13.12.2009 | 19:48
Bruðl og níska.
Stórveldin Japan og Indland hafa sendiráð sín á venjulegum verslunarhæðum í Reykjavík. En Íslendingar hafa í mörgum tilfellum ekki látið sér nægja minna en lúxusvillur og nánast hallir, jafnvel fyrir sendiráð í fátækustu löndunum.
Þannig var íslenska sendiráðið í einni af stærstu og flottustu villunum á besta stað í Maputo, höfuðborg hins örfátæka lands Mósambík, þegar ég kom þangað fyrir nokkrum árum.
Þegar ég undraðist þetta var mér sagt að verð á húsum væri mun lægra í þessum örfátæku löndum en á Vesturlöndum þannig að þetta væri nú ekkert svo mikill lúxus.
Frá sendiráðshúsinu í Maputo sást yfir flóann yfir til landshluta þar sem er þorpið Hindane. Þar reistu Íslendingar heilsugæslustöð sem færði heilsufarsbyltingu til fólksins þar.
En að öðru leyti var það að horfa þarna yfir flóann eins og að horfa yfir að aðra plánetu, þvílík hyldýpisgjá sem er á milli kjara okkar og hins bláfátæka fólks sem þar er nær alveg fjarri allri nútímatækni okkar tíma.
Þetta augljósa bruðl blasti við á sama tíma og framlag okkar til þróunarhjálpar í fátækum löndum heims var aðeins brot í prósentum mælt af því sem var hjá nágrannaþjóðum okkar og níska okkar og nirfilsháttur á þessu sviði okkur til háborinnar skammar.
Í því ljósi var sendiráðsvillan íslenska tákn hins sama fáránleika og stefndi íslensku efnahagslífi í hrun nokkrum árum síðar.
![]() |
Sendiherrabústaður seldur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2009 | 11:35
Álverin gera allt erfiðara.
Stóriðjustefnan gerir erfitt fyrir um það að byggja upp hagfellda nýtingu orkugjafa okkar. Samningnum um gagnaver í Reykjanesbæ má líkja við það að flugfélag selji farmiða að mun fleiri farþegasætum í flugvél en eru í vélinni og að öðrum viðskiptavinum sé bægt frá.
Það er fljótlegt að sjá að gagnaverið skapar miklu fleiri störf miðað við orku en álver og mengar ekkert svipað.
Í ofanálag hafa fríðindi af ýmsu tagi til álveranna gert erfiðara að semja við aðra kaupendur sem heimta auðvitað eitthvað svipað.
Í stað þess að samningar við gagnaver séu hreint fagnaðarefni eru þeir áhyggjuefni vegna þess að verði áframt keyrt áfram með álverin mun þessi stefna enda í ógöngum af ýmsu tagi vegna þess fyrirhyggjuleysis og ábyrgðarleysis gagnvart framtíðinni og afkomendum okkar sem ræður för.
![]() |
Vill heimild til að semja um gagnaver |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2009 | 02:15
Nýr vegur yfir Þingvelli ?
Fróðlegt sjónarmið mátti heyra í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi, sem sé það að við mat á umhverfisáhrifum eigi það atriði að vega þungt og þá væntanlega að hafa úrslitaáhrif ef vegur getur orðið sem stystur svo að slysahætta minnki.
Einar K. Guðfinnsson sagði að um allt land gæti vegakerfið liðið fyrir það að þetta væri ekki haft í huga og þessu þyrfti að breyta.
Það þarf ekki að fara langt til að finna gott dæmi um þetta.
Þegar lögunum hefur verið breytt opnast væntanlega nýr og stórkostlegur möguleiki til samgöngubóta sem hefur algerlega verið vanmetinn, sem sé sá að stytta hina gríðarlegu fjölförnu leið milli Reykjavíkur og Laugarvatns, Gullfoss og Geysis um heila 5 kílómetra með því að leggja hraðbraut fyrir 90 km hámarkshraða fram af brún Almannagjár fyrir sunnan Þingvelli og fara stystu leið með norðurströnd Þingvallavatns.
Þar með yrði aðkoma akandi ferðamanna að Þingvöllum jafnvel enn glæsilegri en hún var þegar brunað var á rútum niður í suðurenda Almannagjár, því að útsýnið yrði magnað úr bílunum á leiðinni í gegnum gjárbrúnina og yfir hana og síðan í talsverðri hæð fyrir sunnan Vellina.
Þessi nýi vegur myndi verða sunnan við Vellina sjálfa og gjárnar og því ekki raska þeim neitt.
Vegna þess að umferðin þessa leið er líklega minnst hundrað sinnum meiri en um veginn sem Einar þráir í gegnum Teigskóg yrði ávinningurinn í umferðarslysum talið líka hundrað sinnum meiri en við lagningu vegar í gegnum Teigskóg.
Raunar held ég ekki að jarðgöng undir Hjallaháls og nýr vegur í tengslum við þau yrðu neitt hættulegri en vegur um Teigskóg og mér sýnist ekki að slys hafi verið svo tíð hvort eð er á þessum slóðum, þrátt fyrir gamlan veg.
Nú þyrfti Stöð tvö að fylgja þessu eftir og sýna bestu dæmin um mikið ágæti stefnu Einars K. og það eru hæg heimatökin svona skammt fyrir austan höfuðborgina. Þingvelli strax á eftir Teigskógi!
Þá yrði líka kannski meiri líkur á því að einhver yrði til andsvara ef þau eru talin æskileg.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)