrsins.

Nýlega var ég beðinn um að skrifa pistil í bók sem Skálholtsútgáfan gefur út nú fyrir jólin um fyrirgefninguna.

Ég ákvað að senda inn stuttan sálm um hana þar sem ljóðlínan "Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita" er ein af lykilsetningunum. 

Ingbjörg Sólrún fjallar um reiðina sem hefur ríkt í þjóðfélaginu og hennar er líka getið í sálmi mínum.

Þjóðfélag okkar þarf á næstu árum að ganga í gegnum erfitt og þjáningafullt ferli sem vonandi gerir okkur öll og þjóðfélag okkar betra en það var áður.

 

FYRIRGEFNINGIN. 

(Með sínu lagi)

 

Án fyrirgefningar friðlaus verður hver maður,   / 

fær ekki lifað lífinu sáttur og glaður.   / 

Batnandi manni er best að lifa og deyja,  / 

bæta fyrir sín afbrot, - sig auðmjúkur beygja.

 

Breyskleikinn leikur mann illa á ýmsa vegu,  /

ágirnd og sjálfselska, systurnar hættulegu,  /

syndirnar lúmsku, losti, græðgi og hroki   / 

líf okkar eitra, oft verða að þrúgandi oki.  

 

Misgjörðir og mistök á vegum hálum  /

meinvörp og sár geta skapað í viðkvæmum sálum.  /

Allir menn eiga einhverjum skuld að gjalda.   /

Öll þurfum við á fyrirgefningu´að halda.  

 

Vont er að vera fullur af hefndarhuga.   / 

Heiftúð og gremja oft skynsemi´og hugarró buga.  /

Enginn er bættari náungann auri að ata   / 

því oftast fer hatrið verst með þá sem að hata.  / 

 

Þú, sem ég braut gegn, þér á ég skuld að gjalda.   / 

Þungbær er sökin og erfitt er henni að valda.   /

Ef framvegis gegn syndinni verð ég á verði   /

viltu fyrirgefa mér það sem ég gerði ?

 

Fyrirgefning og iðrun mér frið munu veita.  /

Fyrirgefningar Drottins verð ég að leita   / 

en víkja þó ekki frá verknaðinum hálfum, -

ég verð að geta fyrirgefið mér sjálfum.  

 

Er endirinn nálgast áfram ég trúi og vona  / 

og ósk mín til þeirra, sem braut ég á móti, er svona:  / 

Þótt sakbitinn muni ég síðustu rimmuna heyja  /

að sáttur við Guð og menn ég fái að deyja.   


mbl.is Ásakar sjálfa sig fyrir að hafa valdið reiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband