18.12.2009 | 11:53
Munið þið eftir "bankaráni aldarinnar"?
Nú, þegar endurreisn íslensku viðskiptabankanna er sagt vera lokið, er fróðlegt að líta á nokkrar uppákomur, sem urðu í hruninu, aðdraganda þess og eftir það, og bera þær saman við það sem síðar hefur gerst.
Daginn eftir að Seðlabankinn tók yfir 75% af Glitni kom einn forráðamanna bankans grátbólginn í fjölmiðla og sagði að þetta væri "bankarán aldarinnar"!
Síðar hefur komið í ljós að bankinn var þá fyrir allnokkru dauðadæmdur og að Seðlabankinn hefði gert best með því að láta hann bara rúlla í stað þess að lengja dauðastríð hans um örfáa daga.
Upphrópunin verður þeim mun fáránlegri í eyrum okkar nú þegar við sjáum að í stað þess að Glitni hafi verið rænt hafi þetta í raun verið vonlaus gjöf Seðlabankans til hans og algerlega út í loftið, þ. e. að þessir peningar séu ekki einasta tapaðir, heldur hafa þeir nú lagst ofan á skuldir ríkissjóðs.
Með öðrum orðum: Stjórn Seðlabankans rændi óvart eigin banka þessum fjármunum og gerði gjaldþrot hans enn verra en það hefði þurft að vera.
En það voru fleiri en eigendur Giltnis sem grétu þessa daga og kenndu Seðlabankanum um allt sem illa fór.
Björgólfur Thor kom í Kastljós og lýsti þeirri ósvinnu Seðlabankans að hafa ekki hent gríðarfjárhæð umyrðalaust inn í Landabankann til þess að liðka fyrir flýtimeðferð Breta við að koma starfsemi hans í Bretlandi í umgerð dótturfélags hans í Bretlandi.
Til sannindamerkis um að þetta hefði bjargað Landsbankanum nefndi Björgólfur að einn helsti yfirmaður breska fjármálakerfisins hefði verið kallaður út umrædda helgi í aukavinnu til þess að vinna að þessu.
Þegar sýndur var á dögunum þáttur BBC um hrunið kom hins vegar í ljós að þessar nætur unnu bresk stjórnvöld í kapphlaupi daga og nætur við það að bjarga eigin fjámálakerfi og þar með alls heimsins.
Í ljósi þessa er afar ólíkleg sú saga Björgólfs að útköll embættismanna hafi verið vegna Landsbankans.
Nú hefur komið í ljós að bresk stjórnvöld hófu að kyrrsetja eignir íslenskra banka næstum viku áður en hryðjuverkalögunum var beitt.
Einnig liggur fyrir að forráðamenn Landsbankans drógu lappirnar í hálft ár áður en þetta gerðist við að koma starfsemi bankans erlendis yfir í dótturfélög.
Þeir hunsuðu tilmæli Davíðs Oddssonar hálfu ári fyrr um að láta ekki yfirvofandi hrun starfsemi bankans erlendis bitna á íslensku þjóðinni.
Ummæli Björgólfs í umræddu Kastjósviðtali voru í sama anda og upphrópun Glitnismannsins viku fyrr um "bankaán aldarinnar."
Nú liggur fyrir að hjálparaðgerðir Seðlabankans þegar hann í örvæntingu keypti ónýt ástarbréf bankanna vikurnar og mánuðina fyrir hrunið hafi í raun verið Seðlabankarán aldarinnar, þ. e. gert gjaldþrot hans sjálfs miklu verra og dýrkeyptara fyrir ríkissjóð og þar með þjóðina en það hefði þurft að verða.
![]() |
Endurreisn bankanna lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)