Sífellt reynt að sverta allar mótmælaaðgerðir.

Hún er gamalkunnug sú gagnrýni sem beint er að þeim sem taka þátt í friðsamlegum mótmælum, nú síðast gegn Álfheiði Ingadóttur, - ég hef sjálfur verið sakaður um að "æsa til ofbeldis" og vera "meðlimur í götuskríl."

Þessar ásakanir eru notaðar til að hræða fólk frá því að láta í ljós skoðanir sínar á þann stjórnarskrárvarða hátt að koma saman á löglegum og friðsamlegum mótmælafundum eða fara í löglegar mótmælagöngur. 

Við erum spyrt saman við fámennan hóp sem fer yfir strikið og notar mótmælaaðgerðir sem átyllu til þess að fara út fyrir þann ramma sem aðstandendur mótmælanna vilja setja.

Þetta var mjög lítið brot af fundarmönnum á þeim mörgu og fjölmennu mótmælafundum sem ég tók þátt í veturinn 2008-2009. 

Það er sérkennileg tilviljun að í viðtölum í fjölmiðlum við einstakt geðprýðis- og friðsemdarfólk nú um helgina, Gunnar Þórðarson og Vigdísi Finnbogadóttur, segjast þau hafa verið að fylgja sannfæringu sinni og vera hreykin af því með því taka þátt í svona aðgerðum, - hann í mótmælafundum, hún í mótmælagöngu.

Það er mjög séríslenskt fyrirbrigði að flokka mótmælafundi og mótmælagöngur sem "skrílslæti" og þátttakendur sem "skríl." 

Ef slík fyrirbrigði hefðu ekki tíðkast erlendis hefði orðið lítið úr baráttunni hjá Martin Luther King, Nelson Mandela og Mahatma Gandhi að ekki sé talað um "skrílinn" sem náði að mynda mótmælafundi allt upp í meira en hundrað þúsund manns á einum fundi í aðdraganda falls Berlínarfólksins.

"Þið eruð ekki þjóðin" var svar ráðamanna sem töldu þetta fólk vera ótíndan skríl.   

 


mbl.is Við gerðum það sem þurfti að gera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað 2004 ?

Sögusagnir gengu um það að svipað hefði gerst áður í málefnum, sem vörðuðu Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún greinir frá nú, að vilji til þess að ganga gegn Davíð Oddssyni hafi gufað upp þegar á reyndi.

Þetta á að hafa gerst þegar rimman um fjölmiðlafrumvarpið stóð hæst vorið 2004. 

Var sagan á þann veg að þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins sáu að það myndi skaða flokkinn að halda fjölmiðlafrumvarpinu lengur til streitu hefði Geir H. Haarde verið sendur á fund Davíðs með fullum stuðningi og umboði allra  til þess að fá hann til þess að sætta sig við þetta, horfast í augu við það hvernig komið væri og lágmarka skaðann. 

Geir hafi hins vegar komið út af fundinum eins og barinn rakki, án þess að hafa náð hinum minnsta árangri, slíkur hafi myndugleiki og áhrifavald Davíðs verið að fundur þeirra hefði snúist við og Davíð tekið Geir gersamlega í gegn. 

Hvað sem hæft er í þessu er ljóst að Davíð hefur ætíð verið einn af þeim mönnum sem hefur alveg sérstaklega mikið persónulegt áhrifavald, svo mikinn myndugleika og persónutöfra að nálgast dávaldshæfileika.

Síðast upplifði íslenska þjóðin þetta í gegnum sjónvarp í hinu fræga Kastljósviðtali 7. október 2008, en margir sögðu mér eftir á að Davíð hefði eytt öllum áhyggjum þeirra af því hvað framundan væri.  

Í hugann koma dæmi um svipað áhrifavald stjórnmálaforingja fyrr á tíð en áður en ég held lengra er rétt að taka það sérstaklega fram að með því að taka dæmi um svipað úr heimssögunni er á engan hátt verið að líkja þeim mönnum saman, sem um er rætt að öðru leyti en snertir persónutöfra.

Tvívegis sammæltist þýska herráðið um það að rísa gegn Foringjanum, í fyrra skiptið í september 1938 þegar stefndi í uppgjör og stríð við Breta og Frakka vegna Tékkóslóvakíu.

Í það skiptið gufaði andstaðan upp þegar Foringinn kom sem sigurvegari út úr fundinum fræga í Munchen þar sem hann hafði vafið þeim Chamberlain og Daladier um fingur sér.

Í seinna skiptið hlaut tiltæki herhöfðingjanna nafnið Zossen-samsærið. Herráðið sendi formann sinn,  Von Brauchitsch, með fullu umboði sínu og stuðningi á fund Foringjans til þess að setja honum stólinn fyrir dyrnar varðandi frekari hernað á vesturvígstöðunum.

Er skemmst frá því að segja að Von Brauchitsch guggnaði þegar á hólminn var komið og fór á taugum gagnvart áhrifavaldi foringjans sem tók hann í gegn eins og faðir sem tekur barn á hné sér. 

Eftir fádæma sigurför Þjóðverja á vesturvígstöðvunum vorið eftir þýddi ekki framar að reyna þessa aðferð.  


mbl.is Var lofað að Davíð myndi hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband