Kanarnir geta tekið við sér.

Bandaríkjamenn geta stundum verið seinir að taka við sér, en þegar þeir loksins gera það, getur munað um það. 

Fram til 7. desember 1941 héldu þeir í vonina um að geta horft álengdar á önnur stórveldi í styrjöld og voru þó búnir að þrengja svo mjög að Japönum hvað snerti ýmsa hráefnisöflun þeirra,  að tilefni til styrjaldar var orðið ærið.

Eftir árásina á Perluhöfn tók þá aðeins sjö vikur að stöðva alla bílaframleiðslu og breyta verksmiðjum sínum í hergagnaverksmiðjur sem dældu út 50 þúsund flugvélum á ári auk ógrynnis af öðrum vígvélum.

Hitler gerði í fyrstu gys að þeim áætlunum en fékk fljótlega að kenna á bitrum veruleikanum.

Á síðari hluta sjöunda áratugarins var orðið ólíft í mörgum borgum Bandaríkjanna vegna ofboðslegrar mengunar af völdum eiturspúandi bílaflota.

Þá tóku þeir rösklega við sér og ástandið snarlagaðist á ótrúlega stuttum tíma vegna róttækra aðgerða þegar notkun blýs var bönnuð og settir hvarfakútar í bíla.

Í kjölfar olíukreppunnar 1979 fékk umhverfisverndarstofnunin (Environmental Protection Agency, skammstafað EPA mikið vald og setti til dæmis harða staðla um leyfilega meðaleyðslu fólksbílanna sem verksmiðjurnar framleiddu.

Stofnunin dældi út EPA-stöðlum á báða bóga en bílaframleiðendum tókst að nýta sér glufu í lagasetningunni hvað varðaði pallbíla og fjölnotabíla með því að gera slíka bíla að tískufyrirbrigði, en þeir voru undanþegnir skyldu til bensínsparnaðar. 

Stofnunin hefur allan tímann haldið eftir miklu valdi, sem nú er hægt að nota til þess að taka Bandaríkjamenn upp á eyrunum án þess að það þurfi að tefjast um of í þinginu.

Það er því líklegt að rétt eins og skammstöfunin AGS er orðin okkur Íslendingum munntöm síðustu mánuðu muni íslenska skammstöfunin UVS  (Umhverfis Verndar Stofnunin) sem þýðing á EPA verða áberandi í umræðunni hér á landi. 

Því miður var of stutt og ófullkomin sú umræða sem var í Kastljósi í kvöld um þessi málefni.

Það þarf ekki að deila um hlýnunina. Ellefu heitustu árin í 150 ára sögu mælinga hafa verið síðustu 15 árin og hröð jökla og hafíss getur ekki átt sér stað í kólnandi árferði.  

 


mbl.is Bandaríkin taka á loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkindatól.

Stefán Karl Stefánsson er eitthvert mesta ólíkindatól sem ég hef kynnst og hef ég þó kynnst þeim mörgum á löngum ferli. 

Hann er hættur að koma mér á óvart eftir að hann lék með Stjörnuliðinu í knattspyrnu og fór þar jafnvel enn meiri hamförum en á leiksviðinu. 

Á undan honum hafði Magnús Ólafsson, náfrændi hans, verið í liðinu, svo að maður átti von á ýmsu, en þó ekki því sem Stefán Karl gerði í fyrsta leik sínum með liðinu á þúsund stráka Shell-móti í Eyjum en í 24 ár var það fastur liður á mótinu.

Í Stjörnuliðinu hafa leikið heimsfrægir menn eins og Magnús Scheving með sín einstöku innköst og Albert Guðmundsson með dæmalaus tilþrif,  og Jón Páll Sigmarsson og Magnús Ver með kraft sinn og líkamsburði, enda skilyrði að liðsmenn séu þekktar poppstjörnur, söngvarar, leikarar, stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn.

Knattsnillingarnir Hemmi Gunn og Rúni Júl og hinn dæmalausi Laddi koma upp í hugann, svo og óvænt atvik eins og þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri plataði alla upp úr skónum og skoraði tvö glæsimörk og sýndi, að á sínum tíma hefði hann getað fetað svipaðan veg og vinur hans og líka Eyjapeyi, Ásgeir Sigurvinsson.  

En það sem Stefán Karl gerði, var algerlega dæmalaust. Þegar hann lék sinn fyrsta leik var enginn lyftingakappi í liðinu en einmitt í þetta skipti voru aflraunamenn og kraftajötnar þarna sem sérstaka sýningu.

Þeir buðu viðstöddum að reyna afl sitt við stóra hellu sem enginn gat lyft, en þá brá svo við að Stefán Karl snaraðist til og meðhöndlaði helluna þannig að allir stóðu á öndinni af undrun.

Síðan þetta gerðist kemur ekkert sem þessi maður afrekar mér á óvart.  


mbl.is Frammistaða Stefáns Karls lofuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt er áttræðum fært!

516993A

 

Mörgum mögnuðum mönnum hef ég kynnst um dagana vegna starfa minna og Pétur H. Ólafsson var einn þeirra.

Hann varð ekki áberandi í þjóðlífinu fyrr en hann var kominn á þann aldur þegar flestir eru búnir að draga sig í hlé.

Hann sannaði ekki aðeins máltækið að allt sé fertugum fært, heldur ekki síður að allt sé sjötugum og áttræðum fært svo framarlega sem heilsan bilar ekki.

En hugsunarháttur Péturs var út af fyrir sig heilsubót og átti áreiðanlega þátt í því hve langlífur hann var.

Öll merkustu verk hans vann hann eftir að hann var orðinn 75 ára en þau fólust einkum í því að vera vakinn og sofinn í að hvetja aldraða til þess að lifa lífinu og láta til sín taka.

Fyrstu fréttina af honum gerði ég þegar ég hitti hann í hópi aldraðra sem hann fékk með sér í sjóferð vestur á Hornstrandir ef ég man rétt. Þetta var svo óvenjulegt og þarft framtak að það var fréttnæmt.

Þegar þessi aldursflokkur fer vaxandi er mikil þörf fyrir menn eins og Pétur, Gunnar Eyjólfsson Ragnar Bjarnason og Skafta Ólafsson.

Ævilhlaup Péturs var með einhverjum frækilegasta endaspretti sem hægt er að hugsa sér.  Blessuð sé minning hans.  


mbl.is Andlát: Pétur H. Ólafsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að "lesa mótherjann."

Það er þekkt fyrirbæri í íþróttum og viðskiptum að það skiptir ekki mestu máli hvað viðkomandi íþróttamaður hefur fram að færa í viðskiptum hans við mótherjana eða þann sem viðskiptin eru við, heldur að kortleggja hugarfar og áætlanir mótherjans og eiga svör við þeim. 

Ég bloggaði strax um það þegar hrunið varð hvernig ég varð vitni að því erlendis að áliti umheimsins á Íslandi var "sturtað niður í klósettið" eins og ég orðaði það þegar baneitraðar setningar úr frægu Kastljósviðtali við Davíð Oddsson um að "Íslendingar borguðu ekki" voru spilaðar æ ofan í æ í fréttum sjónvarpsstöðvanna. 

Traust og álit landsins, sem byggt hafði verið upp með áratuga striti fauk út um gluggann á nokkrum sekúndum. 

Daginn eftir fékk ég að heyra það frá ósköp venjulegum sjónvarpsáhorfendum þegar ég sagðist vera Íslendingur að ég væri einn af skúrkunum sem ekki borgaði. Ég reyndi að útskýra málið en miskunnarlaus myndin sem gefin hafði verið upp í sjónvarpsfréttunum reyndist sterkari.

Allt sem gerst hefur síðan í samskiptum okkar við útlendinga kemur mér ekki á óvart, hvorki tölvuskeyti fram og til baka milli málsaðila né fréttir um "alþjóðlegt samsæri gegn okkur" og "umsátur um Ísland."

Þetta lítur hins vegar öðruvísi út hjá þeim, sem hafa ekki séð utan frá í hvaða ljósi viðsemjendur okkar á alþjóðavettvangi sjá okkur.

Ísland er eyja og háð samskiptum við útlönd á flestum sviðum.

Þetta hefur alltaf verið svona. Dæmi um það er þegar Íslendingar gátu ekki lengur tryggt siglingar til landsins vegna óreiðu innanlands og eyðingar íslensku skóganna af mannavöldum og urðu að gera um það saming við Noregskonung með Gamla sáttmála sáttmála að þessu yrði bjargað.

Við verðum að horfast í augu við þann blákalda veruleika að álit og traust útlendinga á okkur er almennt fokið út í veður og vind og að framundan er löng og ströng barátta við að endurheimta það og útskýra aðstöðu okkar fyrir öðrum þjóðum og afla þeim skilnings. 

Útlendingar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í viðskiptum við okkur og því á það ekki að koma okkur á óvart að þeir beri saman bækur sínar gagnvart því hvernig þeir skipta við okkur.

Það á heldur ekki að koma á óvart að af hálfu okkar ráðamanna sé á sama hátt reynt að tala við þessa "umsátursmenn" ýmist hvern fyrir sig eða fleiri í einu til að reyna að þoka málum fram.

Það þýðir ekki fyrir okkur að vera í afneitun, svipað og þegar handboltalið eyðir allri orkunni í að fást um dómgæsluna og hættir að geta spilað. Við verðum að kortleggja mótherjana og taka slaginn við þá eftir að besta leikaðferðin er fundin. 

Hún finnst með því að setja sig í þeirra spor og sjá hvað þeir ætlast fyrir og af hverju.  

Auðvitað höfðu aðilar málsins, erlendar þjóðir og alþjóðastofnanir sem við leituðum til um aðstoð, samband sín á milli, leynd eða ljós, og auðvitað urðu íslenskir ráðamenn að hafa ljós eða leynd samskipti við þá. 

Mættu þess vegna gera meira af því hvar sem því verður við komið og þess vegna líka á hærri stigum stjórnsýslunnar .  

 

 

 

 


mbl.is „Eðlileg samskipti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband