Valbjörn Þorláksson látinn.

Látinn er í Reykjavík Valbjörn Þorláksson, einn af fremstu íþróttamönnum síðustu aldar.  Tvívegis hlaut hann sæmdarheitið íþróttamaður ársins.

Valbjörn varð tólfti í tugþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo 1964 og enginn veit hvernig honum hefði vegnað í Melbourne 1956 ef hann hefði fengið að fara þangað.

Vegna fjárskorts gátu aðeins tveir íþróttamenn farið með einum aðstoðarmanni, þeir Vilhjálmur Einarsson og Hilmar Þorbjörnsson.

Ekkert var við það að athuga að þeir teldust vera efstir á afrekaskránni, en þegar úrslitin þar eru skoðuð sést að á góðum degi hefði Valbjörn átt góða möguleika á einhverju af efstu sætunum í aðalgrein sinni, stangarstökkinu.

Frjálsar íþróttir og íþróttaæskan áttu hug hans allan og hann átti glæsilegan feril á íþróttamótum öldunga erlendis.  Það er ekki tilviljun að einn af íþróttavöllum Reykjavíkur ber nafn hans.

Þær fáu vikur sem ég keppti kynntist ég Valla ágætlega. Ég keppti aðeins einu sinni við hann í 100 metra hlaupi á Akureyri þar sem við náðum báðir okkar bestu tímum. Þetta ár, 1964, var hann í hörkuformi og illviðráðanlegur.

Ég mátti því horfa á eftir honum á undan mér í markið og nú horfi ég með söknuði á eftir honum á undan mér yfir marklínuna miklu. 

 


"Aðgát skal höfð..."

Mér finnst rétt að benda á magnaða grein sem Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, skrifar á miðopnu Morgunblaðsins í dag um framgöngu leiðsögufyrirtækis í Reykjavík.  

Greinin talar sjálf fyrir sig en um hana gilda hin gömlu orð skáldsins að "aðgát skal höfð í nærveru sálar."

Að mínum dómi ber það vott um hugmyndafátækt þegar seilst er jafn langt og umræddur leiðsögumaður hefur gert samkvæmt frásögninni í greininni.  

Samkvæmt því spinnur þetta leiðsögufyrirtæku upp draugasögur þar sem látið fólk er sagt hafa verið morðingjar, barnaníðingar og brennuvargar og ferðin um draugaslóðir síðan látin enda við látinn einstakling sem hvílir í gröf sinni í kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þar á ofan er prestur í Reykjavík bendlaður við djöfladýrkun.

Það er allt í lagi að færa eitthvað í stílinn eins og sagt er þegar fásagnargleði er beisluð en fyrr má nú vera!

 

P. S.  Ég sé á dv.is að forsvarsmaður leiðsögufyrirtækisins muni fara í mál við Þór og telur hann Þór ekki fara rétt með því að við leiði stúlkunnar sé hún ekki bendluð við fyrri atriði í ferðalaginu.

Þó vekur það athygli mína að farið skuli verið að leiði stúlkunnar. Hvernig stendur á því?  


Skagamenn skoruðu mörkin!

Það er ekki lengra að fara frá Reykjavík upp á Akranes en það, að líta má á staðinn sem eitt af úthverfum Reykjavíkur. 

516765B

Á sínum tíma átti svonefnt Gullaldarlið Skagamanna stóran aðdáendahóp í Reykjavík, jafnvel þótt þetta væri utanbæjarlið og á þeim tíma svo langt frá Reykjavík að það var hátt í tveggja klukkustunda ferðalag þangað.

Ég var og er Framari en þar á bæ höfðu menn taugar til Akurnesinga vegna þess að Ríkarður Jónsson, skærasta stjarnan þeirra, spilaði með Fram á tímabili.

Fyirr alla aðra en KR-inga skaðaði það svo ekki að á þessum árum voru það Skagamenn sem komu hvað eftir annað í veg fyrir að KR-ingar yrðu Íslandsmeistarar ár eftir ár!

Ríkarður og Skagamenn innleiddu svonefnda meginlandsknattspyrnu sem byggðist á hröðu spili með stuttum sendingum, en leikaðferð KR-inga átti meira skylt við ensku knattspyrnuna með löngum sendingum til framherjanna og himinháar "hreinsanir" sem fengu nafnið "KR-spörk." 

En vitanlega voru góðir leikmenn í KR svo sem Bergur Bergsson, Felixsynirnir, Hreiðar Ársælsson og hinn léttleikandi framherji Gunnar Guðmannsson.

Og síðan eignuðust KR-ingar sitt eigið gullaldarlið með Þórólf Beck, Ellert Schram, Bjarna Fel, Garðar Árnason og Örn Steinsen.

En á vandaðri ljósmyndasýningu sem verður opnuð í dag uppi á Skaga verður gaman að sjá heila öld íþrótta á Akranesi birtast ásamt mörgum af köppunum sem gerðu garðinn frægan.

Ég hafði mikla ánægju af því að gera textann "Skagamenn skoruðu mörkin" þar sem elstu gullaldarmennirnir voru nefndir, Helgi Daníelsson, Ríkarður Jónsson, Þórður Þórðarson, Donni, Guðjón Finnbogason og Sveinn Teitsson, allt saman fastir landsliðsmenn.

Síðan hef ég frétt að við opnunina muni láta ljós sitt skína ótrúlega ern Skagamaður, sem kominn er vel yfir nírætt og mætir þó til vinnu á undan öðrum á hverjum morgni.  


mbl.is Íþróttir í 100 ár – viðamikil ljósmyndasýning verður opnuð á Akranesi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband